Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:15:34 (3780)

2002-01-30 14:15:34# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Þessi umræða hefur um margt verið athyglisverð en í sannleika sagt hefur ekkert nýtt komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar umfram það sem kom fram við umfjöllun um frv. sem var samþykkt þar sem salan var heimiluð. (SJS: Hann er að biðja um upplýsingar frá þér.) Það er alveg ljóst að Alþingi hefur samþykkt heimild og sett sérstök lög um sölu á Símanum.

Ég man eftir því þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem hér talaði áðan, tók til máls þá taldi eins og nú að við hefðum átt að vera búin að selja Símann fyrir löngu. Hann vildi hlaupa svo til þess verks að sleppa nánast öllum undirbúningi og aðdraganda sem við sem viljum vanda þetta verk teljum að hafi þurft að hafa. (Gripið fram í.) (SJS: Hef aldrei ... drepa mann og annan.) Nú er það þannig, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, að ég hef orðið og ég er að vekja athygli á því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem hér talaði áðan hvatti til þess að fara hraðar og selja og hefði að hans mati átt fyrir löngu að vera búið að selja Símann.

En hvað um það, við leggjum áherslu á að vanda allan þennan feril og það verður ekki hlaupið (Gripið fram í.) að neinu. Við höfum nú þegar selt hluta af Símanum. Það er búið að selja almenningi og búið að selja fjárfestum og það er engin hætta á öðru en að gengið verði til þessa verks alveg með sama hætti og við höfum gert, undirbúið þetta vel og munum gera það áfram.

Hv. þm. Jón Bjarnason taldi mikilvægt að þjóðin ætti Símann áfram. Aðalatriðið í mínum huga var auðvitað það að við gefum ekki Símann eins og sumir hv. þm. hafa viljað gera með því að hraða sölunni, ganga miklu hraðar fram en eðlilegt er. Á þeim nótum er ég ekki tilbúinn til að vinna.