Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:13:18 (3718)

2002-01-29 16:13:18# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það er út af fyrir sig engin ástæða til að karpa um hvar menn hafi staðið sig best í þessum efnum hingað til. Ég vildi eingöngu vekja athygli á þeirri staðreynd að 90% af þeim eldisþorski sem slátrað hefur verið á síðustu þremur árum hefði verið alinn á Vestfjörðum. Það var nú ekki annað en það sem ég vakti athygli á, sem mér finnst kannski hafa legið fullmikið í þagnargildi og menn hafa kannski ekki áttað sig á umfangi þess eða að menn eru þó alla vega komnir svolítið af stað þar. En svo er auðvitað víðar og það ber að þakka.

Hv. þm. spurði mig hvort ég teldi ekki að ríkisvaldið þyrfti að koma betur inn í þetta. Ég er út af fyrir sig sammála hv. þm. um að varðandi rannsóknaþáttinn eigi ríkið að koma af meiri krafti inn í þetta en verið hefur. Við höfum þó aðeins verið að feta okkur áfram á þessari braut, bæði í fjárlögunum á þessu ári og að mig minnir líka á fjárlögunum fyrir síðasta ár. Þar mátti sjá viðleitni til að koma að þessu máli.

Ég verð hins vegar að vekja athygli á því að þróunin hefur verið hraðari en okkur óraði fyrir. Oft á tíðum er það þannig að atburðarásin tekur völdin og þá er ríkisvaldið auðvitað stundum seinna að taka við sér.

En ég er sammála hv. þm. um að þarna er um að ræða mjög athyglisvert mál. Ég held hins vegar að menn verði að gæta sín á að fá ekki glýju í augun, a.m.k. að misstíga sig ekki. Lærdómurinn sem mér hefur sýnst að við ættum að draga af mistökum fyrri ára er ekki síst að við þurfum að auka rannsóknir áður en farið verður út í miklar fjárfestingar.