Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:58:18 (3714)

2002-01-29 15:58:18# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Minn flokkur, Samfylkingin, vill beita sér fyrir samfélagi þar sem velferðarþjónustan er öflug. En góð og öflug velferðarþjónusta kostar mikið fjármagn. Þess vegna verður hún að styðjast við traust og öflugt atvinnulíf. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni lagt okkar af mörkum til að benda á nýjar leiðir í atvinnulífi landsmanna. Við höfum gert það í fjölmörgum málum, en ekki síst í sjávarútvegi. --- Af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gengur nú í salinn, en hann gegnir jafnframt formennsku í sjútvn., þá veit ég að honum er mætavel kunnugt um að við höfum flutt hér fjölmargar tillögur sem að þessu lúta.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson mælti fyrir tillögu sem við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar flytjum um rannsóknir á þorskeldi. Við erum þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé ákaflega brýnt að við reynum eftir því sem föng eru á að efla þau verðmæti sem hægt er að búa til úr sjávarútvegi. Það er hægt með ýmsu móti. Það er hægt með því að nýta betur þann afla sem við erum núna að taka úr sjónum. Ég bendi t.d. á, herra forseti, að við erum að veiða 300.000 tonn af kolmunna sem öll fara í bræðslu. Við veiðum mikið af síld sem fer öll í bræðslu. Sama gildir um loðnu.

Við erum þeirra skoðunar að hægt sé með aðstoð tækninnar að nýta þennan mikla afla til að búa til hágæðaprótein sem er gull framtíðarinanr í sjávarútvegi. Þá má spyrja sem svo: Hvaðan ætlum við þá að fá bræðslufiskinn til þess að búa til fóður fyrir þorskeldi framtíðarinnar? Við höfum bent á það með því að leggja fram sérstakar þáltill. sem benda á nýjar tegundir, nýjar aðferðir, nýjar leiðir til þess að afla þess.

[16:00]

Jafnframt, herra forseti, er alveg ljóst að til þess að ná þessu marki okkar þurfum við líka að fara í í það sem hér er til umræðu, þ.e. fiskeldi. Við höfum áður reynt fyrir okkur í því og ekki með góðum árangri. Hér er ég að vísa til reynslu okkar af laxeldi, herra forseti. Við höfum lært af þeirri reynslu og ég held að fram undan sé glæstur tími í eldi okkar Íslendinga.

Þorskeldi er sannarlega eitt af því sem við þurfum að huga að. Ef við horfum til nágrannaþjóðanna þá sjáum við að þær eru allar með hugann við þorskeldi. Þær eru allar að leggja fjármagn í þorskeldi. Skoðum Norðmenn, herra forseti, sem eiga glæsta sögu að því er varðar fiskeldi. Þegar þessi þáltill. okkar var rituð og lögð fram í fyrra var áformað af hálfu Norðmanna að framleiða 50.000 tonn af þorski á næstu árum. Nú eru þeir farnir að tala um 300.000 tonn. Þetta kunna að þykja óskaplega háar tölur. Ég vísa þá til þess, herra forseti, að 1990 töluðu Norðmenn um að framleiða 300.000 tonn af laxi þegar kæmi að aldamótum. Þegar upp var staðið þá framleiddu þeir 650.000 tonn. Ég held að það sé ljóst að hér sé um raunhæfar áætlanir að ræða.

Þorskur er tegund sem er auðveld í eldi. Það er fyrst og fremst einn tiltekinn skavanki á að framleiða hann í miklu magni. Það felst í því að á unga aldri finnst honum ekkert eins gott að éta og annan þorsk, yngri en hann og smærri en hann sjálfur. Þetta hefur leitt til vandkvæða í eldi og stafar af því, herra forseti, að okkur hefur ekki tekist að búa til fóður sem hentar honum nægilega vel. Nú eru í gangi hér á Íslandi tilraunir sem lofa þokkalegu. Í kjördæmi hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar eru t.d. ákaflega merkar tilraunir farnar af stað með þorskeldi, ekki bara áframeldi í kvíum á þorski sem færður er lifandi að landi og veiddur í hafi heldur eru menn líka að búa sig undir tilraunir þar með fóðurframleiðslu fyrir seiði.

Ég tel, herra forseti, að eitt af því arðvænlegasta sem Íslendingar geta fest fé í um þessar mundir séu rannsóknir á þessari undirstöðugrein sem þorskeldið á að verða í sjávarútvegi framtíðarinnar. Til þess þarf hins vegar að móta skýra stefnu. Sú stefna er ekki til eins og sakir standa. Þess vegna höfum við þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram þessa tillögu.

Ég held að við ættum líka að horfa til þeirrar staðreyndar að við búum að ákaflega þróuðu og öflugu sölukerfi fyrir sjávarútveginn. Samlegðaráhrif þorskeldis og þessa sölukerfis hljóta því að verða ákaflega mikil og jákvæð.

Reynslan af laxeldi sýndi að það gekk ekkert mjög illa að ala laxinn en það var miklu erfiðara að selja hann, ég tala nú ekki um hve erfitt var að fá fyrir hann þokkalegt verð. Hins vegar er það svo með þorskinn að Íslendingar eiga öflugasta sölukerfið fyrir þorsk í veröldinni. Þess vegna er ég sannfærður um að þegar þorskeldi kemst á legg verði miklu auðveldara fyrir okkur að afsetja þá vöru en laxinn á sínum tíma.

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem Samfylkingin flytur og horfir mjög til framtíðar. Ég vænti þess að það fái góðar undirtektir hjá hinu háa Alþingi. Auðvitað er hér um framfaramál að ræða sem er ekki bara bundið við Samfylkinguna, þrátt fyrir frumkvæði hennar í málinu. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að í öllum öðrum stjórnmálaflokkum er að finna menn sem hafa áhuga og grundvallarþekkingu á mörgum þáttum sem lúta að þorskeldi.

Ég held þess vegna, herra forseti, að þessi tillaga og aðrar skyldar tillögur sem fram hafa komið, verðskuldi að sjútvn. fari um þær gagnrýnum, en mildum höndum og skili þeim aftur hingað til afgreiðslu í einhverju formi þegar líður fram á vorið.