2002-01-31 14:33:43# 127. lþ. 67.4 fundur 406. mál: #A alþjóðasamningar um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Enn á ný ræðum við mál sem tengist hörmungum haustsins og vekur upp minningar um hryðjuverkin sem við upplifðum í haust, ástæður þeirra og nauðsyn þess að gera víðtækar breytingar til að afstýra því að slíkt gerist í framtíðinni. Það er ljóst að þessi hryðjuverk hafa vakið þjóðir heims til vitundar um viðbúnað, varnir, hvers konar reglur og alþjóðasamninga sem gera þjóðum unnt að sporna gegn nýrri og mjög ógnandi vá. Þess vegna er mjög mikilvægt að við hér á Íslandi tökum þátt í og fullgildum þá alþjóðasamninga sem alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um til að sporna við þessum hörmungum.

Í umræðunni um samstarf þjóða í haust hefur það sjónarmið borið hátt að mikilvægt sé að allar aðgerðir séu samþykktar af eða undir forsjá Sameinuðu þjóðanna. Líka hvað varðar friðargæsluna, fyrirbyggjandi aðgerðir á viðkvæmum stöðum og enduruppbyggingu að átökum loknum, sá gæðastimpill sem felst í því að Sameinuðu þjóðirnar séu í forsvari er talinn mikilvægur til að ná árangri. Ég vil undirstrika það hér. Þetta hefur jafnframt endurspeglast í umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs um þessi mál. En áður en atburðirnir í september urðu var Norðurlandaráð þegar byrjað að ræða samvinnu Norðurlandanna varðandi friðargæslu og samvinnu við enduruppbyggingu að átökum loknum, fyrirbyggjandi aðgerðir eða íhlutun í átök. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við fullgildum slíkar samþykktir. Ég fæ tækifæri til þess sem fulltrúi míns flokks í utanrmn. að fara nánar í þessa samþykkt.

Það sem vekur athygli við skoðun á þessu máli er að við erum nú annars vegar að fara að fullgilda fyrir Íslands hönd alþjóðasamning sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. desember 1997, fyrir fjórum og hálfu ári, og hins vegar samning um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem samþykktur var 9. desember 1999. Við erum frekar sein á okkur í að vinna með og fullgilda slíka samninga.

Nú þekki ég ekki hvernig þetta hefur almennt verið. Ég sé hins vegar, þegar ég skoða yfirlit um alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum sem er að finna á bls. 2 og 3 í greinargerð með þessari tillögu, að þar er greint frá einum 13 samningum og nokkrir þeirra hafa lengi verið án samþykkis okkar, t.d. sýnist mér samningur um gæslu kjarnorkuefna vera frá 1980 og Ísland er ekki aðili að honum en stefnt er að aðild 2002. Ísland er ekki aðili að samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggissiglingum á sjó. Ísland er ekki aðili að bókuninni um ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja. Ísland er ekki aðili að samningnum um merkingar á plastsprengiefni. Eins og ég segi eru þessir samningar misgamlir en alls staðar þar sem það er tilgreint, í 4 eða 5 tilfellum af þeim 12 eða 13 sem hér eru nefnd, er jafnframt sagt að stefnt sé að aðild fyrir vorið 2002.

Það er hið ágætasta mál. Það segir okkur að utanrmn. hafi væntanlega farið yfir alla alþjóðasamninga sem við höfum ekki þegar fullgilt og sett í gang vinnu við að fullgilda samninga sem við höfum ekki gengið frá á síðustu árum og séum með alþjóðasamfélaginu í því að taka á þar sem á þarf að halda. Ég er afskaplega ánægð að sjá þessi áform og lýsi yfir fullum stuðningi við þá vinnu en að sjálfsögðu geta komið í ljós í vinnunni í utanrmn. einhver atriði sem við viljum skoða nánar.

Hvað þennan sérstaka samning varðar --- þeir eru reyndar tveir en ég ætla að leyfa mér að koma með athugasemd um þann fyrri sem varðar hryðjuverkasprengingar --- bendi ég fyrst og fremst á 2. gr., sem er megingreinin, um að ,,sá fremur afbrot í skilningi samnings þessa sem með ólögmætum hætti og af ásetningi fer með sprengju eða með annarri lífshættulegri aðferð inn á, inn í eða gegn almenningsstað, aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda, almenningssamgöngukerfi eða almenningsmannvirki, kemur henni þar fyrir, gerir hana virka eða sprengir hana.`` Síðan er í greininni farið yfir í hvaða ásetningi þetta væri hugsanlega gert.

Í 4. gr. segir síðan að hvert aðildarríki skuli gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunni að vera til að gera þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. samnings þessa refsiverð samkvæmt landslögum og leggja viðeigandi refsingu við þeim afbrotum þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra.

Og í 5. gr. segir:

,,Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera, þar á meðal með lagasetningu þar sem við á, til að tryggja að afbrot er falla undir samning þennan, sérstaklega ef þeim er ætlað eða þau eru við það miðuð að leiða til ógnarástands meðal almennings, hópa eða einstaklinga, séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða af stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum toga, og að fyrir þau sé refsað í samræmi við alvarleika þeirra.``

Ég hef, virðulegi forseti, nefnt hér þrjár greinar sem mér sýnist að séu mjög mikilvægar. En þær segja okkur líka að það er ekki einfalt mál að koma þessum ákvæðum alþjóðasamningsins fyrir í íslenskum lögum þannig að við séum tryggð á þann hátt sem hér er um getið en jafnframt verði gætt lýðræðishefða í okkar ríki og þess að ganga ekki á rétt almennings. Allt þetta munum við skoða og ég lýsi yfir stuðningi Samfylkingarinnar við að skoða þessi mál.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að mér finnst þetta mjög mikilvægt, þ.e. að hæstv. utanrrh. takist að leggja þá alþjóðasamninga sem hér er vísað til fyrir þingið og jafnframt að ríkisstjórnin tryggi að hið allra fyrsta komi frv. sem fylgi í kjölfar þessara alþjóðasamninga þannig að við getum gert þá virka á Íslandi.