Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:03:14 (3830)

2002-01-31 14:03:14# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þó að þetta mál sé kannski ekki svo flókið í eðli sínu má segja að það varði samt sem áður þrjá ráðherra, hæstv. fjmrh., utanrrh. og að sjálfsögðu líka ráðherra ferðamála, hæstv. samgrh. Við höfðum ákveðnar spurningar sem við hefðum gjarnan viljað beina til hæstv. samgrh.

Ég sem málshefjandi hafði samband við samgrh. og óskaði eftir því að hann yrði viðstaddur umræðuna vegna þess að ég hafði ákveðna hluti sem ég þurfti að koma á framfæri við hann. Við þurftum að spyrja hæstv. samgrh. um tiltekna reglugerð sem átti að vera búið að setja samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Við höfum ekki fundið þessa reglugerð. Hún skiptir máli varðandi ferðafrelsi í landinu, varðandi forsendur ferðafrelsis, flugfélagafrelsi og samkeppnisfrelsi á þessu þjónustusviði sem felst í að afgreiða flugfélög. Þess vegna var fullkomlega eðlilegt að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, og síðan ég, varpaði spurningum til hæstv. samgrh.

Ég ætla ekki að segja að þetta sé fordæmalaust en þetta er í fyrsta skipti sem ég verð þess áskynja, herra forseti, að ráðherra sem vill taka til máls í svona umræðu til að svara spurningum sem beint er til hans vegna hans eigin málaflokks, fái ekki orðið. Ég er ekki að segja að það hafi ekki gerst, en ég hef aldrei vitað til þess. Ég hef sjálfur áður efnt til utandagskrárumræðna þar sem ég hef óskað eftir því að fleiri en einn ráðherra verði viðstaddir, vegna þess að málið er skylt öðrum en þeim sem fyrirspurn mín eða frummælanda hefur verið beint til. Þá hefur alltaf verið orðið við því og viðkomandi ráðherra hefur ekkert farið á flótta undan tiltölulega saklausum spurningum, eins og hæstv. samgrh. hefur gert. Það er auðvitað það sem er að gerast. Hæstv. samgrh. treysti sér ekki til að svara þessari spurningu. Og af hverju er það? Það er sennilega vegna þess að hann veit ekki svarið við spurningunni. Hann er ekki klár á því hvort búið er að setja þessa reglugerð sem átti að vera búið að setja. Um það snýst þetta, herra forseti. Maður veltir því auðvitað fyrir sér hvers konar búskapur þetta er í samgrn. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom hér upp og sagði: Þingmenn Samfylkingarinnar leituðu ...

(Forseti (ÍGP): Ég minni hv. þingmann á að hér er verið að ræða um fundarstjórn forseta.)

Herra forseti. Mér er það alveg ljóst. Og ég er að mótmæla ákaflega harkalega þeirri fundarstjórn sem birtist í því að þegar ég varpa spurningum til hæstv. samgrh. þá fær hann ekki að svara. Þetta er auðvitað algjörlega ómöguleg fundarstjórn hjá hæstv. forseta eins og allir geta séð. Ég átel þetta harðlega. Ég vil eigi að síður friðmælast við forsetadæmið og setja ekki á lengri tölur um þetta.

Staðreyndin er bara þessi: Hæstv. samgrh. svaraði ekki spurningunni af því hann vissi ekki svarið. Hana er er ekki að finna hjá starfsmönnum samgrn. og hana er ekki heldur að finna á heimasíðu ráðuneytisins sem var uppfærð hvenær? Fyrir einu og hálfu ári. Ja, heyr á endemi.

(Forseti (ÍGP): Það hefur komið fram í þessari umræðu að þessi málaflokkur fellur undir utanrrn. Forseti vill minna á það.)