Samstarf fagstétta í heilsugæsluþjónustu

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:42:51 (3709)

2002-01-29 15:42:51# 127. lþ. 62.8 fundur 55. mál: #A samstarf fagstétta í heilsugæsluþjónustu# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Ásta Möller:

Herra forseti. Til umfjöllunar er till. til þál. um aukið samstarf fagstétta í heilsugæsluþjónustu. Það er ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar er að efla heilsugæsluna í landinu og ég vil segja að þessi tillaga er til þess fallin að nálgast það markmið.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu kemur fram að heilsugæslustöðvum eru falin afar umfangsmikil verkefni eins og kemur fram í 19. gr. laganna og talið er upp í greinargerð með þáltill. Ljóst er að fæstar heilsugæslustöðvar hafa möguleika á að sinna öllum þessum þáttum sem koma fram í 19. gr. heilbrigðisþjónustulaga. Mörg þessara verkefna eru ekki eingöngu á færi þeirra stétta sem nú eru starfandi innan heilsugæslunnar, lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, heldur eru þetta verkefni sem aðrar starfsstéttir bera meginábyrgð á. Mörg þessara verkefna eru ekki unnin innan heilsugæslustöðvanna í dag. Þau eru unnin hjá nefndum og ráðum og stofnunum utan heilsugæslunnar. Full ástæða er til að skoða samhengið milli þessara hluta, hvað eigi að vinna innan heilsugæslunnar og hvað utan og hverjir eigi að halda utan um hvert atriði.

Hér efst á síðu 2 er liður 5.15. Atvinnusjúkdómar en það er alveg ljóst að þó að verkefnið atvinnusjúkdómar eigi samkvæmt lögum að vera á höndum heilsugæslunnar eða sjúkrahúsa þá hafa þau ekki getað sinnt þessu hlutverki. Ef ég man rétt var í frv. um heilsuvernd starfsmanna --- um vinnuvernd heitir það víst --- gert ráð fyrir að m.a. aðilar utan heilbrigðiskerfisins, sjálfstætt starfandi aðilar, tækju þetta verkefni yfir.

Ég vil því lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. og að tækifærið verði notað til þess að skoða samspil ýmissa aðila varðandi þau verkefni sem talin eru upp í heilbrigðisþjónustulögunum og jafnframt skoðað hvort ástæða sé til þess að endurskoða heilbrigðisþjónustulögin í því sambandi til þess að alveg ljóst verði hver beri ábyrgð á hvaða verkefni, því öll þessi verkefni eru afar mikilvæg.