Sala Landssímans

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 10:45:42 (3793)

2002-01-31 10:45:42# 127. lþ. 66.92 fundur 299#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 127. lþ.

[10:45]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem átti sér stað utan dagskrár í gær um Símann kom fram þessi merkilega yfirlýsing frá framsóknarmönnum, hv. þm. tveimur, þar á meðal varaformanni stjórnar Símans, um að full ástæða væri til að bakka, stoppa við og skoða á hvaða leið hæstv. ríkisstjórn er gagnvart sölu á Símanum.

Það má eiginlega lýsa þessu svo að þetta sé að verða hálfgerð brunaútsala. Í svari hæstv. forsrh. við fyrirspurn minni um framkvæmdanefnd um einkavæðingu kom fram að annað aðalverkefni þessarar nefndar, framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem hefur tekið til sín 30 millj. undanfarin sex ár, var að undirbúa sölu hlutabréfa í Landssíma Íslands. Jafnframt kemur þar fram að þessi nefnd, sem vinnur í umboði forsrh., kemur saman til fundar, tekur ákvörðun um að kaupa sér sérfræðivinnu og kaupir hana svo af sjálfri sér. Það er sú sérfræðivinna sem ríkisstjórnin hefur svo væntanlega verið að vinna eftir. Og er þá nokkur furða þótt málið sé allt komið í hið mesta klúður, hálfgerð brunaútsala hafin á Símanum og verið að reyna að fá Dani eða einhverja aðra til að kaupa hann á einhverju verði sem þeir vilja svo ekki kaupa á?

Þetta er auðvitað mergur þessa máls. Og það er gott og virðingarvert ef framsóknarmenn ætla aðeins að fara að skoða sinn gang og láta ekki Sjálfstfl. teyma sig áfram út í fenið í þessu máli. (Gripið fram í: Eru þeir hættir við?) Ja, við höfum oft áttað okkur á því að Framsfl. er eins og hálfgerð B-deild Sjálfstfl. Þess vegna er eðlilegt að spyrja núna þá sem halda á B-deildar skírteinunum:

Hver verður afstaða B-deildar manna á hluthafafundi í Landssímanum? Eigum við að halda þessari göngu áfram eða eigum við að stoppa við og fresta þessari sölu?