Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:14:29 (3835)

2002-01-31 14:14:29# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), LB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hv. þingmönnum stjórnarliðsins hlýtur að vera eitthvað órótt. Það er með ólíkindum hvernig hægt er að snúa út úr einfaldri umræðu líkt og þeir hafa gert hér. Það sem ég dró fram í þessari umræðu er að það er mjög undarlegt, þegar málefni eins og þetta kemur upp sem lýtur fyrst og fremst að ferðaþjónustu í landinu, að við þurfum að tala um það við hæstv. utanrrh. vegna þess að málaflokkurinn heyrir undir hann. Þess vegna tökum við upp umræðu við hæstv. utanrrh.

Hins vegar er það margþekkt að menn óski eftir því að ráðherra sem málið snertir --- í þessu tilfelli byggjum við kannski bara á gömlu og úreltu fyrirkomulagi, úreltri stjórnsýslu. Við bara sitjum uppi með hana --- það er alþekkt að fyrirspurnum sé beint til annarra ráðherra sem í þessu tilviki koma málinu mikið við. Og menn hlaupa hér upp til handa og fóta með yfirlýsingar um allt og allt eins og þetta sé algjörlega óþekkt. Það er alveg með ólíkindum hvernig menn geta látið.

Það er undarlegt að hæstv. samgrh. hafi ekki þá vigt þegar eftir því er óskað að hann komi inn í þessa umræðu, að hann taki þá stöðu að tala hér í tvær mínútur. Það er alþekkt líka.

Ég bara vona, virðulegi forseti, að menn láti af þessum bjánagangi á hinu háa Alþingi.