Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:15:58 (3836)

2002-01-31 14:15:58# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með Lúðvíki Bergvinssyni. Þetta er dæmalaus umræða, ekki af hálfu Samfylkingarinnar, heldur af hálfu stjórnarliða í þessum sal Alþingis. Ég veit bara ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Til hvers skyldi málshefjandi hafa haft samband við samgrh. og beðið hann að vera viðstaddan umræðuna? Til að hann sæti hér og hlustaði? Hvað halda menn að við þingmenn sem biðjum um utandagskrárumræðu höfum oft óskað eftir að annar ráðherra yrði viðstaddur ef málið skarast á milli ráðuneyta?

Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem hæstv. félmrh. hefur komið hér til að vera viðstaddur umræðu sem hefur skarast við önnur ráðuneyti, komið sér á mælendaskrá, talað seinni hlutann í umræðunni og gefið upplýsingar sem lúta að ráðuneyti hans og talið það eðlilegt og sjálfsagt. Ég hef talið það eðlilegt og sjálfsagt þá tíð sem ég hef verið þingflokksformaður að þannig væri hægt að haga umræðu á Alþingi.

Herra forseti. Þetta er auðvitað alveg fádæma klaufalegt af samgrh., þó að ég fyrirgefi honum það úr því að hann hafði ekki rænu á því að biðja tímanlega um orðið, og viðkvæmt fyrir aðra stjórnarliða, ég tala nú ekki um samflokksmenn samgrh., að hafa ekki gefið honum færi á að koma sér á mælendaskrá í þessari umræðu þegar ljóst var að málið skaraðist eins og það gerir á milli utanrrn. og samgrn. Allt málið er klaufalegt. Ekki af hálfu málshefjanda, ekki af hálfu Samfylkingarinnar heldur af hálfu stjórnarliða og e.t.v. stjórnar þingsins, dæmalaust.