Lyfjatjónstrygging

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:38:43 (3725)

2002-01-29 16:38:43# 127. lþ. 62.11 fundur 127. mál: #A lyfjatjónstrygging# frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um lyfjatjónstryggingu. Þetta frv. er allrar athygli vert. Fram kemur í greinargerð með frv. að fyrirmynd að því er sótt til Danmerkur. Það sama átti við um frv. sem var lagt fram fyrir réttum tveimur árum, frv. um sjúklingatryggingu. Það fór í gegn og var samþykkt vorið 2000. Þau lög fólu í sér mikla réttarbót fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir heilsuskaða hvort heldur er af líkamlegum eða geðrænum toga af völdum meðferðar hjá heilbrigðisstofnun hérlendis eða erlendis á vegum íslenskra aðila.

Lög um sjúklingatryggingu taka almennt á heilsuskaða sem einstaklingur kann að hafa orðið fyrir á heilbrigðisstofnunum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum. Einnig tóku lögin til atvika þar sem heilsuskaði verður af völdum rangrar lyfjagjafar, t.d. vegna mistaka við ávísun, afgreiðslu eða afhendingu lyfs úr hendi heilbrigðisstarfsmanns. Hins vegar segir í lögum um sjúklingatryggingu sem voru samþykkt fyrir tveimur árum að þau eigi ekki við um tjón sem rekja má til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð eins og segir í 3. gr. laganna. Um þetta atriði sagði eftirfarandi í greinargerð með því frv. sem ég var að vísa til, með leyfi forseta:

,,Hér er undanþegið tjón af skaðlegum eiginleikum lyfja eftir því sem nánar er greint í ákvæðinu. Tjón af völdum lyfja fæst yfirleitt bætt hjá þeim sem er bótaskyldur samkvæmt réttarreglum um skaðsemisábyrgð. Ef þetta væri fellt undir sjúklingatryggingu mundi kostnaður við hana aukast að mun.``

Því er ljóst að lög um sjúklingatryggingu tekur til tilvika þar sem sjúklingur hefur orðið fyrir tjóni vegna þess að læknir gefur röng eða ófullnægjandi fyrirmæli um töku lyfja eða ef starfsfólki verða á mistök við lyfjagjöf, eins og segir í greinargerð með því frv.

Eins og ég sagði hér á undan eiga lög um sjúkratryggingu sér fyrirmynd á Norðurlöndum. Hún tekur að jafnaði ekki til tjóns af völdum lyfja. Á Norðurlöndum hefur verið komið á fót sérstökum lyfjatjónstryggingum sem greiða bætur fyrir líkamstjón af völdum skaðlegra eiginleika lyfjanna. Slíkar tryggingar eru hliðstæðar sjúklingatryggingu og bera framleiðendur og innflytjendur lyfja kostnað af þeim iðgjöldum til vátryggingafélaga sem annast hana.

Í greinargerð með frv. um sjúklingatryggingu segir eftirfarandi um þetta, með leyfi forseta:

,,Tjón vegna eiginleika lyfs fellur því undir lög um skaðsemisábyrgð auk þess sem tjón af völdum lyfja getur undir tilgreindum kringumstæðum fallið undir ákvæði laga um sjúklingatryggingu.``

Svo kemur þetta:

,,Þrátt fyrir þetta munu einhver lyfjatjón hvorki falla undir lögin um skaðsemisábyrgð né lögin um sjúklingatryggingu. Ýmis rök mæla með því að samhliða sjúklingatryggingu verði stofnað til lyfjatjónstrygginga hér á landi á sambærilegan hátt og í nágrannalöndunum. Með slíkri löggjöf mundu bætur fyrir hvers kyns tjón af völdum eiginleika lyfja vera tryggðar.``

Í 1. umr. um frv. til laga um sjúklingatryggingu innti ég hæstv. þáv. heilbrrh. eftir því hvort áform væru um að setja slíkar lyfjatjónstryggingar á laggirnar. Af orðum ráðherra mátti ráða að ákvörðun um slíkt hefði ekki verið tekin. Nú hefur hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir tekið ómakið af ráðherra og flytur nú frv. um lyfjatjónstryggingu. Með slíku frv. er stoppað upp í gat í réttarstöðu sjúklinga sem full þörf er á og ástæða er til þess að hrósa því framtaki. Því vil ég hvetja hv. heilbrn. til að skoða frv. til hlítar og með jákvæðum huga.