Heildarstefna um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:10:07 (3750)

2002-01-29 18:10:07# 127. lþ. 62.14 fundur 233. mál: #A heildarstefna um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana# þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um mótun heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana. Meðflutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Ásta Möller, Hjálmar Árnason, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar nefnd er hafi það hlutverk að móta heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana. Jafnframt verði gert árangursmat á meðferðarstofnunum og meðferðarleiðum til þess að tryggja sjúklingum sem mestan árangur og sem besta nýtingu fjárveitinga til málaflokksins.``

Eins og fram kemur í grg. er vakin athygli á að flestir ef ekki allir þekkja neikvæðar afleiðingar af neyslu áfengis og vímuefna. Hið opinbera hefur brugðist við með ýmsum hætti, með meðferðarúrræðum og þess háttar og fyrirbyggjandi aðgerðum. Það er mikilvægt að okkur takist sem best til í þessum efnum. Hér er um að ræða mikinn vágest, alvarlegt mál og mikilvægt að fjármagnið sem við verjum til þessara hluta nýtist sem best til að bægja burtu þeirri óhamingju sem vímuefnin og áfengið hafa oft í för með sér.

Einnig er um að ræða talsvert mikið fjárhagslegt atriði fyrir ríkissjóð. Við vitum um hinn óbeina kostnað sem verður af ofneyslu á þessum efnum til viðbótar þeirri óhamingju sem það kallar yfir fjölskyldur og fólk. Hins vegar er ástæða til að vekja athygli á að ríkissjóður ver talsvert miklu fjármagni til þessa málaflokks.

Ástæða þess að þessu máli var hreyft upphaflega var sú að við, nokkrir þingmenn, óskuðum eftir skýrslu frá hæstv. heilbrrh. um stöðu þessara mála í landinu. Þessi skýrsla var lögð fram og vakti nokkra athygli enda var brugðið ljósi á mál sem ég held að margir hafi fram að því ekki áttað sig fyllilega á. Fram kom að þetta mál er býsna umfangsmikið. Þessi starfsemi teygir sig miklu víðar en mann óraði fyrir. Reynt er að bjóða upp á meðferð af ýmsum toga, bæði fyrir yngra fólk, fyrir þá sem lengra eru leiddir og aðra.

Við sjáum hins vegar þegar við skoðum þetta að gríðarlega margar stofnanir hafa með þessi mál að gera. Við að lesa þetta vaknar því óhjákvæmilega spurningin um hvort ekki sé hægt að auka samræmingu hér á milli. Það er vandmeðfarið mál vegna þess að margar þeirra stofnana sem hér starfa eru í eðli sínu drifnar áfram af krafti sjálfboðaliðsstarfsins. Það er engin ástæða til að slá á nokkurn hátt á það, öðru nær. Þess vegna verðum við auðvitað að fara af varkárni í þetta mál vegna þess að við viljum líka, um leið og við reynum að nýta fjármagnið sem best og tryggja að menn séu ekki með tvíverknað í þessum efnum frekar en öðrum, jafnframt tryggja að við sláum ekki á það mikla sjálfboðaliðastarf sem fer fram að þessu leyti.

Engu að síður finnst mér ástæða til að vekja athygli á því að hér er um að ræða umfangsmikla starfsemi. Það kemur fram hér í grg. með þáltill. að stöðugildi þessara stofnana og heimila sem vísað er til eru 279 á alls um 30 stofnunum, heimilum og deildum. Í skýrslunni sem ég vísaði til fyrr í máli mínu, sem hæstv. heilbrrh. lagði fram, kemur fram að áfengis- og vímuefnameðferðin sé unnin eftir mismunandi áherslum. En það kemur líka fram að um verulega skörun sé að ræða.

Ef við skoðum rekstrarútgjöldin og hvernig þau hafa þróast kemur fram að ef við setjum fjárveitingar og sértekjur á árinu 1993 á 100 þá er ljóst að þau hafa aukist til ársins 2000 um 44% að raungildi. Þar er um gríðarlega mikla aukningu að ræða sem vekur ýmsar spurningar og nauðsynlegt að fara vel ofan í það.

Hitt efnisatriðið í þáltill. er áherslan á það sem kemur fram í síðasta málslið tillögunnar, þ.e. að gert verði árangursmat á meðferðarstofnunum og meðferðarleiðum til að tryggja sem bestan árangur. Það kemur fram í skýrslunni sem hæstv. heilbrrh. lagði fram að okkar beiðni, nokkurra þingmanna, að gerð hafi verið rannsókn. Í þeirri rannsókn kemur ýmislegt fram en engu að síður er ljóst, að mati heilbrrn., að áfram þurfi að vinna að þessu og gera frekari rannsóknir. Þess vegna er lögð á það töluverð áhersla í þessari þáltill. að menn átti sig á hvað skili mestum árangri, einfaldlega til að geta beint þessum miklu fjármunum, eitthvað á áttunda hundrað millj. kr. á árinu 2000, þangað sem þeir nýtast best. Ég hef ekki farið í að skoða þetta sérstaklega fyrir árið 2001 eða 2002 vegna þess að upplýsingar skýrslunnar, sem þessi þáltill. meira og minna byggir á, eru frá árinu 2000. Hvað sem því líður er aðalatriðið að við verjum verulegu fjármagni til málaflokks sem er mjög mikilvægur en við viljum líka að hann skili sem mestum árangri, ekki bara fyrir skattborgarana í landinu heldur fyrst og fremst fyrir þá sem eiga við þennan vanda að stríða og þær fjölskyldur sem verða fyrir óhamingjunni sem ofneysla áfengis og vímuefna hefur í för með sér.

Virðulegi forseti. Að máli mínu loknu legg ég til að þessu máli verði vísað til viðeigandi þingnefndar og síðari umræðu.