Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:48:19 (3814)

2002-01-31 12:48:19# 127. lþ. 67.9 fundur 239. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:48]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns er ég meðflm. að till. til þál. um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Það má segja að sennilega hafi það fyrst borist til eyrna okkur í heilbr.- og trn. hve slæm staðan er, sérstaklega hjá langveikum börnum, við heimsókn frá fulltrúum foreldra þessara barna til nefndarinnar fyrir tveimur árum eða svo. Manni hnykkti eiginlega við þegar maður áttaði sig á hve munurinn er mikill milli Íslands og hinna Norðurlandanna.

Reyndar er okkar fyrirkomulag ekki aðeins þannig að tíu veikindadagar séu greiddir að hámarki fyrir börn undir 13 ára aldri heldur erum við með nokkuð flókið fyrirkomulag. Það er oft svoleiðis í tryggingakerfi okkar, að því er mér virðist, að það er ógegnsætt. Það er erfitt fyrir fólk að átta sig á öllum rétti sínum. Ég held að hin Norðurlöndin standi sig sennilega betur hvað það varðar að fólk veit að hverju það gengur. Við stöndum okkur ekki endilega svo illa ef menn vita hvert þeir eiga að leita eftir aðstoðinni.

Það kemur fram í grg. með þáltill. að umönnunarbætur séu nú greiddar til foreldra 2.000 barna og þar af séu um 500 langveik börn. Mér finnst að þjóðfélagið þurfi að veita stuðning þeim foreldrum sem berjast með langveikum börnum sínum og okkur ekki ofverk að standa vel við bakið á þeim. Það er fjölskyldustefna sem sérhvert þjóðfélag hlýtur að hafa að leiðarljósi, að fólk með langveik börn fái allan þann stuðning sem þeir foreldrar þurfa.

Auðvitað eru margir foreldrar vel settir og þurfa ekki mikið á aðstoðinni að halda. Samt er það svo að staða fólks með langveik börn er nægilega erfið tilfinningalega. Sá sársauki sem fólk þarf að bera í þeirri viðureign er nægur þó ekki þurfi að koma til fjárhagsleg vandræði og öll þau mál bætist við.

Síðasti ræðumaður minntist á þann möguleika að foreldrar nýti sína veikindadaga. Mér finnst það eiginlega frekar hættuleg braut að fara út á. Ég held að foreldrum veiti ekki af veikindadögum sínum enda er samið um þá í kjarasamningum og vel rökstutt eftir því sem ég best veit. Ég held að þetta hljóti að vera viðbót og fyrst og fremst þurfi að horfa á réttindi langveikra barna og setja þau í algjöran forgang.

Síðan er gert ráð fyrir að með nefndarskipaninni sem tiltekin er í þáltill. verði farið yfir og borin saman aðstaða aðstandenda sjúkra barna annars staðar á Norðurlöndum og nefndin hafi hliðsjón af því hvernig að því er staðið annars staðar.

Herra forseti. Ég er mjög hlynnt þessari tilögu. Mér finnst þarna hreyft mjög þörfu máli og vil gera mitt til að þjóðfélagið veiti foreldrum veikra barna enn frekari stuðning, ekki síst langveikra barna.