Rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:44:39 (3727)

2002-01-29 16:44:39# 127. lþ. 62.12 fundur 131. mál: #A rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar# þál., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu sem við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar flytjum og varðar rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar. Fram kom í umræðum fyrr í dag að eitt af því sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt mikla áherslu á er að benda á leiðir til þess að auka framleiðslu og verðmæti þjóðarbúsins.

[16:45]

Ljóst er, herra forseti, að helsta undirstaða þjóðarbúsins er enn í dag sjávarútvegur. Margt bendir til þess að svo verði enn um langa hríð. Það skiptir miklu máli að okkur takist að auka andvirði þess afla sem við drögum úr hafinu. Það getum við gert með fiskeldi, ekki síst þorskeldi eins og við höfum reifað í tillögum okkar fyrr í dag, þingmenn Samfylkingarinnar. Við getum líka gert það með því að gera okkur meiri mat úr þeim afla sem dreginn er úr villtum stofnum hafsins. Við getum gert það með því að nýta betur þær tegundir sem við veiðum en líka með því að efna til veiða á nýjum tegundum.

Ein þeirra tegunda sem við Íslendingar höfum freistað að skapa verðmæti úr á síðustu árum er kúfskel. Vestfirðingar urðu fyrstir til að reyna að nýta tegundina með skipulegum hætti. Tilraunaveiðar á kúfskel hófust á Vestfjörðum, á Flateyri við Önundarfjörð. Þær gengu þokkalega og bentu til að hægt væri að nýta tegundina með nokkuð góðum árangri. Það gekk samt sem áður ekki eftir. Þar komu til ýmsir byrjunarörðugleikar, herra forseti, skortur á góðum skipum og líka skortur á rannsóknum.

Nú má segja að frumherjastarfið í þessari grein hafi færst þvert yfir landið. Það er nú staðsett á Þórshöfn þar sem Hraðfrystistöð Þórshafnar hefur sýnt ákaflega jákvætt frumkvæði við að nýta þessa tegund. Þar hafa menn ráðist í stórfelldar fjárfestingar. Ég held ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi, herra forseti, að HÞ hefur fjárfest hátt í 400 millj. kr. í þessari nýju grein sjávarútvegs. Segja má að reynslan frá Þórshöfn bendi sterklega til þess að með góðu skipi, réttum vinnubrögðum og farsælli markaðssetningu sé hægt að skapa ákaflega mikilvægan gjaldeyri og verulegan fjölda starfa í tengslum við kúfskelina.

Á Þórshöfn starfa fjórir sjómenn við veiðarnar, 14--18 starfsmenn starfa við vinnsluna. Þar vinna menn á einni vakt. Það er stefnt að því að taka upp aðra vakt sem þýðir að á þessum tiltölulega fámenna stað muni innan skamms allt að 35 manns geta starfað að veiðum og vinnslu á kúfskel. Þetta skiptir ákaflega miklu máli, herra forseti. Það hefur tekist með réttum vinnubrögðum og markaðssetningu að finna góða, trygga markaði fyrir tilteknar afurðar þessarar tegundar. Maður spyr auðvitað sjálfan sig: Fyrst þetta er hægt á Þórshöfn er þetta ekki hægt víðar?

Eitt af því sem vantar til að menn geti óhræddir gefið fleiri leyfi til veiða á kúfskel --- í dag er staðan þannig að þetta er kvótabundin tegund og einungis handhafar leyfa geta ráðist í veiðarnar --- er að ráðast í rannsóknir á veiðiþoli stofnsins. Líffræði tegundarinnar er þannig að margt bendir til þess að stofnunum geti verið hætta búin ef farið verði ótæpilega í veiðarnar. Til þess að menn geti metið það þarf auðvitað að rannsaka hve stór stofninn er og hve mikið er hægt að veiða.

Þekkingin á útbreiðslu tegundarinnar, bæði hin landfræðilega þekking og eins eftir dýpi, er hins vegar af ákaflega skornum skammti. Þessi tegund festir aðallega bú sitt á leirkenndum og fínum, sandbornum botni. Fyrir strönd Suðurlandsins er t.d. að finna gríðarlega víðfeðm botnsvæði sem eru einmitt þeirrar tegundar. Maður gæti í fljótu bragði ætlað að Sunnlendingar gætu, t.d. frá þeim ágætu útgerðarstöðum sem þar er að finna, ráðist í verulega umfangsmiklar veiðar á þessari tegund. Hins vegar hefur aldrei verið kannað með hvaða hætti kúfskel hefur breitt sig út fyrir Suðurlandi. Það er eini fjórðungurinn þar sem menn hafa ekkert reynt að kanna hvernig kúfskel hagar tilvist sinni eða hvort hana er þar að finna. Miðað við þá þekkingu sem við höfum á botnsvæðunum, a.m.k. frá því að ég var sjómaður fyrir Suðurlandinu fyrir nokkrum áratugum, ætti þar að vera kjörsvæði skeljarinnar. Mundi það ekki skipta máli fyrir t.d. Þorlákshöfn, Vestmannaeyjar og Höfn í Hornafirði ef hægt væri að ráðast í útgerð á kúfskel? Að sjálfsögðu mundi það skipta máli.

Hins vegar er ekki hægt að ætlast til að fyrirtæki, þó stöndug séu á sjávarútvegssviði, ráðist í jafngríðarlegar fjárfestingar og menn hafa gert á Þórshöfn nema þess sé að vænta að hægt sé að draga nokkurn afla að landi. Enn er þessi grein þess eðlis að það stendur glöggt hvort veiðar og vinnsla standa undir sér. Það er enn þannig að menn eru að flytja út tiltölulega lítt unnar afurðir. Ef hægt væri að auka vinnsluna í landi og þar með vinnsluvirðið þá dreg ég ekki í efa að fleiri mundu freista gæfunnar á þessu sviði.

Hér er í rauninni spurt um hvernig eigi að skipta uppbyggingu atvinnuvega og kostnaði af þeim milli hins frjálsa markaðar annars vegar og ríkisins hins vegar. Við erum held ég flest þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að koma að rekstri. Ríkið á ekki að leggja framlag til rekstrar atvinnufyrirtækja. En við í Samfylkingunni erum hins vegar þeirrar skoðunar að samfélagið eigi að koma að uppbyggingu nýrra greina sem geta skilað umtalsverðu verðmæti í þjóðarbúið og gjaldeyri í gjaldeyrisþurfandi samfélag með því að styrkja grunnrannsóknir.

Sjáum hvernig veiðar á síld byggðust upp, herra forseti. Það gerðist með því að menn þróuðu ákveðna tækni en eftir því sem henni fleygði fram og fjárfestingarnar jukust í skipakosti þá lagði hið opinbera æ meiri fjármuni til að leita að síld. Með öðrum orðum voru grunnrannsóknir í upphafi hverrar vertíðar inntar af höndum af ríkinu, oft að sjálfsögðu með þátttöku flotans alls. Hið sama sjáum við gerast þessa dagana varðandi loðnu. Loðnan er fundin, oft með tilstyrk rannsóknaskipa á vegum ríkisins.

Það væri hægt að halda því fram, ef menn ætluðu að gæta jafnræðis, að þessi grein ætti að njóta tilstyrks hins opinbera hvað varðar rannsóknarframlag. Það er auðvitað skelfileg tilhugsun, herra forseti, að þarna kunni að vera ónýtt auðlind allt í kringum landið sem gæti fært ómæld verðmæti í þjóðarbúið. Ég bið menn að hugsa: Skiptir það ekki máli fyrir stað eins og Þórshöfn að hafa allt í einu 35 störf sem tengjast nánast nýjum veiðum? Vitaskuld skiptir það gríðarlega miklu máli.

Veiðarnar á þessari tegund hófust í Bandaríkjunum skömmu upp úr heimsstyrjöldinni. Í dag veiða menn 200 þús. tonn. En það er tekið að sneiðast um veiðar Bandaríkjamanna og reyndar líka Evrópuþjóða, eins og Frakka þar sem verið hefur hefðbundinn og sterkur markaður fyrir ferskan kúfisk. Það stafar af tvennu. Þar er sótt ótæpilega, bæði í kúfskelina og aðrar skyldar samlokur. Sömuleiðis veldur mengun hafsvæða því að það er ekki jafnauðsæll markaður fyrir kúfskel sem veidd er á þessum svæðum og áður var. Þjóð sem býr að ómenguðu hafi býr að auðlind sem hægt er að virkja og breyta í gull. Þetta er dæmi um það, herra forseti.

Það sem skiptir langmestu máli er að ráðist verði í það hið fyrsta að kanna hve mikið magn kúfskeljar er að finna á þeim stöðum sem liggja við núverandi veiðisvæðum. Þá þarf bæði að kanna stærri radíus út frá þessum stöðum en jafnframt þarf að fara dýpra. Vísbendingar eru um að kúfskel kunni að lifa niðri á 200 m dýpi hér við Íslandsstrendur. Bandaríkjamenn veiða kúfskel aðallega á milli 50 og 100 m dýpis. Við Íslendingar veiðum einvörðungu fyrir innan 50 m og mest af okkar afla er fyrir innan 20 m.

Þannig kynni að vera, herra forseti, að þarna ættum við ákaflega mikla möguleika. Hins vegar er það svo að líffræði tegundarinnar er með þeim hætti að við þurfum að fara varlega í þetta. Kúfskelin verður 200 ára gömul, þ.e. sú kúfskel sem menn eru að veiða í dag var til, þ.e. hinar elstu, fyrir 200 árum, árið 1800. Þetta langlífi tegundarinnar leiðir auðvitað hugann að því að það kunni að vera hægt að ganga mjög nærri veiðiþolinu, veiði menn ótæpilega. Það hefur gerst erlendis.

Þess vegna, herra forseti, leggjum við þingmenn Samfylkingarinnar til að hið opinbera ráðist í þessar sjálfsögðu rannsóknir á útbreiðslu og veiðiþoli kúfskeljar. Sé niðurstaðan eins og mig grunar, ef í ljós kemur að kúfskel sé að finna allt í kringum landið, m.a. fyrir Suðurlandi þar sem engar rannsóknir hafa hingað til farið fram á tegundinni, er ég viss um að þar eigum við búhnykk í vændum. Það kostar hins vegar nokkurt fjármagn af hálfu hins opinbera að beisla þessa auðlind. Ég er sannfærður um að með réttum aðferðum eigi hún að geta búið til hundruð nýrra starfa. Hún á líka eftir að færa okkur mjög mikilvægan gjaldeyri inn í þjóðarbúið.

Þess vegna legg ég til, herra forseti, að þessi tillaga verði að umræðu lokinni send til hv. sjútvn. Ég er viss um það að þeir ágætu sérfræðingar þingsins í sjávarútvegsmálum sem þar véla um mál muni taka henni af skilningi. Ég skora á þá að skoða hana gagnrýnum augum en jafnframt mildilegum og vísa henni aftur hingað til samþykktar.