2002-01-31 14:26:42# 127. lþ. 67.4 fundur 406. mál: #A alþjóðasamningar um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda alþjóðasamning um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. desember 1997 og alþjóðasamning um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem samþykktur var á þeim sama vettvangi 9. desember 1999.

Hryðjuverkaárásin á Bandaríkin 11. september 2001 hefur kallað á hörð viðbrögð ríkja heims og hvatt þau til að leita allra tiltækra leiða til þess að efla varnir gegn hryðjuverkum og tryggja öryggi borgara. Hryðjuverk þessi hafa vakið ríki til vitundar um að hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi eru orðin ein mesta ógn sem steðjar að friði í heiminum og um það gífurlega manntjón og eignatjón sem hryðjuverk geta valdið. Þær aðferðir sem hryðjuverkamenn beita hafa einnig vakið sérstakan ugg þar sem þeir virðast ekki hika við að tortíma sjálfum sér til þess að ná fram markmiðum sínum. Hefðbundin sjónarmið um varnaðaráhrif þess að leggja þungar refsingar við hryðjuverkum eiga því ekki við með sama hætti og áður. Enn fremur veldur áhyggjum að skipulögð starfsemi hryðjuverkahópa nær til margra ríkja í senn og mikið fjármagn streymir til hennar. Af framansögðu leiðir að brýnt hefur verið talið að kveða í alþjóðasamningum og innlendri refsilöggjöf á um markvissari úrræði í baráttunni gegn hryðjuverkum, ekki aðeins gagnvart gerendum sjálfum heldur einnig þeim sem leggja hryðjuverkastarfsemi lið, t.d. með fjármögnun hennar. Hefur m.a. verið talin rík þörf á að kveða skýrt á um að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sé sjálfstæður refsiverður verknaður og setja reglur um skyldur fjármálastofnana þegar grunur leikur á fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum var öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kallað saman. Með ályktun öryggisráðsins nr. 1368, 12. september sl., voru hryðjuverkin fordæmd og ríki heims hvött til að vinna saman að því að leita þá uppi sem stóðu á bak við þau og koma lögum yfir þá. Einnig voru ríki hvött til að fullgilda fyrirliggjandi alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum og hrinda ákvæðum þeirra í framkvæmd.

[14:30]

Í þáltill. er gefið yfirlit yfir alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum, fjölda aðildarríkja þeirra og stöðu Íslands gagnvart þessum samningum. Eins og þar kemur fram er Ísland þegar aðili að meiri hluta samninganna en stefnt er að fullgildingu þeirra samninga sem Ísland er ekki aðili að fyrir næsta vor. Með tillögu þessari er fyrsta skrefið stigið og leitað heimildar Alþingis til fullgildingar þeirra tveggja samninga sem telja verður mikilvægasta af umræddum hryðjuverkasamningum.

Markmið alþjóðasamningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar, er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkasprengingum. Samningurinn stefnir að því að refsiviðurlögum verði komið yfir þá sem fremja hryðjuverk með sprengingum eða öðrum lífshættulegum aðferðum, t.d. útbreiðslu eiturefna eða smitandi sjúkdóma, geislavirkni og öðrum áþekkum aðferðum. Með því að gerast aðilar að samningnum skuldbinda ríki sig til þess að fallast á ákveðnar skilgreiningar sem kveða á um að hryðjuverk sem framin eru með sprengingum eða öðrum lífshættulegum aðferðum séu refsiverður verknaður sem teljist til alvarlegustu brota samkvæmt refsilöggjöf þeirra. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 28. september 1998, en aðildarríki hans eru nú 48 talsins.

Markmið alþjóðasamningsins um koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkum og fjölga úrræðum til þess að unnt verði að koma fram refsiviðurlögum gagnvart þeim sem fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Með aðild að samningnum gangast ríki undir skuldbindingar um að fallast á ákveðnar skilgreiningar varðandi tilflutning og öflun fjármuna með vitneskju um að þá skuli nota til hryðjuverkastarfsemi, og að slík háttsemi teljist afbrot sem þungar refsingar verði lagðar við, bæði gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Að auki leggur samningurinn þær skyldur á aðildarríki að skilgreina rúmt hlutdeild í fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 1. okt. sl., en aðildarríki hans eru nú 18 talsins.

Í báðum samningunum er að finna ákvæði um refsilögsögu, framsal og alþjóðlega réttaraðstoð til að greiða fyrír því að unnt sé að koma fram refsingum gagnvart brotamönnum, án tillits til þess hvar brotið er framið, þjóðernis eða dvalarstaðar brotamanns.

Fullgilding þessara tveggja alþjóðasamninga kallar á breytingar á lögum hér á landi. Hæstv. dómsmrh. hefur lagt frv. þar að lútandi fyrir Alþingi. Í frv. eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns nr. 144/1998.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.