Átraskanir

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 15:42:48 (3853)

2002-01-31 15:42:48# 127. lþ. 67.11 fundur 337. mál: #A átraskanir# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar till. til þál. um átraskanir þar sem heilbrrh. er falið að sjá til að þverfagleg þjónusta þeirra sem hafa sérþekkingu á átröskunum verði sameinuð þannig að bjóða megi upp sérhæfða meðferð fyrir átröskunarsjúklinga á öllum aldri, eins og segir í tillögunni.

Hérna er hreyft mjög mikilvægu máli sem ég held að tími sé kominn að skoða nánar. Ég vil þakka fyrir þá ítarlegu og faglegu grg. sem fylgir þáltill., sem er mjög upplýsandi. Þegar ég horfði yfir salinn sá ég að þingmenn hlustuðu af miklum áhuga og einbeitni þegar hv. þm. flutti mál sitt. Ég var þar á meðal.

Það kemur m.a. fram í grg. að engin heildstæð meðferðarstefna er til hér á landi vegna átvandamála. Ég minni á að ekki alls fyrir löngu var til umræðu í þinginu í fyrirspurnatíma offituvandi barna sérstaklega og reyndar offituvandi yfirleitt. Það kemur fram í þeim athugunum sem gerðar hafa verið hér á landi að offituvandi er að aukast verulega. Börn eru að þyngjast og 6--8% barna eru of feit þannig að þetta er stórt mál sem þarf að skoða sérstaklega. Í umræðum í fyrirspurnatíma um daginn kallaði ég einmitt eftir sértækum úrræðum vegna of feitra barna. Þau úrræði liggja ekki alveg á lausu og það þarf virkilega að styðja við þennan hóp.

Þeir sem standa frammi fyrir lystarstoli og lotugræðgi, eins og kemur fram í grg., eru líka ungt fólk, ungar stúlkur. Það tengist þeirri umræðu sem fram fór áðan um heilbrigðisvanda ungmenna. Það er alveg ljóst að þörf er á að skoða þessi mál nánar. Mataræði Íslendinga er rangt samsett samkvæmt næringarfræðilegum stöðlum. Hlutfall sykurs í mataræði er allt of hátt, mun hærra en annars staðar á Norðurlöndum og neysla grænmetis og ávaxta er of lítil. Þessi vandamál eru fyrir hendi eins og ég sagði áðan, offita er fyrir hendi hér á landi og það þarf að skoða nánar. Auk þess bendir ýmislegt til þess að lystarstol og lotugræðgi séu stærra vandamál en við höfum kannski gert okkur grein fyrir.

Ég þakka því fyrir þessa till. til þál. Ég er meðflutningsmaður og styð hana eindregið. Þessi tillaga er ein af mörgum mjög góðum þáltill. og frv. sem liggja fyrir í þinginu á sviði heilbrigðismála. Þær eru frábærlega vel unnar margar hverjar og raunar flestallar, studdar góðum og faglegum rökum. Hér hefur farið fram góð umræða og ég hvet til að þingheimur skoði þessar tillögur og afgreiði þær því að þær leiða til mikilla framfara. Þær eru margar hverjar á sviði lýðheilsu og við viljum leggja áherslu á forvarnir til að koma í veg fyrir vanlíðan, koma í veg fyrir sjúkdóma. Þetta er ein af þeim tillögum sem virkilega mundi koma að gagni í þeim efnum. Ég vonast því til að þessi tillaga verði samþykkt.