Unglingamóttaka og getnaðarvarnir

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 15:01:44 (3848)

2002-01-31 15:01:44# 127. lþ. 67.10 fundur 317. mál: #A unglingamóttaka og getnaðarvarnir# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessari till. til þál. um unglingamóttöku og getnaðarvarnir en 1. flutningsmaður hefur gert ítarlega grein fyrir tillögunni.

Ég tel að þetta sé hin merkasta tillaga. Hún skýrir sig að mestu leyti sjálf --- í henni felst að opnuð verði unglingamóttaka við eina af heilsugæslustöðvunum í Reykjavík og að komið verði á fót tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar með ókeypis eða ódýrar getnaðarvarnir.

Í greinargerðinni er sagt frá starfsemi nokkurra heilsugæslustöðva á landinu þar sem opnaðar hafa verið unglingamóttökur. Þar ber helst að nefna heilsugæsluna á Sólvangi í Hafnarfirði og heilsugæsluna á Akureyri. Heilsugæslan á Seltjarnarnesi var einnig nefnd til. En það er ekki svo að heilsugæslan í Reykjavík sinni þessum málum ekki því mikil þjónusta er nú þegar fyrir hendi á heilsugæslustöðvunum í Reykjavík. Þar er mikil þekking og reynsla, bæði hjá heimilislæknum og hjúkrunarfræðingum, og víða mikill áhugi á þessu máli. Það hefur kannski togast á í umræðunni, þetta með að hafa sérstaka móttöku opna. Margir í heilsugæslunni telja ekki æskilegt að setja upp ákveðin box eða einhvern sérstakan ramma utan um verkefni af þessu tagi vegna þess að að mörgu leyti falli þau innan þjónustusviðs stöðvanna. Aðrir segja, eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, að stundum koma sérstakar þarfir í ljós, t.d. eru unglingar einn slíkur hópur og það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að unglingar þurfi að koma á sérstökum tíma eða vilji ekki koma á tíma þegar þeir sem eldri eru sitja á biðstofunni o.s.frv. Ég hugsa að þannig megi mjög vel rökstyðja að það sé viturlegt að bjóða upp á unglingamóttöku.

Mér finnst hins vegar rétt að slík móttaka sé á vegum heilsugæslunnar. Þetta er jú fyrirbyggjandi vinna og mér finnst mjög eðlilegt að fyrsti valkostur fólks og snertiflötur við heilbrigðiskerfið sé heilsugæslan. Heilsugæslunni í Reykjavík ætti þess vegna að vera gert auðvelt að sinna þessu verkefni sérstaklega og koma því áleiðis til ungs fólks í skólum eða á vinnumarkaði, fólks sem er innan þessara aldurstakmarka sem við erum að tala um, fólks upp að nítján, tuttugu ára aldri.

Tilraunaverkefni sem lagt er til að ráðherra verði falið að fela landlækni, þ.e. með ókeypis eða ódýrar getnaðarvarnir, vekur líka upp ýmsar spurningar. Auðvitað eru margir unglingar fjárhagslega sjálfstæðir eða hafa fjármuni og gott samband við foreldra sína og geta séð um getnaðarvarnirnar sjálfir en það er ekki svo hjá öllum. Því fer fjarri. Þekking ungs fólks er ekkert endilega mikil um þessi mál, í og með vegna þess að stundum er ekki gott samband við foreldra, í og með vegna þess að skólakerfið hefur í gegnum tíðina ekki sinnt þessu nægilega þannig að ástæðurnar geta verið margar.

Í greinargerð með tillögunni er vitnað í könnun sem gerð var 1996. Samkvæmt henni vissu 2/3 af ungmennahópnum ekki hvað neyðargetnaðarvörn var. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 1996 og merkasta breytingin var án efa sú þegar farið var að heimila apótekum að afgreiða neyðargetnaðarvörn í neyðartilviki sem neyðarlyf og ég held að það hafi verið mjög jákvætt skref. Þessi umræða hefur verið í öðrum löndum. Um það bil eitt ár held ég að sé liðið síðan farið var að afhenda neyðargetnaðarvörn á þennan hátt í Bretlandi eftir mikla umræðu þar.

Þetta er allt hluti af þeirri umsinnu og kærleik sem þjóðfélagið þarf að sýna ungu fólki sem er að fóta sig á refilstigum lífsins. Þótt tilraunaverkefni af þessu tagi kosti eitthvað held ég að það muni skila sér vegna þess að verið er að draga úr óhöppum og áföllum í lífi þessa unga fólks sem hyggur ekki á barneignir og sér þær ekki fyrir þótt það hefji kynlíf, stundum án mikillar vitneskju um þunganir.

Við vitum líka að tíðni fóstureyðinga á Íslandi er með ólíkindum há. Hjá unglingsstúlkum er hún um eða yfir tvöfalt það sem gerist t.d. í Finnlandi. Í tölum sem eru að vísu ekki alveg glænýjar, frá árunum 1996, 1997 og 1998, kemur fram að samanburðurinn er einkar óhagstæður fyrir Íslendinga. Meðal stúlkna yngri en tuttugu ára var af hverjum þúsund framkvæmd fóstureyðing í 24% tilvika, í Noregi 18,7%, í Svíþjóð tæp 18%, í Danmörku 16% og í Finnlandi rúm 10%. Því er alveg ljóst í mínum huga að hér er þörf á átaki, og ekki bara átaki heldur breyttum vinnubrögðum. Það er nauðsynlegt að rétta þessum unglingum þá hjálparhönd sem ég efast ekki um að þeir vilji finna.

Herra forseti. Frumkvæði í þessu máli hefur verið mjög mikið innan heilsugæslunnar og voru nefndar nokkrar heilsugæslustöðvar á landinu og hér á höfuðborgarsvæðinu sem dæmi um það. Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir hafa líka unnið mjög merkt starf. Af þessu má sjá að þekkingin og reynslan hjá starfsfólki í heilbrigðisþjónustu liggur víða. Það þarf að ná saman þessu fólki og þeim unglingum sem þurfa á þjónustunni að halda.

Í heilbrigðisáætlun sem samþykkt var sl. vor var miðað að því að ótímabærum þungunum meðal stúlkna nítján ára og yngri yrði fækkað um helming á því tímabili sem heilbrigðisáætlunin nær til. Ég tel að það sem lagt er til í þingsályktuninni sé markvert skref í þá átt að geta náð því takmarki.