Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:43:53 (3741)

2002-01-29 17:43:53# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einhver mikill misskilningur hjá hv. þm. hvað peningastreymi í þessum viðskiptum varðar. Þegar ÁTVR er að kaupa inn vöru í dag þá er ÁTVR að kaupa hana af heildsala. Þá er búið að leggja út fyrir áfengisgjaldinu. Heildsalinn leggur virðisaukaskatt ofan á vöruna sem fer í ÁTVR. ÁTVR leggur síðan virðisaukaskatt ofan á vöruna þegar hún er seld neytendunum. Síðan dregur ÁTVR innskattinn frá útskattinum eins og venjulegt fyrirtæki og í rauninni er virðisaukinn sem verður í starfsemi ÁTVR einungis sá venjulegi munur á útskatti og innskatti eins og í venjulegri verslun.

Það er engin fjárhagsleg áhætta önnur hjá ríkinu, í þessum viðskiptum ÁTVR, en bara venjulega gildir um innheimtu á virðisaukaskatti. Nú er það svo að virðisaukaskattur er mjög almennur skattur og virðisaukaskattur er fyrst og fremst innheimtur af hinni almennu verslun í landinu og almennum atvinnurekstri. Kannski má segja að þetta séu 1--3% af heildarinnheimtu virðisaukaskattsins. En ef það er svona óskaplega erfitt fyrir verslanir að innheimta virðisaukaskatt af áfengi, á þá bara ekki það sama að gilda um allar vörur? Á ekki þá bara að stofna hér ríkisbúðir hist og her til þess að innheimta virðisaukaskatt af vörum vegna þess að einkaaðilum er ekki treystandi fyrir því?

Virðulegi forseti. Mér þykir þetta alveg dæmafár ruglingur og alveg ótrúlegt að talsmaður þessara sjónarmiða skuli bera þetta á borð.