Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 16:02:13 (3855)

2002-01-31 16:02:13# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Ég mæli fyrir till. til þál. um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Tillagan er flutt af öllum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og gerir ráð fyrir því að framtíð svæðisins verði ákvörðuð af þjóðinni allri í almennri atkvæðagreiðslu. Flutningsmenn telja óeðlilegt að ríkisstjórnin geti á einu og sama kjörtímabilinu sett fram og leitt til lykta langstærstu framkvæmdaáform sem ráðgerð hafa verið á Íslandi, áform sem hafa mundu óafturkræf áhrif á náttúru landsins á afar dýrmætu og lítt röskuðu hálendinu norðan Vatnajökuls.

Harðar deilur hafa staðið í þjóðfélaginu um Kárahnjúkavirkjun og aðrar stórvirkjanahugmyndir á þessu svæði um áratuga skeið. Hinn 1. ágúst 2001 var birtur vandaður úrskurður Skipulagsstofnunar sem lagðist gegn áformaðri Kárahnjúkavirkjun. Þeim úrskurði var snúið við af umhvrh. 20. desember 2001 og var þeirri gerð mótmælt harðlega sem pólitískri valdbeitingu sem byggði á litlu öðru en stefnu ríkisstjórnarinnar um að virkjunin skyldi rísa. Við flutningsmenn tillögunnar teljum hættu á að stjórnvöld séu í þann mund að taka verulega afdrifaríka og óafturkræfa ákvörðun sem varðar framtíð þjóðarinnar allrar án þess að upplýst hafi verið um alla þætti málsins og til þess að tryggja að ekki verði flanað að ákvörðun þvert ofan í vilja meiri hluta þjóðarinnar teljum við nauðsynlegt að leiða málið til lykta í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn tækju þátt í. Þjóðinni hefur verið falið þetta land. Hún hefur varðveitt það og annast frá ómunatíð. Henni er það kært og hún, þjóðin sjálf, er þess vegna best til þess fallin að taka ákvörðun um framtíðarnýtingu þess. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Kjósendur geti valið milli tveggja kosta:

a. Núverandi áforma um Kárahnjúkavirkjun með virkjun Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal ásamt með tilheyrandi stíflum, vatnaflutningum, veitum og öðrum tengdum framkvæmdum.

b. Frestun ákvarðana um framtíðarnýtingu svæðisins uns tekin hefur verið afstaða til verndunar þess og stofnunar þjóðgarðs með einu stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Einnig liggi þá fyrir endanleg rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvama með flokkun virkjanakosta, stefnumótun um framtíðarskipan orkumála og áætlun um orkunýtingu til lengri tíma.

Atkvæðagreiðslan fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum 25. maí 2002.

Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um atkvæðagreiðsluna í samráði við allsherjarnefnd, umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis.

Heimilt er að verja allt að 20 millj. kr. til að kynna þau meginsjónarmið sem um er kosið og verði upphæðinni skipt jafnt milli málsvara fyrrgreindra meginsjónarmiða enda sé um að ræða heildarsamtök eða samstarfsvettvang aðila sem deila sjónarmiðum í málinu. Dómsmálaráðherra setur sömuleiðis nánari reglur um þetta atriði að höfðu samráði við allsherjarnefnd Alþingis.``

Lýkur þar með tillögugreininni.

Saga virkjunaráforma norðan Vatnajökuls er átakasaga og spannar orðið þrjá áratugi. Það er ekki ætlunin að rekja hér þá atburðarás en atburðarás síðasta áratugar nægir alveg til að setja upp sögusviðið. Frá 1991 hafa komið fram tilkynningar frá stjórnvöldum um að reisa skuli álver af ýmsum stærðum og gerðum frá Keilisnesi að Reyðarfirði, afla skuli orku frá jökulánum norðan Vatnajökuls með tengdum veitum um heiðar og hraun og að auki með jarðvarmavirkjunum í Bjarnarflagi og á Kröflusvæðinu. Minnisstæð er þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun sem ríkisstjórnin þvingaði í gegnum Alþingi rétt fyrir jól 1999 og platmatið sem alþingismenn voru látnir framkvæma af því að utanrrh. taldi þá vera betur til þess fallna en skipulagsstjóra að meta umhverfisáhrif stórframkvæmda. Og ekki gleymir fólk auðveldlega upplitinu á ríkisstjórninni örfáum vikum síðar þegar hún mátti éta ofan í sig hástemmdar yfirlýsingar um nauðsyn þess að byggja Fljótsdalsvirkjun og varð að hætta við framhald framkvæmdanna og henda þáltill. nýsamþykktri.

NORAL-verkefnið, viðskiptahugmynd sem ríkisstjórnin hefur svarið að koma í framkvæmd og ekki hefur dugað minna en að undirrita í tvígang yfirlýsingar þar um, hefur verið fyrirferðarmikið í umræðunni síðustu ár. Svo kom umhverfismatsskýrsla Landsvirkjunar, ekki fór hún fram hjá neinum, þar sem mikil og óafturkræf áhrif virkjanaframkvæmda koma skýrt fram og eru viðurkennd en réttlætt með meintum efnahagslegum ávinningi. Svo kom úrskurður Skipulagsstofnunar 1. ágúst 2001 þar sem lagst er gegn áformum um Kárahnjúkavirkjun vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og taldi stofnunin að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af framkvæmdunum, meintur efnahagslegur ávinningur þar með talinn, mundi vega upp þau verulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif sem virkjuninni fylgdu. Einnig taldi Skipulagsstofnun skorta upplýsingar um einstaka þætti framkvæmdarinnar svo segja mætti fyrir um endanleg áhrif hennar.

Umhvrh. fékk til meðferðar 122 stjórnsýslukærur. Þeim er lýst í greinargerð með tillögunni og líka þeirri umdeildu ákvörðun ráðherrans að fjalla ekki um kærurnar á hefðbundinn hátt heldur efna til endurnýjaðs matsferlis á vegum ráðuneytis síns sem engin fordæmi eru um og ekki er gert ráð fyrir í lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Matsferli ráðherrans hefur fengið nafngiftina frjálst mat hjá forstjóra Landsvirkjunnar. Það er kannski vel við hæfi eftir platmatið sem alþingismenn voru látnir framkvæma á Fljótsdalsvirkjun á sínum tíma. Með úrskurði sínum 20. desember 2001 felldi umhvrh. svo úr gildi hinn kærða úrskurð Skipulagsstofnunar og féllst á Kárahnjúkavirkjun með tilteknum skilyrðum í 20 tölusettum liðum. Ekkert þessara skilyrða hróflar við meginþáttum fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda né tryggir mótvægisaðgerðir á viðhlítandi hátt gegn neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Það eru heldur engar mótvægisaðgerðir til eða hvernig á að vega upp á móti áhrifum af því að byggja eitt stærsta jarðvegsmannvirki Evrópu, 800 metra breitt og 190 metra hátt, sökkva um 40 ferkílómetrum gróins lands, flytja eitt mesta stórfljót landsins og það aurugasta, Jökulsá á Dal, milli vatnasviða og veita því yfir í Lagarfljót, skerða friðland Kringilsárrana og breyta og skaða ótal svæði sem eru á náttúruminjaskrá og bora tæpa 80 km af jarðgöngum sem skila upp á yfirborð jarðar 15 millj. rúmmetra af jarðvegi. Álíka magn af steypu mundi duga þjóðinni til allra steypuframvæmda í 50 ár. Hvernig á að tryggja að það jarðvegsrof og fok frá 50 km langri strandlínu Hálslóns sem getur haft allt upp í 75 metra vatnsborðssveiflu eyði ekki viðkvæmum gróðri Vesturöræfa? Verkfræðilegar hugmyndir um varnargarða eða sandgildrur gegn áfoks- uppblásturshættu sem trommað er upp með á elleftu stundu hrökkva skammt og þær aðgerðir einar og sér útheimta mat á umhverfisáhrifum.

Það sama má segja um ótal einstaka þætti framkvæmdanna, svo sem vegagerð, veitur, lón og efnistökusvæði. Örfá af þeim skilyrðum sem ráðherra setur eru þó til bóta, fyrst og fremst að falla frá ýmsum smáveitum í tengslum við 2. áfanga Kárahnjúkavirkjunar. Önnur eru helber sýndarmennska og í rauninni aðeins staðfesting á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum Landsvirkjunar sem lesa má um í matsskýrslu og sjá í þeirri hefð sem Landsvirkjun hefur mótað í vinnubrögðum sínum. Átta umræddra skilyrða varða eingöngu vöktun og rannsóknir og fjalla ekkert um lágmörkun umhverfisáhrifa.

Eitt skilyrði er þess efnis að um það gildir sérstök grein í lögum um náttúruvernd svo ekki er þörf fyrir ráðherrann að hreykja sér af því. Loks virðist eitt byggja á misskilningi, eða um er að kenna ókunnugleika hjá ráðherra. Þess utan er úrskurður ráðherra illa rökstuddur og útlátalítill fyrir framkvæmdaraðila. Ekki er ósennilegt að Landsvirkjun hafi sett fram áætlun um umdeildar veitur fjölda bergvatnsáa til virkjunarinnar með það fyrir augum að hafa slíkt í skiptimynt í þeim deilum sem einsýnt var að mundu upp rísa í ferli matsins. Það er harla ólíklegt að Landsvirkjun hafi ætlað sér í alvöru að fara út í þann kostnað sem fylgt hefði framkvæmdum við þessar veituframkvæmdir þegar að skoðað er hversu litlu þær mundu skipta í heildarframleiðslu virkjunarinnar. Hafi Landsvirkjun hins vegar verið full alvara með að eltast við smásprænur alveg að rótum Snæfells þá lýsir það viðhorfum til umhverfismála sem hljóta að teljast með ólíkindum nú á tímum.

Eitt af því allra ámælisverðasta við úrskurð umhvrh. er þó að hún skuli kippa réttlætingu Landsvirkjunar út úr niðurstöðunni og heimila framkvæmdina þrátt fyrir gífurleg óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif sem framkvæmdaraðili viðurkennir í matsskýrslu að af muni hljótast. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum ber að leggjast gegn framkvæmd þegar um slík gífurleg áhrif er að ræða. Það gerði Skipulagsstofnun og umhvrh. teflir á afar tæpt vað í úrskurði sínum með því að snúa þeim úrskurði við.

En hvað ætlar umhvrh. svo að gera eða ríkisstjórnin með hinn efnahagslega þátt? Það er ekki eins og umræðan um hann sé til lykta leidd eða allir á eitt sáttir í þeim efnum. Úr því umhvrh. telur sig ekki þurfa að réttlæta umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar með efnahagslegum ávinningi, ber þá að skilja það svo að sá þáttur verði ekki metinn, eða kannski að einhliða mat ríkisstjórnarinnar á honum verði látið duga, eða á kannski annað platmat að fara fram í sölum Alþingis? Eða hvað þýða ummæli umhvrh. á bls. 121 í úrskurðinum?

Fyrir dyrum standa umfangsmiklar grundvallarbreytingar á lagaumhverfi raforkumála. Þær breytingar hafa vakið miklar umræður. Meðal þess sem menn hafa deilt um eru áhrif væntanlegra breytinga á Landsvirkjun sem hefur búið við ákveðna einokunaraðstöðu á markaði auk þess sem hún nýtur skattfríðinda og ríkisábyrgða af lánum. Mjög umfangsmiklar athugasemdir hafa borist við fyrirhugaðar breytingar frá ýmsum aðilum og meðal þess sem menn velta fyrir sér eru orkusölusamningar við stóriðjufyrirtæki. Í tengslum við slíkar vangaveltur er eðlilegt að spurt sé: Er ríkisstjórnin kannski í þessum blóðspreng við að gera orkusölusamninga við stóriðjufyrirtæki vegna þess að í væntanlegu samkeppnisumhverfi fer því fjarri að orkusala til stóriðju geti átt sér stað með arðbærum hætti? Er ríkisstjórn Íslands að plata óarðbæra orkusölusamninga inn á þjóðina áður en hún opnar raforkumarkaðinn og býr til nýtt viðskiptaumhverfi fyrir hann? Ætlar ríkisstjórnin að fórna einstæðum náttúruminjum á heimsvísu fyrir orkusölusamninga sem þjóðin sjálf þarf að greiða með? Hver ætlar að svara því? Og hver ætlar að svara því hvers vegna stofnkostnaður virkjunarinnar hefur lækkað um tæpa 30 milljarða frá því að áætlanir voru kynntar í maí 2001 þar til nú að síðustu tölur í því efni voru lagðar fram? Og hver ætlar að svara mjög svo áleitnum spurningum um áætlaða arðsemiskröfu eigin fjár í Kárahnjúkavirkjun?

Þegar allt kemur til alls er ljóst að óvissuþættir um efnahagslega þætti Kárahnjúkavirkjunar, að ekki sé talað um áformaða (Forseti hringir.) álverksmiðju í Reyðarfirði, eru þvílíkir að ekki er forsvaranlegt annað en að þau mál verði tekin til vandaðrar skoðunar af fagmönnum og stofnunum og kynnt rækilega fyrir þjóðinni.

Herra forseti. Mér var tjáð að ég hefði frelsi til þess að nýta mér upp í 12 mínútur og tíminn mundi þá dragast af ræðumanni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ...

(Forseti (HBl): Það var ákveðið á fundi forseta með formönnum þingflokka að bankað yrði þegar ræðumaður hefði farið 15 sekúndur fram yfir ræðutímann.)

Þá er það minn misskilningur, herra forseti. Ég biðst velvirðingar á því. Það er annað en kom til mín í upplýsingum af þingflokksformannafundinum sem hæstv. forseti talar um.