Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:11:06 (3717)

2002-01-29 16:11:06# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ákaflega jákvæðar undirtektir við þessa tillögu.

Út af fyrir sig er það rétt sem hv. þm. segir, að vagga þorskeldis hefur örugglega staðið traustum fótum á Vestfjörðum. Þó minni ég hv. þm. á að þeir Álftfirðingar eystra, hafa líka reynt nokkuð fyrir sér í þorskeldi með giska góðum árangri. Svo má ekki heldur gleyma því að þær tilraunir sem núna eru að fara í gang á Vestfjörðum með áframeldi á þorskseiðum, með aðstoð og framlagi vestfirskra stórfyrirtækja á sviði sjávarútvegs, byggja á seiðum sem koma héðan af suðausturhorninu.

Það sem mig langaði til þess að spyrja hv. þm. um er hins vegar þetta: Hann er formaður sjútvn. og einn af forustumönnum Sjálfstfl. á sviði sjávarútvegs. Ef hann hefur þá trú á þorskeldi sem speglaðist í ræðu hans, telur hann þá ekki miðað við reynsluna að nauðsynlegt sé, þegar við reynum að meta hvað fór úrskeiðis í laxeldinu, að hið opinbera komi sterkar inn í þetta? Ég er þá að velta því fyrir mér hvort ekki þurfi með einhverjum hætti að marka þessu traustan þátt á fjárlögum.

Það er mikill hugur í stórfyrirtækjum á sviði sjávarútvegs hvað þetta varðar. Þau eru reiðubúin til að leggja nokkurt framlag, fjármagn og búnað til tilraunaeldis á þorski. En ég held t.d. að seiðaeldið, sem er forsenda þess að þetta geti orðið að stóriðnaði á Íslandi, sé þess eðlis að bæði þurfi rannsóknarlegan atbeina ríkisvaldsins en líka fjárframlög frá upphafi og bernskuskeiði þessarar nýju atvinnugreinar. Er hann ekki sammála mér um að ef vel á að takast til þá þurfum við að fá fjármagn frá hinu opinbera, a.m.k. í þennan þátt þorskeldisins?