Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:23:16 (3733)

2002-01-29 17:23:16# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki eru meiri vísindi á bak við þessa 5% takmörkun á hillurými en þau að þegar ég hef verið erlendis, annaðhvort vegna þess að ég hef búið þar eða verið á ferðalögum, þá hef ég oft gert mér far um að fara í matvöruverslanir og búðir til að skoða verðlag, hvað verið er að selja og hvernig hlutum er stillt fram og slíkt. Ég tel að maður geti lært afar mikið um menningu viðkomandi þjóðar með því að gera það og þá hefur maður bara tekið eftir því hvað vín er yfirleitt stór hluti af því sem verið er að bjóða fram í venjulegum matvöruverslunum og mér hefur sýnst að það sé oft í kringum 5%, jafnvel heldur meira. Ég man t.d. eftir því þegar ég var í Portúgal, í Lissabon, þá var hillurýmið held ég um 5% undir púrtvín eingöngu.

Ég held að það muni að sjálfsögðu fleiri en einn aðili á mörgum stöðum taka að sér að selja áfengi innan þessara 5% marka eða setja upp sérverslanir. Hv. þm. nefndi að ÁTVR sé með sama verð í öllum sínum útsölum. Það er Bónus reyndar líka, er með búð vestur á Ísafirði, en ég held að ÁTVR hafi aldrei tryggt neytendum sama verð nema þeir búi á viðkomandi stað þar sem útsalan er. En hins vegar hefur einstaklingur sem hefur verið að panta áfengi í gegnum póst þurft að greiða stórfé fyrir það að nálgast vöruna, svo maður tali ekki um kostnaðinn sem menn hafa þurft að leggja í við að keyra langa leið til að ná í vöruna ef þeir hafa ekki búið á viðkomandi stað þar sem útsala er.

Hvort léttvín og bjór eigi að vera í matvörubúðum, þá tel ég sjálfsagt að svo sé. En ég tel að það sé líka alveg einboðið að það megi víkka það út og hafa allar áfengistegundir.