Unglingamóttaka og getnaðarvarnir

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 15:21:27 (3851)

2002-01-31 15:21:27# 127. lþ. 67.10 fundur 317. mál: #A unglingamóttaka og getnaðarvarnir# þál., Flm. GÖ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls afar málefnalegar og fínar umræður og góðar viðbætur inn í þessa umræðu.

Mig langar aðeins að gera að umtalsefni þáltill. hv. þm. Ástu Möller um heilsugæslu í framhaldsskólunum. Mig minnir að ég sé meðflutningsmaður að henni. Hún er afar nauðsynleg. Ég hef alltaf litið svo á að svona tillögur styðji hver aðra því svona móttaka nær líka til annarra hópa sem ekki eru í skólanum, þ.e. ungmenna sem ekki eru í framhaldsskóla og líka ungmenna sem treysta sér ekki í heilsugæsluna á þeim stað. Það er mjög mikilvægt að þetta haldist allt saman í hendur.

Ég vil líka minna á annað. Ef við tökum t.d. móttökuna fyrir norðan er það alveg klárlega metið svo að þeir hópar sem þangað koma mundu ekki skila sér annars. Það hefur sýnt sig að þar hafa komið inn mörg viðkvæm mál, t.d. margt ungt þunglynt fólk sem ekki hefði sýnt sig annars. Um leið og svona miðstöðvar fá jákvætt umtal meðal unga fólksins verða þær líka til þess að ungmenni koma með önnur vandamál sem ekki er síður brýnt að leysa úr.

Samanburður okkar á þungunum unglingsstúlkna hér og á Norðurlöndunum er auðvitað afar óhagstæður okkur. En á Norðurlöndunum hefur verið skorin upp herör gegn þungunum unglingsstúlkna. Það hefur verið markviss vinna til margra ára. Þar hefur t.d. neyðargetnaðarvörnin verið lengur og hún er markvisst notuð. Hún gagnast sérstaklega vel þessum yngsta hópi. Auðvitað gagnast hún líka vel þeim sem verða fyrir slysum í kynlífi sínu, bæði í hjónaböndum, utan þeirra o.s.frv. Mjög ólíku er því saman að jafna hvernig unnið hefur verið að forvarnamálum og umræðan um kynlíf og barneignir.

Við höfum alltaf verið dálítið hrædd við þessa fræðslu hér. Við höfum talið að hún gæti aukið það að ungt fólk fari að stunda kynlíf. Ég hef alltaf mótmælt þessu þar sem ég hef unnið, t.d. á kvennadeild Landspítalans. Þetta hefur orðið til þess að ungt fólk fer ekki að nota getnaðarvarnir af því að það telur sig ekki vera orðið virkt í kynlífi þó að það sé auðvitað að prófa sig áfram. Við eigum að reyna að hlífa öllum ungum stúlkum við að þurfa að ganga í gegnum þá erfiðu ákvörðun sem fóstureyðing er og allt sem í kringum það er. Það er afar erfitt og flókið ferli. Við eigum að hlífa ungum stúlkum við þeim reynsluheim, fyrr en bara síðar á ævinni o.s.frv. Við eigum að reyna að stuðla að því að það gerist sem allra seinast.

Það er líka mjög gaman að halda því aðeins til haga sem sagt hefur verið um þessa forvarnamiðstöð sem hv. þm. Þuríður Backman nefndi. Auðvitað væri mjög gaman að sjá svona verkefni þar inni. En ég minni líka á að hér í eina tíð var heil staða við Heilsuverndarstöðina í Reykjavík sem átti að sjá um kynfræðslu og taka viðtöl. Það var heil staða, alveg óháð húð- og kynsjúkdómadeildinni. Þarna var ein staða ráðgjafa sem aldrei nýttist nema örlítið. Þá var alltaf sagt, og það er ekki gaman að því, að með því að nota hana ekki þá er eins og bannað sé að vera með þessa kynfræðslu þannig að fólk utan úr bæ geti gengið inn og fengið þá ráðgjöf sem það þarf. Þangað kom talsverður hópur. En því miður var þetta lagt af. Eflaust er þó staðan til enn þá og notuð í annað. Möguleikarnir eru mjög margir.

Ef við ætlum að stuðla að fækkun fóstureyðinga verðum við að herða aksturinn í þessu samhengi. Ég veit að hæstv. heilbrrh. lítur mjög jákvæðum augum á þessa tillögu og svona tilraun vegna þess að hún stuðlar að því að markmið heilbrigðisáætlunar um 50% fækkun þungana unglingsstúlkna árið 2010 nái fram að ganga.