Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:24:36 (3840)

2002-01-31 14:24:36# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), EKG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Nú fer loksins að verða ljós tilgangurinn með þessari umræðu hjá hv. 7. þm. Reykv. Hann sagði frá því svona af hjartans lítillæti í lokin að hann ætlaði að flytja eina litla fyrirspurn til hæstv. samgrh. um málið. Ég verð að játa að eftir minn tíu ára þingferil sýnist mér þetta vera lengsti aðdragandi að einni fyrirspurn sem ég hef orðið vitni að í þingsölum því við höfum vanalega tvær mínútur til að flytja mál okkar í þessu sambandi. En hv. þm. er búinn að fimbulfamba um málið meira og minna eftir að þessari umræðu lauk með örlitlum hléum þar sem við hinir gátum komið að nokkrum orðum.

Allt er þetta mál að verða ljóst. Þetta var allt saman tilefnislaust. Hv. þm. var auðvitað í lófa lagið, úr því honum fannst ekki þeim spurningum sem hann beindi til hæstv. ráðherra vera svarað, að leggja fram fyrirspurn eins og ég nefndi reyndar í upphafi máls míns áðan. Nú liggur það sem sagt fyrir að hv. þm. mun hér á eftir ganga til starfsmanna þingsins, biðja þá að búa til fyrirspurn, leggja hana fyrir þingið og hæstv. samgrh. svara. Ég verð að játa að ég skil ekki þetta upphlaup allt saman. Það er vegna þess m.a., virðulegi forseti, að ég er ekki sálgreinir eins og hv. þm. Hv. þm. hóf mál sitt á því áðan að segja frá því að hann hefði verið að skyggnast inn í sálartetur okkar stjórnarliða og komist að sitt hverju. Þá varð manni enn betur ljóst en nokkru sinni áður hversu hæfileikaríkur hv. þm. er því hann er líka sálgreinir á þessu sviði. Ég verð að taka aftur orð mín sem ég sagði hér áðan því þessi umræða hafði ákveðinn tilgang. Það er greinilegt.