Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:27:20 (3810)

2002-01-31 12:27:20# 127. lþ. 67.7 fundur 57. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:27]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeim upplýsingum sem hér komu fram hjá hæstv. ráðherra, fagna því að á þessum degi sé verið að taka ákvarðanir um að létta nokkuð á þeim sjúklingasköttum sem voru lagðir á fyrir jólin. Þeir voru með eindæmum og íþyngja mjög mörgum heimilum í landinu, ekki síst þeim hópum sem við erum að ræða, öldruðum og öryrkjum. Ég fagna því sérstaklega ef verið er að fara með komugjöldin lægra en þau voru fyrir jólin. Þetta er mjög jákvætt og ég fagna þessu.

Þetta staðfestir auðvitað það sem við í stjórnarandstöðunni héldum fram fyrir jólin, að ríkisstjórnin hefur farið offari gagnvart sjúklingum. Hún fór ekki rétt að ráði sínu þegar hún lagði til hækkun á þessum gjöldum, þ.e. komugjöldunum í heilsugæsluna og hækkun á sérfræðikostnaði og lyfjum með þeim afleiðingum sem þessi hækkun hafði á neysluvísitöluna sem mig minnir að hafi verið 0,9% fremur en 0,11%. Því lá auðvitað beint við, ef ríkisstjórnin ætlaði sér á annað borð að taka þátt í því átaki sem nú er í gangi í þjóðfélaginu til þess að lækka verðbólguna, að lækka þessi gjöld á sjúklinga. Ég fagna því á þessum degi að ráðherrann hefur í þessum ræðustól staðfest það að sú leið hefur verið farin.