Áfallahjálp innan sveitarfélaga

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:02:27 (3817)

2002-01-31 13:02:27# 127. lþ. 67.8 fundur 141. mál: #A áfallahjálp innan sveitarfélaga# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:02]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi okkar þingmanna Frjálslynda flokksins við þessa tillögu. Ég tel afar þarft að komið verði á slíku fyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir. Þegar alvarleg slys verða vill oft gleymast að vandi syrgjenda og eftirlifenda, ef um dauðaslys er að ræða, er mikill og af ýmsum orsökum eins og hv. flm. Hjálmar Árnason hefur gert hér grein fyrir í ræðu sinni.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um málið. Ég held að þessi tillaga sé afar þörf, að komið verði á því skipulagi að til staðar sé ákveðið ferli varðandi áfallahjálp í kjölfar alvarlegra slysa. Það er sjálfsagt að þannig verði staðið að málum.

Sá sem hér stendur stundaði lengi sjó og lenti því miður í því einu sinni að verða þátttakandi í alvarlegu slysi. Það er full þörf á þeirri tillögu sem hér er lögð fram.