Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:07:18 (3716)

2002-01-29 16:07:18# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég hygg að engan hefði getað órað fyrir þeirri öru þróun sem hefur orðið í þorskeldi hér á landi á allra síðustu árum. Það eru örfá ár síðan að ég held að varla nokkrum manni hefði dottið í hug að þorskeldi gæti orðið alvöruatvinnugrein hér á landi. Menn tóku samt að fikra sig áfram í þessum efnum. En þróunin hefur verið miklu hraðari en menn hugðu og það er auðvitað vel. Menn standa um þessar mundir mjög vel að þessu máli.

Það er engin vafi á að vagga þessa eldis hefur verið á Vestfjörðum, þ.e. bæði í Skutulsfirði og á norðanverðum Vestfjörðum. Á Tálknafirði og Patreksfirði hefur verið unnið að þessu í allnokkur ár þannig að þetta er ekki nýtilkomið þar. Fram undan er ráðstefna um stöðu og framtíðarsýn í þorskeldi á Vestfjörðum sem haldin verður á Ísafirði. Í gögnum sem lögð voru fram til undirbúnings þess fundar kemur m.a. fram að yfir 90% þess eldisþorsks sem hefur komið til slátrunar á Íslandi hefur verið í eldi á Vestfjörðum. Við erum sem betur fer komin dálítið áleiðis með þetta mál þó að auðvitað, eins og fram kemur hér í þessu plaggi, þurfi að hyggja miklu betur að rannsóknum í þessum efnum. Við megum ekki brenna okkur á því sem við lentum í fyrir nokkrum árum að þekkja kannski ekki nægilega vel til í þessari vandmeðförnu atvinnugrein og fara flatt á þessu.

Það eru gríðarlega miklir möguleikar í þessum efnum og gætu orðið að vaxtarbroddi í einum þætti sjávarútvegsins, fiskvinnslunni, þ.e. útflutningi á ferskum fiski. Það er forsendan fyrir því að hægt verði að tryggja öruggt, stöðugt og nægjanlegt hráefni fyrir ferskfiskútflutning, að menn geti reitt sig á að geta alltaf fengið hráefni til vinnslu. Þetta er ein forsendan fyrir því. Þau fyrirtæki, til að mynda Hraðfrystihúsið Gunnvör á Ísafirði, sem hafa verið að að vinna í þessu horfa m.a. til þessa, enda hefur það fyrirtæki haslað sér mjög völl í útflutningi á ferskum fiski.

Til gamans og kannski til upplýsingar líka get ég sagt frá því að segja má að farið hafi fram óbein tilraun á því hvað þessi þorskur þolir með því að þetta eldi fór fram í litlu keri fram undan Brjótnum í Bolungarvík í einn eða tvo vetur. Til þess að skapa þessu keri skjól varð að hafa það nokkuð nálægt Brjótnum bak við nýja hafnargarðinn. Það þurfti líka að koma snjónum af götunum og eins og vanalega var honum sturtað fram af Brjótnum og dálítið af kögglunum lenti ofan í þessu keri en þorskurinn lifði hins vegar ágætlega af þennan vetur. Einn þeirra sem fylgdist mest með þessu sagði að þorskurinn hefði verið eins og í góðu viskíglasi, innan um alla klakana og sýndi bara sæmilega afkomu eftir árið.

Ég held því að þar hafi farið fram heilmikil vísindaleg rannsókn á þessu afbrigði, sem er Íslandsþorskurinn, hvað hann þolir þrátt fyrir allt og hverjir möguleikar hans eru á að lifa af við býsna erfiðar aðstæður.

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég er mjög jákvæður gagnvart þessu máli og heiti því að það fái ágæta umfjöllun í hv. sjútvn. Ég ítreka að ég tel eðlilegt að við horfum til þeirrar reynslu sem hefur fengist, bæði í Eyjafirði og ekki síst á Vestfjörðum, þar sem menn hafa verið að stunda þetta eldi um nokkurra ára skeið.