Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:21:17 (3732)

2002-01-29 17:21:17# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að vísu andvígur þessu frv. sem hér er flutt af sjálfstæðismönnum en það sem mig langar til að fá að vita er hvaða vísindi eru á bak við það hámarkshillurými sem hugsað er að sett verði í verslanir. 5% af heildarhillurými viðkomandi verslunar má fara undir áfengi þar sem verið er að selja aðrar vörur. Það yrði pláss fyrir eina flösku í sjoppunni eða svo. Ég spyr því hvaða vísindi voru á bak við það að finna þetta út?

Ég spyr líka hvort hv. flm. hafi þá engar áhyggjur af því að setja þurfi upp fleiri áfengisverslanir en eina á hverjum stað til þess að tryggja samkeppni. Það er þó þannig með Áfengisverslun ríkisins að hún ber ábyrgð á því og sér til þess að sama verð er á áfengi í öllum útsölunum, en ég get ekki séð að með þessu frv. verði það tryggt nema því aðeins að komið verði á fót fleiri en einni áfengisverslun á hverjum stað. Ég spyr einnig hvort ekki væri skynsamlegra að taka eitthvert annað skref í þessu eins og t.d. að skoðað yrði að leyfa frekar sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum frekar en fara alla þessa leið sem menn ætla hér. Ég fyrir mitt leyti lít a.m.k. þannig á að verið sé að bjóða heim einokunarfyrirtækjum á hverjum stað, annars vegar með sérverslunum og hins vegar í matvöruverslunum á þeim stöðum.