Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:27:27 (3735)

2002-01-29 17:27:27# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er afar athyglisverð kenning hjá hv. þm., þ.e. að verð muni hækka og drykkjuskapur aukast. Venjulega er það svo að menn álíta að hækki verð á einhverri vöru hafi það í för með sér að minna sé neytt af henni.

Það má segja sem svo og ég held að í einhverjum tilvikum mundi neyslan vaxa vegna þess að meira framboð er á fleiri stöðum og þægilegra að nálgast vöruna. En ef hv. þm. hefur svona miklar áhyggjur af því að drykkjuskapur aukist, þá hef ég trú á því að hann mundi vera ánægður með að verð hækki.

Síðan er annað sem hann þarf að hafa í huga og það er að kostnaður neytandans við að nálgast vöruna er ekki bara það sem hann borgar við búðarborðið. Kostnaðurinn felst líka í þeirri fyrirhöfn og öðrum kostnaði, t.d. að keyra langar leiðir til að greiða póstkröfukostnað og annað eða ef verslanir eru fáar, þá kostar það neytandann í tíma og útlögðum kostnaði að ná í vöruna. Þegar heildardæmið er skoðað þarf því að skoða alla þá mynd til þess að sjá hvernig þetta kemur út fyrir neytandann.

Annað sem hv. þm. veit er að verslun víða á landsbyggðinni á í vök að verjast, sérstaklega matvöruverslun. Ég hygg að það mundi styrkja verslanir á mörgum minni stöðum og bæta þjónustu almennt við íbúa minni staða ef þessi breyting yrði.