Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:38:15 (3737)

2002-01-29 17:38:15# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:38]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera athugasemdir við málflutning hv. þm. Ögmundar Jónassonar varðandi hagnað af sölu áfengis. Það er nefnilega ekki svo langt síðan að fram komu upplýsingar frá ÁTVR um að hagnaður ÁTVR sé nú ekki umtalsverður. Hann er nánast enginn af áfengi. Hann er nánast allur af tóbakinu. Og hvar er tóbakið selt? Tóbakið er ekki selt hjá ÁTVR. Það er selt hjá versluninni.

Ég get því ekki séð að það verði svo mikið tap fyrir ríkið af þeirri breytingu að flytja þessa vöru frá ÁTVR og yfir til smásölu. Ég vildi koma þessu hérna á framfæri og gera athugasemdir við þetta.

Síðan vildi ég vekja athygli á öðru atriði. Í ræðu hv. þm. kom fram að hann teldi að þessi breyting mundi veikja stöðu landsbyggðarinnar. Ég tel einmitt að það sé öðru nær.

Í dag selur t.d. ein verslun í Stykkishólmi áfengi, þ.e. byggingarvöruverslun. Ég get alveg séð fyrir mér að barnafataverslun eins og í Ólafsvík taki líka upp sölu á áfengi þannig að þar er komin samkeppni. Það er alveg ljóst að samkeppni mun leiða til lægra vöruverðs.

Ég tek því ekki undir þær röksemdir sem komu fram í máli hv. þm.