Geislavarnir

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 11:23:32 (3799)

2002-01-31 11:23:32# 127. lþ. 67.5 fundur 344. mál: #A geislavarnir# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[11:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um geislavarnir og hefur hæstv. ráðherra farið yfir helstu atriði frv. Ég get ekki séð annað en að frv. þetta sé mjög tímabært. Við búum við 15 ára gömul lög í þessum efnum og frá því að þau tóku gildi hafa orðið miklar breytingar, ýmis nýmæli og þróun sem okkur ber að taka inn í lög á Íslandi, bæði vegna tilskipana ESB og vegna samninga sem gilda í Evrópu en eru ekki inni í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í þetta frv. en eftir að hafa lesið það yfir sé ég að þarna eru mörg nýmæli og greinilega þarfar breytingar. En það sem ég vil helst fagna er að setja á inn í lög ýmislegt af því sem í dag er í reglugerðum og sömuleiðis í reglum. Ég tel mikilvægt fyrir okkur að hafa sem mest inni í lögum. Þess vegna tel ég þetta mjög jákvætt og til bóta. Þarna er verið að setja mjög marga þætti inn í lögin sem áður voru aðeins í reglugerð.

Herra forseti. Ég mun koma að vinnslu þessa máls í heilbr.- og trn. þar sem við fáum sérfróða aðila til að fara yfir ýmsa þætti. Ég er ekki sérfræðingur í geislavörnum, geislun eða slíkum málum og tel mikilvægt að við heyrum frá fagmönnum um þessa þætti. Ég get ekki séð annað en hér sé um að ræða mjög þarft og mikilvægt mál sem við hyggjumst setja í lög.