Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 16:44:22 (3859)

2002-01-31 16:44:22# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mér finnst það hafa verið í gær sem umræðan stóð sem hæst hér í sölum Alþingis um Eyjabakkana og Fljótsdalsvirkjun. Mikið var sagt í þeirri umræðu og ýmsir umhverfissinnar í þinginu gáfu eftir af sínum kröfum til að ná sátt og mæta augljósum þörfum Austfirðinga fyrir fleiri atvinnutækifæri og stöðugleika í íbúaþróun í fjórðungnum.

Fyrsti flutningsmaður þeirrar tillögu sem hér er til umræðu, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sagði þá eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það hefur komið fram hjá okkur sem höfum talað hér í dag fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við erum með útrétta sáttarhönd. Sáttarboðið felst í því að Fljótsdalsvirkjunin fari í umhverfismat samkvæmt lögum og við komum til með að beygja okkur undir þann úrskurð sem kæmi út úr því mati.``

Þetta sagði þingmaðurinn í andsvari við þann sem hér stendur.

Nú er komið að öðrum kafla í þeirri umræðu, þ.e. um Kárahnjúkavirkjun. Hvað gerist nú þegar sú virkjun er sett í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum? Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fellst ekki á þann úrskurð sem felldur er samkvæmt lögunum. Nú er beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir samþykktu þó lögin um mat á umhverfisáhrifum 13. maí árið 2000 án þess að krafa væri um þjóðaratkvæði. Er þetta trúverðugur málflutningur, herra forseti? Mér finnst það ekki. Hér er skákað í því skjólinu að tilgangurinn helgi meðalið.

Nú er því borið við að það vanti rammaáætlun um nýtingu allrar orku í landinu en slík rammaáætlun hefur verið í vinnslu síðan 1999. Vita hv. þm. það ekki að það tók Norðmenn 15 ár að gera slíka áætlun? Við getum ekki beðið svo lengi.

Herra forseti. Fyrir þá sem í einlægni vilja umhverfisvernd með ívafi byggðasjónarmiða er nauðsynlegt að taka leppinn frá öðru auganu en vera ekki blindur á báðum. Það verður engin frekari atvinnuuppbygging sem skiptir máli fyrir landsbyggðina ef ekki má virkja fallvötnin og reisa stóriðju. Þetta er margskoðað en flestallar þær tilraunir sem gerðar hafa verið með smáiðnað hafa mistekist. Nokkur árangur hefur náðst í ferðaþjónustu en yfir mjög takmarkaðan tíma. Stöðug vinna verður ekki tryggð undir þeim kringumstæðum og á meðan sjávarútvegurinn minnkar við sig vinnuafl verður fólk að leita annað eftir vinnu.

Herra forseti. Að mati Náttúruverndar ríkisins er sú framkvæmd sem nú er fyrirhuguð með Kárahnjúkavirkjun allt önnur framkvæmd en skipulagsstjóri ríkisins úrskurðaði óásættanlega sl. sumar. Með breytingum sem síðan hafa verið ákveðnar, þ.e. að Desjarárdalur fer ekki undir vatn, breytt er áherslum við Hraunaveitu og verndun áa við Snæfell ásamt mótvægisaðgerðum vegna foks, er framkvæmdin orðin ásættanleg að mati Árna Bragasonar, framkvæmdastjóra hjá Náttúruvernd ríkisins.

Þessi framkvæmd er risavaxin og verður langorkumesta virkjun í landinu fyrr og síðar, að stærð á við þrjár Búrfellsvirkjanir og nærri fimm Blönduvirkjanir. Það sem hefur kannski ekki komið fram áður er að Kárahnjúkavirkjun er mjög hagkvæm miðað við umhverfisáhrif á hverja orkueiningu. Ef við lítum aðeins á það þá fóru 56 ferkílómetrar gróins lands undir vatn með Blönduvirkjun sem er 150 megavött að afli og 800 gígavattstundir. 40 ferkílómetrar gróins lands fara undir vatn við Kárahnjúkavirkjun sem verður um 690 megavött með 4.670 gígavattstundir. Umhverfisáhrifin eru því sex sinnum minni á hverja afleiningu með virkjun við Kárahnjúka en við Blöndu. Ef orkueiningin er notuð er munurinn enn þá meiri eða áttfaldur.

Herra forseti. Þessar tölur tala sínu máli. Ég sé ekki ástæðu til að deila frekar um þessa virkjun. Umhverfisáhrif hennar eru ásættanleg að mati Náttúruverndar ríkisins. Atvinnulífið þarf á henni að halda. Austfirðingar þurfa á henni að halda og landsmenn allir. Þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál er því óþörf.