Unglingamóttaka og getnaðarvarnir

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 15:10:59 (3849)

2002-01-31 15:10:59# 127. lþ. 67.10 fundur 317. mál: #A unglingamóttaka og getnaðarvarnir# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar þáltill. um unglingamóttöku og getnaðarvarnir og er 1. flutningsmaður hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir. Það verður að segja eins og er að það er ekki að ástæðulausu sem slík tillaga kemur fram. Það er mjög mikil þörf á því að takast á við heilbrigðisvanda sem ungt fólk stendur frammi fyrir en það einkennilega er að heilsufar ungmenna hefur gjarnan fengið litla athygli. Almennt viðhorf er að ungt fólk sé heilbrigt og þurfi ekki á sérstakri heilbrigðisþjónustu að halda. En þegar grannt er skoðað er það öðru nær, ungt fólk stendur frammi fyrir ýmsum heilbrigðisvanda sem þarf að takast á við, á þeim aldri sem við erum að tala um, þ.e. sextán til tuttugu ára. Og unga fólkið þarf stuðning til að takast á við þessi mál.

Á þessum árum fara t.d. þessir krakkar að stunda kynlíf og þá er mikil hætta á ótímabærum þungunum. Það kom fram einmitt í máli hv. þm. Katrínar Fjeldsted að tíðni ótímabærra þungana hér á landi er veruleg. Þegar ég ræddi þessi mál á sínum tíma í þinginu við hæstv. heilbrrh. taldist mér til að ein af hverjum fimm unglingsstúlkum yrði ófrísk fyrir tvítugt --- 20% ungra stúlkna verða ófrískar áður en þær verða tvítugar og þar af fer helmingurinn í fóstureyðingu. Þetta eru svo gríðarlegar tölur að maður grípur þær í rauninni ekki og það er alveg ljóst að við eigum þarna mikið verk fyrir höndum.

Síðastliðið haust mælti ég fyrir þáltill. um heilsuvernd í framhaldsskólum þar sem m.a. er lagt til því að ríkisstjórninni verði falið að skipa nefnd til að gera tillögu um hvernig skipulagðri heilsuvernd fyrir ungt fólk verði háttað. Þar geri ég m.a. ráð fyrir því að sett verði á stofn heilsuvernd innan skólanna. Það er ljóst að 90% af ungmennum eru í framhaldsskólum, 10% eru þá sem sagt ekki í framhaldsskólum. Eitt þessara úrræða er að opna móttökur í skólunum.

Hin leiðin er, eins og kemur fram í tillögu hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur sem við erum núna að fjalla um, að stofna unglingamóttökur við heilsugæsluna. Ýmsar athuganir hafa nefnilega sýnt að ungt fólk nýtir sér ekki heilbrigðisþjónustuna. Af einhverjum ástæðum finnst því óaðlaðandi að koma með vanda sinn á heilsugæslustöðvar. Nefndar hafa verið ýmsar ástæður í því sambandi, m.a. finnst því óþægilegt að ræða sín mál við heilbrigðisstarfsmenn sem taka á móti öllum aldurshópum. Og því finnst oft eins og að opnunartíminn henti ekki o.s.frv.

Fram hefur komið í könnunum sem m.a. Sóley Bender hjúkrunarfræðingur hefur gert að unglingar kjósa að fá lausn á vanda sínum á því svæði sem þeir þekkja, þar á meðal innan skólanna. Af þeirri ástæðu m.a. lagði ég fram þessa þáltill. sem er núna til umfjöllunar í heilbrn. og verður vonandi afgreidd fyrir vorið.

Seinni hluti þáltill. sem hér er til umfjöllunar snýr að getnaðarvörnum, að koma á fót tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar með ókeypis eða ódýrar getnaðarvarnir fyrir ungt fólk á aldrinum fimmtán ára til tvítugs. Ég sagði áðan að tíðni þungana unglingsstúlkna væri gríðarleg hér á landi. Það er tvisvar til þrisvar sinnum algengara að íslenskar unglingsstúlkur eigi börn en jafnöldrur þeirra á Norðurlöndum og fimm til sex sinnum algengara en t.d. í Hollandi. Hér er ein mesta tíðni fóstureyðinga í þessum aldurshópi á Norðurlöndum.

Í mörgum tilfellum er það meiri háttar áfall fyrir unga stúlku að verða ófrísk og að þurfa að stíga þau þungu skref að fara í fóstureyðingu. Helmingur þeirra stúlkna sem verða ófrískar fer í fóstureyðingu. 10% stelpna hafa upplifað þetta áður en þær verða tvítugar, að fara í fóstureyðingu. Þetta er skelfilegt.

Ein af færum leiðum til að taka á þessum vanda er að koma á sérstakri unglingamóttöku. Ég vil líka einmitt halda fram þeirri tillögu minni sem ég var með í haust, að koma á heilsugæslu innan skólanna. En það eru náttúrlega ýmsir aðrir þættir sem þarf líka að huga að, m.a. að auðvelda þarf almennt aðgengi ungra stúlkna að getnaðarvörnum, það þarf að gera þær ódýrari og þær eiga t.d. að geta haft aðgang að neyðarpillunni hjá skólahjúkrunarfræðingi sem yrði staðsettur í framhaldsskólum eða í slíkri móttöku. Það þarf að endurbæta kynfræðsluna, auka aðgengi ungmenna að ráðgjöf um kynlíf og barneignir og auka ábyrgð ungmenna í þessum málum þannig að þau umgangist kynferðismál með meiri aðgætni en þau gera greinilega í dag.

Það var t.d. mjög merkilegt að lesa í rannsókn Sóleyjar Bender að eingöngu í 60% tilvika nota ungmenni getnaðarvarnir við fyrstu kynmök. Þetta er í rauninni alveg með ólíkindum. Einhver hefur brugðist þar, einhver fræðsla hefur brugðist, hvort sem ábyrgðin liggur hjá foreldrunum, skólakerfinu eða annars staðar.

Ég hef skundað vítt og breitt um þessa tillögu og tel hana vera til bóta. Hún gengur skemur en sú tillaga sem ég lagði fram í haust en þær skarast og styðja hvor aðra þannig að ég legg til að hún verði tekin til jákvæðrar athugunar í heilbrn.