Almannatryggingar

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:32:05 (3755)

2002-01-29 18:32:05# 127. lþ. 62.16 fundur 268. mál: #A almannatryggingar# (sjúkraflug) frv., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. 1. gr. frv. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,6. málsl. i-liðar 36. gr. laganna orðast svo: Séu liðnar 36 klst. eða meira frá innritun sjúklings greiðist flutningskostnaður milli sjúkrahúsa að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.``

Þessi breyting á frv. til laga um almannatryggingar fjallar um þátttöku sjúklings og Tryggingastofnunar í sjúkraflugi. Breytingin felst í því að í dag hefur heilbrigðisstofnunin 24 klukkustundir til þess að meta hvort ástæða sé til að senda sjúkling áfram í meðferð eða á sjúkrahús og hvort ástand sjúklings sé með þeim hætti að viðkomandi heilbrigðisstofnun geti ekki sinnt sjúklingnum og nauðsynlegt sé að senda hann í sjúkraflugi. Oft og tíðum dugar sólarhringurinn ekki til þess að meta að fullu ástand sjúklingsins og úr hefur orðið nokkurs konar feluleikur eða menn hafa verið að draga það að innrita sjúklinginn. En þessi rýmkun mun gera vinnureglurnar einfaldari. Heilbrigðisstarfsmönnum gefst betri tími til að meta ástandið og ekki verður sami ruglingurinn varðandi innritun og verið hefur. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt gildandi lögum greiðir Tryggingastofnun ríkisins kostnað við sjúkraflug ef sjúklingur er fluttur beint að heiman frá sér en sé hann fluttur af sjúkrahúsi greiðir viðkomandi stofnun flutninginn. Þetta fyrirkomulag hefur þann galla að minni sjúkrahús veigra sér við að innrita sjúklinga sem gætu þurft á sjúkraflugi að halda vegna þess að kostnaðurinn gengur nærri fjárhag lítilla stofnana. Það ýtir undir að sjúklingar séu strax sendir á sjúkrahús í Reykjavík eða á Akureyri í stað þess að gangast undir rannsókn heima fyrir til að ganga úr skugga um hvort sjúkraflug reynist nauðsynlegt. Einnig leiðir þetta til ónákvæmrar skráningar í þeim tilfellum þegar sjúklingur nýtur aðhlynningar á litlu sjúkrahúsi áður en til flutnings kemur. Sú breyting sem hér er lögð til mundi koma minni sjúkrahúsunum til góða, bæta nýtingu þeirra og draga úr sjúkraflugi.``

Það er einmitt tilgangur þessara breytinga að hugsanlega sé hægt að draga úr sjúkraflugi því að það er ekki tilgangurinn að draga úr þjónustu við sjúklinginn.

Herra forseti. Tvívegis hefur þetta frv. verið lagt fram á Alþingi. Í fyrra skiptið kom það ekki til afgreiðslu, var ekki tekið á dagskrá. Á síðasta þingi var mælt fyrir því og það sent út til umsagnar til minni sjúkrahúsa vítt og breitt um landið og fékk alls staðar mjög góðar undirtektir og hvatt var til þess að slík breyting yrði gerð því að þó svo Austurland hafi nokkra sérstöðu hvað varðar þetta ákvæði og þar hefur í raun verið í gildi samkomulag á milli heilbrigðisstofnunar Austurlands og heilbrrn. um að farið sé eftir reglum sem þessum, þá er sá samningur útrunninn. Því væri eðlilegt að framlengja eða endurnýja hann en það kemur í ljós að aðrar stofnanir eru í sama vanda þó svo að landfræðilega séð sé alltaf ákveðin afmörkun á flutningi sjúklinga með sjúkraflugi og það segir sig sjálft.

Herra forseti. Ég óska eftir því að að lokinni umræðu verði frv. vísað til hv. heilbrrn. og það fái afgreiðslu á þessu þingi.