Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:00:15 (3773)

2002-01-30 14:00:15# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þjóðin á Landssímann en þegar ákvörðun var tekin um að svipta þjóðina þeirri eign sinni á sínum tíma með því að einkavæða Póst og síma, fyrst með því að hlutafélagavæða starfsemina og síðan ráðast í sölu, þá var þetta réttlætt með skírskotun til tvenns: Í fyrsta lagi ættu ríki og sveitarfélög ekki að vasast í rekstri sem einkaaðilar gætu sinnt. Þeirri kennisetningu var mótmælt á Alþingi og m.a. bent á að svo alhæfingarsamir mættu menn aldrei verða. Það gæti verið kostur að viðhalda starfsemi undir handarjaðri almannavaldsins ef um væri að ræða þjónustustarfsemi sem allir þegnar landsins þyrftu að hafa jafnan aðgang að, þar sem mestu skipti að viðhalda vandaðri þjónustu sem rekin væri á hagkvæman hátt og með lágmarkskostnaði. Þetta hefði Póstur og sími gert.

Hitt atriðið sem notað var til þess að sýna fram á nauðsyn einkavæðingar var að hlutafélag væri ekki eins svifaseint í ákvarðanatöku og opinber stofnun. Það hefði meira svigrúm til samninga við einstaka starfsmenn og gæti tekið skjótar ákvarðanir um fjárfestingar innan lands sem utan.

Nú höfum við verið að kynnast því hvernig ákvarðanir hafa verið teknar í Landssímanum hf. á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að stofnunin var gerð að hlutafélagi. Við höfum líka fengið að kynnast sölumönnum ríkisstjórnarinnar. Við sjáum hvernig hundruðum milljóna hefur verið kastað á glæ í glæfralegum áhættufjárfestingum. Við höfum séð forstjórasamninga sem nema milljónatugum. Við höfum séð kærumál á hendur erlendum fjárfestum sem erindrekar ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarnefnd hafa rennt vonaraugum til. Og nú spyr ég, herra forseti: Er ekki mál að linni? Er ekki rétt að horfa til reynslunnar af einkavæðingunni hjá erlendum þjóðum því spilling og sukk í tengslum við einkavæðingu er ekki einsdæmi hér á landi? Eigum við ekki einnig, fyrst tilefnin gefast af nýfenginni reynslu, að horfa til okkar eigin reynslu?

Það er áhyggjuefni að hlusta á hæstv. samgrh. og hans ábyrgðarlausa tal. Honum væri nær að sýna þann manndóm að viðurkenna mistökin, horfast í augu við þau og endurskoða allar fyrri ákvarðanir.