Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:51:50 (3745)

2002-01-29 17:51:50# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Ásta Möller:

Herra forseti. Til umræðu er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, og ég verð að segja að ég hef lengi beðið þessarar umræðu því að þetta frv. var lagt fram fyrir ári en fór ekki inn í umræðuna þannig að það gleður mig að það sé loksins komið á borð þingmanna.

Með þessu frv. er lagt til að einkaréttur ÁTVR á smásölu á áfengi verði afnuminn og heimilt verði að selja áfengi í sérverslunum með áfengi, svo og verði öðrum smásöluverslunum heimilt að taka að hámarki ákveðið rými undir þessa vöru samhliða annarri starfsemi.

Þegar sagan er skoðuð verður að segjast að Íslendingar hafa gegnum tíðina tekið afar varfærin skref í áfengismálum. Alþingi fjallaði fyrst um áfengismál upp úr 1870 en þá var ákveðið að taka upp ákveðið gjald af áfengi sem skyldi renna í Landssjóð við mikla óánægju landans, einkum þar sem Alþingi hafði ekki fengið fjárforræði. Er frá því sagt að menn hafi þúsundum saman gengið í bindindi næstu missirin á eftir á þjóðernislegum forsendum. Baráttan fyrir sjálfstæði landsins og hugmyndafræði templara var því samtengd um nokkurra áratuga skeið og hafa fræðimenn túlkað sérstæða afstöðu Íslendinga og íhaldssama stefnu í áfengismálum á síðustu öld út frá þeirri staðreynd.

Árið 1900 tóku gildi lög sem bönnuðu gerð áfengra drykkja á Íslandi. Átta árum síðar var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um bannlög á Íslandi og þau voru samþykkt. Lögin tóku síðan gildi árið 1912 og 1915 en þá var bæði bannað að flytja inn og selja áfengi hér á landi, sem sagt algert áfengisbann. Ísland var fyrsta landið í heiminum til að samþykkja slík lög. Fljótlega og smám saman voru gerðar undantekningar á banninu, t.d. var erlendum sendimönnum leyft að flytja inn áfengi. Einnig var heimilt að selja áfengi á millilandaskipum og til lækninga og iðnaðarþarfa. Bannlögin brustu hins vegar árið 1921 með innflutningi svokallaðra Spánarvína en Spánverjar settu Íslendingum afarkosti í viðskiptasamningi milli landanna og kröfðust þess að Íslendingar breyttu lögum um aðflutningsbann á áfengi þannig að spönsk vín væru keypt fyrir íslenskan fisk. Alþingi breytti lögunum og var Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sett á stofn 1. janúar 1921 og hóf hún innflutning á spænskum vínum í júlí 1922.

Á þessum tíma hafa mörg smáskref verið tekin til aukins frjálsræðis í áfengismálum þjóðarinnar, t.d. fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um afnám banns við innflutningi sterkra vína á árinu 1933, og var tillagan samþykkt. Hálfri öld síðar eða árið 1984 var veitingastöðum utan kaupstaða heimilt að selja áfengi allt árið en áður höfðu veitingahús í kaupstöðum þann rétt. Árið 1986 voru samþykkt lög sem heimiluðu öðrum en ÁTVR að framleiða áfengi og árið 1989 var heimilt að flytja inn og selja bjór hér á landi. Það verður því ekki annað sagt en Íslendingar hafi á síðustu öld rekið afar varfærna stefnu í áfengismálum. Einkasala ÁTVR á áfengi hefur því staðið í 80 ár og öll önnur ríkisfyrirtæki sem stofnuð voru á svipuðum tíma, Rafmagnsverslun ríkisins, Skipaútgerð ríkisins og fleiri slíkar stofnanir og fyrirtæki, hafa verið lögð niður. Aðeins eitt stendur enn, ÁTVR, frá þessum tíma hafta sem ríkti á fyrstu áratugum síðustu aldar. Það má því segja að tími sé kominn til að aflétta einkasölu ríkisins á áfengi.

Það er eitt atriði varðandi áfengisstefnu Íslendinga sem ég vildi sérstaklega nefna. Helstu röksemdir andstæðinga lögleiðingar bjórs voru að slíkt mundi leiða til verulegrar aukningar á neyslu áfengis. Raunin varð sú að það gerðist fyrsta árið en síðan minnkaði neysla á áfengi í lítrum talið, og tímabilið 1992--1995 var heildarneysla Íslendinga á áfengi álíka mikil og á árinu 1988, ári áður en heimilt var að selja bjór hér á landi. Frá 1995 hefur hins vegar neyslan aukist jafnt og þétt. Það er þekkt staðreynd að sveiflur í áfengisneyslu fylgi efnahagsástandi á hverjum tíma og þegar kaupmáttur launa hefur á síðustu árum náð að vera 25% umfram verðlagsvísitölu er ekki að sökum að spyrja: Áfengisneysla á mann hefur aukist.

Hins vegar er vert að benda á að töluverðar breytingar hafa orðið á neysluvenjum almennings við lögleiðingu bjórs. Neysla á sterkum drykkjum hefur t.d. minnkað um helming í lítrum talið frá 1988, úr 3,5 lítrum á mann í 1,7 lítra á mann. Neysla á bjór sérstaklega hefur aukist en neysla á léttum vínum nánast staðið í stað.

Neysla bjórs er nú nærri 80% af heildarmagni neytts áfengis. Lögleiðing bjórs leiddi þannig til betri umgengni við áfengi. Ofurölvun á almannafæri hefur minnkað og umgengni við áfengi hefur batnað verulega. Kófdrykkja hefur almennt vikið fyrir hófdrykkju. Ekki er lengur litið á áfengi sem vímuefni eingöngu heldur yndisefni eða eins og Einar Thoroddsen, læknir og víngúrú, lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu, með leyfi forseta: ,,Það ætti í rauninni að setja yndisauka í stað virðisauka á áfengi.``

Í lögum og reglugerðum eru einkum fjórar leiðir notaðar af stjórnvöldum til að stýra neyslu áfengis. Það eru aldursmörk við sölu áfengis, svokallaður áfengiskaupaaldur, reglur um auglýsingar á áfengi, lög og reglur um aðgengi að vörunni og verðlagning á áfengi. Hér á landi hefur tiltölulega ströngum reglum verið fylgt í þessum efnum. Áfengisaldur er 20 ár, bannað er að auglýsa áfengi í íslenskum fjölmiðlum, ríkið hefur einkarétt á smásölu á áfengi og útsölustaðir hafa þar til nýlega verið fremur fáir, og verð á áfengi er hátt í samanburði við önnur lönd, sérstaklega verð á léttum vínum og bjór. Rannsóknir hafa sýnt að breyting á hverjum og einum þessara þátta leiðir til aukinnar neyslu áfengis. Því er mikilvægt að þau skref sem tekin eru verði vel ígrunduð og skynsamleg, og þótt þau taki mið af tíðarandanum og breyttum viðhorfum til áfengismála verði einnig haft auga á heildarstefnu í málaflokknum.

Í því frv. sem hér er til umræðu er tekið á einum þessara þátta, þ.e. að einkasala ríkisins á smásölu á áfengi verði afnumin og öðrum verslunum heimilt að versla með áfengi. Það er gert með miklum takmörkunum. Þannig er gert ráð fyrir að rekstraraðili fái leyfi hjá viðkomandi sveitarstjórn til smásölu á áfengi og opnunartími verði takmarkaður. Þá verði einnig gerðar kröfur um að sala á áfengi verði aðgreind frá öðrum rekstri, bæði fjárhagslega og húsnæðislega, í þeim tilvikum sem ekki er um sérverslun með áfengi að ræða og er sérstaklega mælt um í frv. að einungis 5% af hilluplássi verði til ráðstöfunar undir áfengi. Þá verða að sjálfsögðu gerðar kröfur um að aldursmörk þeirra sem afgreiða og selja áfengi fylgi áfengiskaupaaldri eins og gert er varðandi tóbak í dag. Aðgengi ungmenna að áfengi á því ekki að breytast. Brot á reglum þýði áminningu og sviptingu leyfis.

Í raun má segja að þetta frv. sé í eðlilegu samhengi við stefnu ÁTVR á undanförnum árum um aukið aðgengi að áfengi. Þannig hefur útsölustöðum á áfengi fjölgað umtalsvert á undanförnum árum. Opnunartími hefur verið rýmkaður verulega, m.a. opið fram eftir degi á laugardögum, og þess vegna sunnudögum ef það hentar varðandi stórhátíðir, sérstaklega jól. Útliti og nafni verslana hefur verið breytt, verslanir gerðar aðlaðandi og vörum stillt upp á fallegan og söluhvetjandi máta. Sjálfsafgreiðsla hefur verið tekin upp, opnað fyrir verslun á áfengi í gegnum netið og kröfu um staðgreiðslu aflétt. Mikið er lagt upp úr miðlun upplýsinga um áfengi með útgáfu bæklinga og upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins. ÁTVR hefur í raun rekið harða stefnu á undanförnum árum í anda einkarekstrar og markaðsstefnu enda var haft eftir stjórnarformanni ÁTVR í Morgunblaðinu í ágúst sl. að rekstur fyrirtækisins líktist sífellt meir hefðbundnum rekstri fyrirtækis enda telja þeir að með því hafi þeir verið að svara kröfum tímans. Það er skoðun mín að kröfur tímans nú séu að ganga eigi einu skrefi lengra og aflétta einkasölu ÁTVR á áfengi.

[18:00]

Öllum er ljóst að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Þetta er vara sem getur verið ávanabindandi. Hún er það. Hún er skilgreind sem vímuefni enda gilda sérstök lög í landinu um sölu og dreifingu á áfengi. Það er eðlilegt að sala á slíkum varningi sé háð sérstökum leyfum og lúti ströngum skilyrðum sem fylgst er með og fylgt eftir á sama máta og sala á léttum vínum, bjór og sterku áfengi á vínveitingastöðum er háð ströngum reglum. Brot á reglum eiga að fela í sér sviptingu á leyfi til að selja áfengi.

Í frv. er gert ráð fyrir, herra forseti, að ÁTVR hafi áfram með höndum smásölu á áfengi auk sérverslana og annarra verslana, t.d. matvöruverslana. Það er ekki miðað við að eingöngu matvöruverslanir sinni þessu heldur geti það verið, eins og í Ólafsvík, að áfengisverslunin er inni í barnafataversluninni en það var ekki mín hugmynd, hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Ég tel að það sé tímaspursmál hvenær ÁTVR sem fyrirtæki og stofnun verði lagt niður. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að ég sé engin rök fyrir því að ríkisstarfsmenn selji áfengi í áfengisverslunum fremur en að að ríkisstarfsmenn afgreiði áfengi á vínveitingastöðum. Við höfum allt frá bannárunum treyst einkaaðilum til að selja áfengi á vínveitingastöðum og er engin ástæða til að vantreysta einkaaðilum frekar til að selja almenningi léttvín, bjór og sterkt áfengi í smásölu, enda yrði söluleyfi líkt og vínveitingaleyfi háð ströngum skilyrðum og eftirliti. Með þeim orðum vil ég ítreka stuðning minn við þetta frv. sem mun aflétta einkasölu ríkisins á smásölu á áfengi, virðulegi forseti.