Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:04:56 (3715)

2002-01-29 16:04:56# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um rannsóknir á þorskeldi. Ég vil bara segja hér úr ræðustóli að þessi tillaga er góðra gjalda verð. Hún var lögð fram fyrir tveimur árum en vert er að geta þess að í millitíðinni er hafið þorskeldi í Eyjafirði. Útgerðarfélag Akureyringa hefur hafið tilraunaeldi á þorski og mér skilst að það lofi góðu. Auðvitað þarf til rannsóknir og tilraunir sem taka langan tíma. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þegar hann dregur það fram að kynbótaþátturinn skipti þar miklu máli. Nú þegar þetta er hafið er mjög mikilvægt að við hér á hinu háa Alþingi tökum vel undir og styðjum við bakið á þeim sem fara af stað með slíkt eldi. Það er ljóst að þessi vegferð er löng áður en hún fer að skila árangri. Sem dæmi má nefna lúðueldi sem farið var út í við Eyjafjörð. Það er talsvert á annan áratug síðan sú tilraunastarfsemi hófst sem nú á allra síðustu missirum og árum er farin að skila verulegum arði og afkomumöguleikum.

Virðulegi forseti. Það var aðeins þetta sem ég vildi árétta. Síðan þessi þáltill. var lögð fram fyrir tveimur árum hafa fyrirtækin sem ég nefndi, og að mig minnir á einum öðrum stað á landinu, tekið við sér og farið í þetta eldi upp á eigin spýtur, e.t.v. með einhverjum smávægilegum styrkjum. Það er góðra gjalda vert að við styðjum við bakið á slíkri tilraunastarfsemi.