Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:17:57 (3837)

2002-01-31 14:17:57# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Frá sjónarhóli sálfræðinnar er þessi umræða ákaflega merkileg. Hún veitir innsýn í hugarheim stjórnarliða. Ég verð að segja að ég gerði mér ekki grein fyrir því að geðbrigðin væru svona rosaleg í hugum stjórnarliða eftir þau tíðindi sem hafa orðið í stjórnarsamstarfinu síðasta sólarhringinn ef svo má að orði kveða.

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. Hjálmars Árnasonar um að það væri sérkennileg hefð sem við værum að reyna að koma hér á, að varpa spurningum til annars ráðherra en þess sem umræðunni er beint til, þá hefði hv. þm. átt að taka svolítið betur eftir því sem er að gerast í kringum hann. Þetta er alsiða hér í þinginu. Það er ekki nema tíu dagar síðan þetta gerðist í umræðu um efnahagsmál sem hér var háð úr þessum ræðustól í þessum sal, á þriðjudaginn í síðustu viku, þegar hæstv. fjmrh. fékk til sín spurningu og svaraði henni að sjálfsögðu. Svona gerist alltaf.

Herra forseti. Af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson dylgjaði um það að ég hefði farið hérna með ósæmilegum vinnubrögðum að hæstv. samgrh. og reynt að fella hann með hælkrók þá veit hv. þm. jafn vel og ég að það þarf nú ekki formann Samfylkingarinnar til þess að fella þennan hæstv. ráðherra á hælkrók. Mér sýnist hæstv. ráðherra falla jafnvel um laufblöðin sem verða á vegi hans þessa dagana.

Herra forseti. Ég gæti auðvitað nýtt mér þetta kostaboð hæstv. samgrh. og efnt hérna til utandagskrárumræðu. Telur t.d. hv. þm. Halldór Blöndal föng til þess að ég þekkist þetta góða boð hans að efna hér til utandagskrárumræðu af því að ég þarf að spyrja hæstv. samgrh. hvort hann hafi sett tiltekna reglugerð? Með fullri virðingu fyrir hv. þm. Halldóri Blöndal og fullur þakklætis fyrir hið góða boð sem hann í gervi forseta hefur gert mér ætla ég ekki að þiggja það. Ég læt mér nægja að leggja bara fram eina tiltekna fyrirspurn, skriflega eða munnlega, til þess að verða mér út um þessa vitneskju.

Herra forseti. Ég er hins vegar hér starfandi undir handarjaðri hæstv. forseta Halldórs Blöndals og tek mark á því sem hann segir og reyni að gera mitt til þess að greiða fyrir umræðum í þessu þingi. Hæstv. forseti veit að það gerist nú ekki oft að formaður Samfylkingarinnar óhlýðnist þeim boðum sem ganga af munni þess forseta sem situr hverju sinni. Ég taldi einfaldlega að með því að fara þessa leið að óska eftir því að hæstv. samgrh. yrði viðstaddur umræðuna til að væri hægt að spyrja hann þessara tveggja sakleysislegu spurninga, væri ég að greiða fyrir þingstörfum. Það þurfti þá a.m.k. ekki utandagskrárumræðu til þess.

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja meira að þessu sinni til þess að koma mönnum ekki í meira uppnám. En það skýrði sig alveg sjálft, og það þarf ekki formann Samfylkingarinnar til þess að skýra það, hvers vegna hæstv. samgrh. tók ekki þátt í þessari umræðu. Við óskuðum eftir upplýsingum. Við höfðum leitað eftir þeim áður í samgrn. og þær fengust ekki þar.