Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:41:52 (3740)

2002-01-29 17:41:52# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú rennur allur hagnaður af verslun með áfengi til ríkisins, ekki bara ... (Gripið fram í) Allur hagnaðurinn rennur til ríkisins en í nýju fyrirkomulagi yrði aðeins hluti af honum tekinn til ríkisins í gegnum skattlagningu. Núna ber ríkinu allur arður sem er af þessari verslun.

Samkeppnisverslun á ekki heima hjá ríkinu, segir hv. þm. Ásta Möller. Ég vara við svona alhæfingum. Í sumum tilvikum og allflestum á hann ekki heima hjá ríkinu. Ég tek alveg undir það. En menn hafa litið á verslun með áfengi öðrum augum en aðra vöru og ég var að færa rök fyrir því hvers vegna menn gerðu það, þ.e. að litið hafi fyrst og fremst verið til heilbrigðisþáttarins. Það er staðreynd að innan heilbrigðisstéttanna hafa komið fram varnaðarorð að þessu leyti. Menn vilja hemja hin grimmu markaðsöfl þegar að þessu kemur.

Er það vegna þess að ég vantreysti markaðsöflunum til að gera hlutina eins vel? Nei, ég held að þau muni gera þetta miklu betur, vera miklu duglegri að koma áfengi niður í þjóðina. Um það er verið að deila.

Eins og nú er búið um hnútana, að hafa áfengissöluna hjá ÁTVR, eru menn hins vegar ekki háðir þessari gróðahugsun sem er ríkjandi í versluninni. Þá eru önnur sjónarmið lögð til grundvallar. Þess vegna hafa menn fallist á að hafa fyrirkomulagið eins og það er.