Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:13:31 (3779)

2002-01-30 14:13:31# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér hafa í sjálfu sér stórtíðindi gerst. Þingmenn Framsfl. sem hér hafa talað hafa lýst yfir því að þeir telji að staldra eigi við og endurmeta stöðuna um sölu Landssímans. Þingmenn Sjálfstfl. sem hér hafa talað fara út um víðan völl og forðast að ræða málið efnislega og tala helst um það sem ekki var til umræðu, enda skiljanlegt.

Herra forseti. Ég tel að um leið og hæstv. samgrh. hættir við að selja Landssímann, sem ég tel einboðið að hann standi frammi fyrir nú, beri honum að gera þjóðinni grein fyrir því hvað er að gerast þar innan veggja, að hundruð milljóna kr. tapist úr landi í glæfrafjárfestingar, forstjóranum sé sagt upp án skýringa, þrír forstjórar á launum. Þjóðin hlýtur að krefjast skýringa frá þeim sem fer með umboð á eign Símans.

Herra forseti. Reynslan erlendis í öðrum og mun þéttbýlli löndum sýnir að í flestum tilfellum hækkar verð á þjónustunni við einkavæðingu á símafyrirtækjum og fjarskiptum og mismunun eftir búsetu og efnahag verður meiri. Ég nefndi dæmi í Ástralíu í umræðunni sl. vor um sölu Landssímans. Ég er að því leyti til sammála hæstv. samgrh. að ég held að veðjað hafi verið á rangan hest í málefnum Landssímans, ekki aðeins þegar verið var að kasta 500 millj. kr. úr landi, hálfum milljarði, í glæfrafjárfestingar, heldur hafi líka í öllu ferlinu verið veðjað á rangan hest frá byrjun til enda og nú sé mál að linni.

Ég get sagt hæstv. samgrh. á hvaða hest hann á að veðja. Hann á að veðja á íslenskan almenning, hina íslensku þjóð. Hin íslenska þjóð vill eiga Landssímann og það á að veðja á hana og láta hana eiga Landssímann.