Lyfjatjónstrygging

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:35:20 (3724)

2002-01-29 16:35:20# 127. lþ. 62.11 fundur 127. mál: #A lyfjatjónstrygging# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég stend upp til að lýsa stuðningi við frv. til laga um lyfjatjónstryggingu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Eins og fram kom í máli flutningsmanns getur svo farið, þrátt fyrir lög um sjúklingatryggingar og um skaðsemisábyrgð, að hugsanlegt sé að tjón af völdum lyfja, aukaverkana lyfja, geti fallið þarna á milli. Þetta er mjög efnismikið frv. og vandað er til þess.

Herra forseti. Komið hefur í ljós að því meira sem við, sem teljum okkur hafa vísindin á valdi okkar og þekkja til starfsemi líkamans, kynnumst starfseminni og förum niður í hinar minnstu einingar sjáum við að okkur skortir töluverða þekkingu, hvað þá þegar kemur að áhrifum flókinna lyfja og samverkan mismunandi lyfja, enda er að koma í ljós að við höfum ekki verið nægilega vakandi. Það á ekki bara við okkur Íslendinga heldur einnig hinar iðnvæddu þjóðir sem hafa ráð á því að kaupa og nota dýr og flókin lyf að aukaverkanir hafa verið að koma fram eftir lengri tíma. Að hluta til er það vegna samverkunar mismunandi lyfjaflokka. Við þurfum í framtíðinni að vera miklu betur vakandi vegna aukaverkana og gagnvart því að þær komi fram nokkrum árum eftir að lyfin eru tekin. Það er því mikil ábyrgð að framleiða lyf, enda er það ferli og eftirlit mjög nákvæmt og flókið m.a. hvað varðar rannsóknir og markaðssetningu á lyfjum. Fara þarf eftir mjög ströngum reglum og við föllum undir reglur ESB. En þó að gerðar séu vandaðar klínískar rannsóknir og lyf séu sett á markað samkvæmt ströngustu og ýtrustu varkárni geta aukaverkanir eftir sem áður komið fram og afleiðingarnar verða oft alvarlegar.

Herra forseti. Ég lýsi ánægju með þetta frv. og vona að það fái meðferð í þinginu þannig að við náum að afgreiða það út úr nefndinni og það komi til afgreiðslu á þessu þingi.