Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:08:47 (3777)

2002-01-30 14:08:47# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var mikið ólánsflan þegar farið var af stað með einkavæðingu Landssímans, þessa þjónustufyrirtækis sem er vegna aðstæðna í náttúrlegri einokun að langmestu leyti með starfsemi sína. Eðli málsins samkvæmt getur slík einkavæðing aldrei orðið annað en til tjóns fyrir notendur og ekki síst þá sem búa á þeim svæðum þar sem viðskiptin eru síst ábatasöm. Með einkavæðingunni hófst sú atburðarás sem á síðustu mánuðum hefur verið að taka á sig mynd fáránleikans í æ ríkari mæli. Vendipunktur varð í málinu þegar Framsfl. lak niður á síðasta ári og kokgleypti einkavæðingarstefnu Sjálfstfl. En sé svo, sem heyra mátti í umræðum áðan, að nú séu að renna tvær grímur á þingmenn Framsfl. þá er það vel og ég fagna þeim sinnaskiptum og hæstv. samgrh. þarf að fara að hugsa sinn gang því ég get ekki betur séð en niðurstaða þessarar umræðu sé að verða sú að þingmeirihluti sé brostinn fyrir því að ana lengra áfram út í fenið. Það sé ekki lengur fyrir hendi meiri hluti á Alþingi fyrir því að halda áfram með söluna. Ef þeir tveir þingmenn Framsfl. sem hér hafa talað fyrir þann þingflokk tala þar í umboði félaga sinna, þá blasir það við að samgrh. og Sjálfstfl. eru komnir í minni hluta með sína afstöðu í málinu og þá á að sjálfsögðu að láta staðar numið.

Herra forseti. Ef farið er yfir þá sögu frá því að einkavæðingaröflin komu klóm sínum í Póst og síma, þá er hún svo ofboðsleg að leitun er að öðru eins. Pósthúsunum er lokað á landsbyggðinni, jólarjúpurnar úldnar, hálfum milljarði er hent út úr Landssímanum í áhættufjárfestingar erlendis. Þrír forstjórar eru á ofurlaunum. Einn mætir í vinnuna. Og það á að reyna að koma á danskri einokun á nýjan leik á þessu sviði viðskipta í landinu, vísi að gömlu dönsku einokunarfyrirkomulagi og með því mundi náttúrlega núv. samgrh. komast á spjöld sögunnar ef honum tækist það, en við skulum vona að svo verði ekki.