Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:31:01 (3818)

2002-01-31 13:31:01# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það voru slæm tíðindi sem almenningi bárust þegar það fregnaðist að lággjaldaflugfélagið Go-fly væri hætt að fljúga hingað til Íslands. Það var bylting fyrir íslenskar fjölskyldur, sérstaklega þær sem lifðu af lágum tekjum, þegar félagið hóf reglulegt áætlunarflug hingað. Í því fólst verulegur kaupmáttarauki. Fyrir ferðaþjónustuna skipti þetta flugfélag líka miklu máli. Á síðustu tveimur árum hefur það flutt tugi þúsunda farþega til Íslands. Það má velta því fyrir sér, herra forseti, hvort þessir farþegar hefðu komið hingað nema fyrir tilstilli þessa flugfélags. Kannanir sýna nefnilega að 70% af farþegum lággjaldaflugfélaga af þessu tagi eru hrein viðbót, fólk sem tekur sér beinlínis far vegna mjög lágra fargjalda. Þetta þýðir í reynd að þúsundir ferðamanna hafa komið hingað til lands aukreitis beinlínis vegna þessa félags.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. samgrh. sem hér er viðstaddur umræðuna hvort hann telji þetta ekki alvarleg tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Ástæðan fyrir því að Go-fly hætti að fljúga hingað er að sögn forráðamanna félagsins há afgreiðslu- og lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt upplýsingum þeirra eru samanlögð afgreiðslu- og lendingargjöld um fjórðungi hærri hér á landi en í þeirri borg sem er næsthæst, þeirra sem þeir skipta við, en það er Munchen. Samkvæmt reynslu þeirra er það líka svo að afgreiðslugjöld á Keflavíkurflugvelli eru t.d. ríflega tvisvar sinnum hærri en í Kaupmannahöfn og fjórum sinnum dýrari en í Munchen. Ástæðan fyrir þessu, herra forseti, er fyrst og fremst skortur á samkeppni. Það er einfaldlega bara eitt fyrirtæki, IGS, sem hefur samninga við flugstöðina um aðstöðu til að afgreiða stórar farþegaþotur. Það er í mínum huga ekkert annað en skýrt dæmi um hreina og klára einokun. Öðrum fyrirtækjum hefur ekki tekist að ná samningum á jafnræðisgrundvelli. Eina smáfyrirtækið sem náð hefur samningi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður að sæta því að greiða hærra innritunargjald á hvern farþega en IGS.

Í desember árið 2000 kvað Samkeppnisstofnun upp þann úrskurð að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefði brotið gegn 17. gr. samkeppnislaga og gegn markmiði laganna með því að koma í veg fyrri samkeppni. Samkeppnisstofnun gaf flugstöðinni þá frest til fimm vikna, til 15. janúar, til að semja við fyrirtækið sem kærði til stofnunarinnar. Síðan var þessi frestur framlengdur um þrjár vikur til viðbótar. Réttu ári síðar er ekki enn kominn á samningur milli flugstöðvarinnar og fyrirtækisins sem kærði. Ástæðan er einföld: Flugstöðin beitir smærri félögin ójafnræði með því að krefjast hærri greiðslna á sérhvern farþega en stóra félagið þarf að greiða, fyrir utan óréttlát fastagjöld af innritunaraðstöðu sem hamla bersýnilega líka samkeppni.

Þessu hafa smáu félögin ekki viljað una. Þau hafa eðlilega hafnað samningum á þessum grundvelli. Þess vegna er engin samkeppni um þjónustu af þessu tagi og fyrir vikið hefur ekki tekist að lækka afgreiðslugjöldin. Það blóðugasta, herra forseti, er auðvitað að það er opinbert fyrirtæki sem ber hér ábyrgðina.

Skortur á samkeppni er samt ekki eina ástæðan. Hér á landi eru líka ákaflega háir skattar á farþega eins og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur t.d. bent á. Þetta eru flugvallarskattur, innritunargjald og síðan er nýlega komið á öryggiseftirlitsgjald. Þetta nemur samtals um 2.500 kr. á hvern farmiða. Það segir sig sjálft að það er giska há upphæð þegar menn eru að tala um farmiða á bilinu 15.000--20.000 kr., herra forseti.

Af sjálfu leiðir að þegar afgreiðslugjöld eru há, þegar lendingargjöld eru há og skattar hins opinbera eru háir, þá beina lággjaldaflugfélög á borð við Go-fly farkostum sínum annað. Það skaðar hins vegar kaupmátt alls þorra almennings. Það skaðar íslenska ferðaþjónustu og það skaðar íslenskan þjóðarhag.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann muni beita sér fyrir því að álögur hins opinbera á farmiða lækki. Mun hann beita sér fyrir því að samkeppni verði komið á í stað þeirrar einokunar sem ruddi Go-fly flugfélaginu burt frá Íslandi?

Af því að ríkisstjórnin er farin að fara að fordæmi Reykjavíkurlistans og lækka opinber gjöld, mun þá ekki hæstv. utanrrh. taka upp símann og tala við forráðamenn Go-fly og spyrja hvort þeir séu til í að koma aftur ef hann beitir sér fyrir þessu, alveg eins og borgarstjórinn í Reykjavík gerði?