Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:04:40 (3775)

2002-01-30 14:04:40# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sala Símans öll er dæmalaust klúður frá upphafi til enda og það er ekkert sem ríkisstjórnin hefur gert sem henni hefur tekist að klúðra jafnskelfilega og sölu Landssímans. Mestu mistökin voru auðvitað þau, fyrst menn ákváðu að selja Símann á annað borð, að þeir skyldu ekki hafa gert það fyrir tveimur árum þegar markaðirnir stóðu í hámarki. Þeir sem tóku ákvörðun um að gera það ekki þá eru ábyrgir fyrir því að þessi eign Símans hefur fallið um 30--40 milljarða í verði. Einhvers staðar, herra forseti, hefði svona eins og eitt stykki ríkisstjórn þurft að fara frá vegna þess að misfara með eigur skattborgaranna á þennan hátt. Allir hafa gefið þessu söluferli falleinkunn. Almennir fjárfestar, stofnanafjárfestar innan lands og nú síðast í gær erlendi fjárfestirinn. Ég spyr líka, herra forseti: Hverjum dettur í hug að stofna til samninga bara við eitt fyrirtæki?

Herra forseti. Ég tek einnig eftir því að hæstv. samgrh. er í reynd að boða þjóðinni það að hið nýja fyrirtæki sem mun reka símaþjónustu á Íslandi hyggist hækka þjónustuna. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi. Hann talaði um að þetta væri samkeppnismarkaður og það væri ekki hægt að setja nein skilyrði. Samfylkingin gerir þá kröfu úr því sem komið er og miðað við þá stöðu sem nú er uppi í verðlagsmálum á Íslandi að þetta fyrirtæki verði ekki selt, nema það sé alveg ljóst að menn fari ekki í það að hækka þjónustu eins og fyrirtækið er þekkt fyrir að gera hvar sem er.

Herra forseti. Var ekkert að marka það sem einkavæðingarnefnd sagði í fjölmiðlum 8. desember? Hún sagði þá að borist hefði bindandi kauptilboð, m.a. um verð, og hún sagðist vera mjög ánægð með það tilboð. Hún gaf markaðnum til kynna að verðið kynni þar með að vera hærra en útboðsgengið. Í kjölfarið hækkaði verðið. Þremur dögum seinna er það komið í 6,35. Ég spyr, herra forseti: Var verið að tala falskar væntingar inn í markaðinn? Ég er hræddur um að hæstv. forsrh. mundi koma eins og sleggja í hausinn á vini sínum Jóni Ólafssyni ef hann hefði leyft sér slíkar vinnuaðferðir.