Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 13:46:01 (3769)

2002-01-30 13:46:01# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þegar ríkisstjórnin fékk það samþykkt á Alþingi að selja Landssímann á vordögum 2001 ríkti um það mikill ágreiningur. Landssíminn hafði um langt árabil skilað milljörðum kr. beint í ríkissjóð. Notendur, einkum úti um hinar dreifðu byggðir, óttuðust að uppbygging fjarskiptakerfisins mundi sitja á hakanum við fyrirhugaða einkavæðingu og að öll þjónusta yrði minni og verri. Það var einfaldlega ekki búist við því að hömlulaus samkeppni mundi sjá öllum landsmönnum fyrir jafnræði í fjarskiptaþjónustu. Menn úr fjármálaheiminum töldu óráð að selja Landssímann við núverandi aðstæður á fjármagnsmörkuðum. En þrátt fyrir allar þessar viðvaranir hélt ríkisstjórnin áfram á fullri ferð í útboð á Landssímanum.

Herra forseti. Í Dagblaðinu 28. janúar sl. segir hæstv. samgrh., með leyfi forseta, að ekki hafi verið veðjað á rétta hestinn þegar Landssíminn undir hans stjórn tapar 500 millj. kr. í furðulegum fjárfestingum erlendis sem lýsir reyndar best hugsunarhætti og vinnubrögðum hans í málefnum Landssímans. Ákveðnu fyrirtæki var falið að verðmeta Landssímann til sölu. Niðurstöður þess voru gagnrýndar og haft á orði að annað fyrirtæki hefði frekar átt að sjá um verðmatið. Búnaðarbankanum var síðan falið að annast útboð hlutabréfanna. En almenningur hafði engan áhuga á að kaupa hlutabréf í Landssímanum af sjálfum sér og innlendir fjárfestir sýndu lítinn áhuga. Í stað þess að staldra við og velta málunum fyrir sér var sala Landssímans enn keyrð áfram og nú hafði ríkisstjórnin bara veðjað á rangan hest. Almenningur og lífeyrissjóðirnir voru skammaðir fyrir að kaupa ekki. Rætt var um samsæri og Búnaðarbankanum kennt um dugleysi við sölu Símans.

Eftir þetta var ákveðið að leita út fyrir landsteinana. Gefin voru út kostaboð. Ef einhver útlendingur hefði áhuga á að kaupa minni hluta í félaginu fengi hann meiri hluta í stjórn í kaupbæti. En ekki gekk þar betur til. Þá þurfti að finna nýjan sökudólg. Landssíminn seldist ekki. Forstjóra Landssímans er vikið fyrirvaralaust úr starfi. Hann hafði verið leiddur til forustu í Landssímanum af tveimur samgönguráðherrum Sjálfstfl., fyrst sem stjórnarformaður og frá 1999 sem forstjóri til næstu fimm ára. Þá hafði ríkisstjórnin þegar ákveðið að Landssíminn skyldi seldur svo ljóst var að verið var að ráða mann sem ríkisstjórnin treysti til að framkvæma stefnu sína í sölu Landssímans allt til loka. Aftur hafði verið veðjað á rangan hest. Nú stendur deilan um hvernig samningur um starfslok verði efndur, sem öllum þykir nóg um.

Þá berast fregnir um það innan úr fyrirtækinu að það hafi tapað 500 millj. kr. í áhættufjárfestingum erlendis á síðasta ári. Við að lesa fréttaskýringar um málið, m.a. í Dagblaðinu 25. og 28. janúar sl., er líkara að um reyfara sé að ræða en ábyrga fjármálaumsýslu. Þessar 500 millj. sem þarna tapast í fjárhættuspili gátu kannski flýtt lagningu breiðbandsins til Raufarhafnar eða lækkað gjaldskrá á gagnaflutningum til Vestfjarða eða runnið sem arður í ríkissjóð. En viðbrögð samgrh. eru aðeins þau að stundum er ekki veðjað á rétta hestinn.

Herra forseti. Nú standa yfir samningar við alþjóðlega stórfyrirtækið Tele Danmark. Í Ríkisútvarpinu 7. janúar sl. er greint frá því að dönsk samkeppnisyfirvöld ætli að rannsaka kvartanir sem borist hafa frá keppinautunum um að fyrirtækið misnoti markaðsráðandi aðstöðu sína á fjarskiptamarkaði og hrekji keppinauta út af markaðnum. Þessar fréttir þurfa ekki að koma á óvart. Menn geta séð fyrir sér stöðuna hér þegar eitt alþjóðlegt stórfyrirtæki hefur rutt öllum samkeppnisaðilum út af markaðnum og ríkir eitt í skjóli fákeppni eða einokunar, og sú verður raunin ef stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga varðandi sölu Landssímans.

Einkavæðingarnefnd forsrh. hefur stýrt sölu Landssímans, þar á meðal samningaviðræðunum við hina erlendu aðila. Á fjáraukalögum nýverið voru henni réttar rúmlega 300 millj. kr. aukalega. Nú hafa þau stórtíðindi gerst að formaður hennar í nærri áratug telur sig ekki lengur njóta trausts forsrh. og segir af sér. Þó nokkuð seint sé telur ríkisstjórnin sig einnig þar hafa veðjað á rangan hest.

Herra forseti. Hvað þarf frekar að gerast og á hversu marga ranga hesta má veðja í öllu klúðrinu um sölu Landssímans áður en sagt er stopp og öll ákvörðun um sölu Landssímans endurskoðuð?