Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 17:16:58 (3863)

2002-01-31 17:16:58# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á hverju ári allt frá árinu 1995, eða í sjö ár, hafa þingmenn Samfylkingarinnar barist fyrir því að settur verði á lögbókina réttur fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ótrúlegt áhugaleysi hefur ríkt á hv. Alþingi að tryggja þennan möguleika fólksins til að hafa bein áhrif á stór og þýðingarmikil mál sem úrslitum geta ráðið um hag þjóðarinnar og almennings, t.d. eins og í þessu mikilvæga máli sem hér er til umfjöllunar. Væri rétturinn til þjóðaratkvæðagreiðslu nú fyrir hendi, sem þingmenn Vinstri grænna hafa satt að segja ekki sýnt mikinn áhuga, gæti fimmtungur kosningabærra manna í landinu krafist þess nú að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um Kárahnjúkavirkjun og byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði. Þá væri þessi tillaga sem við ræðum hér óþörf.

Sú leið aftur á móti sem Vinstri grænir kjósa að fara í þessu efni er fyrir fram dauðadæmd því að meiri hlutinn á þingi mun nota afl sitt til að knýja í gegn framkvæmd við virkjun og álver án þjóðaratkvæðagreiðslu hvað sem líður meirihlutavilja þjóðarinnar. Þeir munu fella þessa tillögu Vinstri grænna eins og að drekka vatn komi hún yfirleitt til atkvæða í þinginu.

Stjórnarskrárbundinn réttur fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu er eina svarið við yfirgangi og valdhroka stjórnvalda þegar nauðsynlegt er að láta reyna á þjóðarvilja. Það mál sem hér er lagt til að fari í þjóðaratkvæðagreiðslu er viðamikið og skiptir gífurlega miklu fyrir þjóðarhag og náttúru landsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál á því fyllilega rétt á sér.

Stórir efnis- og formgallar eru þó á málinu eins og það er sett fram og virðist málið bera með sér einhverja innanbúðarerfiðleika og að formaður flokksins sé í reynd í nokkrum vandræðagangi og erfiðleikum með málið, enda er hann í forsæti fyrir flokkinn í því kjördæmi sem kallar mjög á þessar virkjunar- og álversframkvæmdir. Framkvæmdin og útfærslan hljóta líka að þurfa að byggja á lögum en ekki þingsályktun eins og hér er gert ráð fyrir. Í ályktuninni kemur heldur ekki fram hvort þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að vera bindandi eða ráðgefandi, hvort skilyrði séu um tilskilinn fjölda þátttakenda o.s.frv.

Það væri líka fróðlegt að heyra hvort sveitarstjórnarmenn almennt telja rétt að blanda mjög umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu um virkjunarframkvæmdir og álver inn í sveitarstjórnarkosningar sem mundu að öllum líkindum skyggja mjög á umræður um almenn sveitarstjórnarmálefni. Efnislega er tillagan líka gölluð því að enginn valkostur er fyrir þá sem vilja greiða atkvæði gegn framkvæmdunum, en samkvæmt skoðanakönnun voru 70% Vinstri grænna á móti eða frekar mótfallnir Kárahnjúkavirkjun en 25% fylgjenda Vinstri grænna voru hlynntir eða ferkar hlynntir virkjunarframkvæmdum. Þeir einir sem vilja virkjun fá skýrt val með þessari tillögu.

Ef fara á fram þjóðaratkvæðagreiðsla tel ég að fólk eigi líka að fá að greiða atkvæði um uppbyggingu þjóðgarðs sem samhliða yrði ráðist í ef ákveðið yrði að fara út í virkjunarframkvæmdir. Þær forsendur sem verða að vera klárar og liggja fyrir eru hvernig við viljum haga verndun og nýtingu landsins í framtíðinni og samspili náttúru og virkjana ef ráðast á í virkjunarframkvæmdir og uppbyggingu álvers á Austurlandi.

Við í Samfylkingunni höfum sagt eftir að úrskurður umhvrh. lá fyrir að þrátt fyrir prýðilegar mótvægisaðgerðir sem við teljum að hefti rof og áfok úr Hálslóni og þrátt fyrir að verulega sé dregið úr áhrifasvæði virkjunarinnar með því að hætta við smærri veitur umhverfis Snæfell þá verður samtímis að tryggja að þau ósnortnu víðerni og ómetanlegu náttúruperlur sem eftir eru norðan Vatnajökuls og yrðu reyndar víðfeðmust óspjölluð víðerni í Evrópu þrátt fyrir virkjun, verði áfram ósnert. Við teljum að verði virkjað sé farsælast að tryggja það með því að stofna þjóðgarð á því svæði. Það eru einfaldlega mörg dæmi um að til séu þjóðgarðar sem falla undir sama verndarstig og íslensku þjóðgarðarnir þar sem virkjunarlón eru í nándinni, jafnvel innan þeirra. Er hægt að ná sátt um slíka málamiðlun meðal þjóðarinnar?

Í þessu tilviki verður a.m.k. að liggja fyrir ákvörðun um hvernig við viljum haga náttúruvernd á hálendinu og landnýtingu á svæðinu norðan Vatnajökuls. Það er hægt að gera með ákvörðun um að setja svæðið norðan Vatnajökuls undir þjóðgarð og bæta því við þann þjóðgarð sem fyrirhugað er að stofna um jökulhettuna sjálfa og Skaftafell. Þetta svæði mundi ná vestan jökuls sunnan frá Tungnafellsjökli og Nýjadal norður fyrir Herðubreiðarfriðland og austur um Lónsöræfi. Þetta svæði eru 4.500 ferkílómetrar. Þar yrðu margar af helstu náttúruperlum landsins. Ég nefni bara Öskju, Herðubreið, Kverkfjöll, Snæfell og Vesturöræfi auk Lónsöræfa. Slíkur þjóðgarður mundi líka tryggja að ekki yrði ráðist á Jökulsá á Fjöllum sem er mikils virði að mínu mati og flestra annarra.

Ég tel reyndar líka að skoða eigi hvort rétt sé að teygja slíkan þjóðgarð suður fyrir Vatnajökul til Lakagíga að vestan því heimamenn á Klaustri hafa greinilega áhuga á því. Sömuleiðis þyrfti í framtíð að skoða hvort slíkur þjóðgarður gæti ekki teygt sig að austan suður um jökulinn því að á Höfn í Hornafirði er vilji fyrir slíku. Með þessu yrði stigið afar þýðingarmikið skref í stofnun verndarsvæða mikilvægra náttúruperlna sem tryggði sjálfbæra þróun og verndun sérstaks landslags og lífríkis sem verndað yrði til frambúðar fyrir komandi kynslóðir. Með þessum þjóðgarði væri verið að opna landsmönnum nýja sýn á landið með nýjum möguleikum til útivistar og bættum vegasamgöngum og ljóst líka að þjóðgarður þar sem saman fara eldfjöll, jöklar og ægifagrar náttúruperlur mun gera Ísland sérstakt á alþjóðavettvangi sem ferðamannaland.

Með slíkri ákvörðun er ekki bara verið að vernda gífurleg náttúruverðmæti og lífríki á stórum hluta landsins heldur er einnig verið að stuðla að afar jákvæðri byggðastefnu og atvinnumöguleikum tengdum ferðaþjónustu og menningarstarfsemi. Þjóðgarðurinn tæki þá til tveggja kjördæma. Alla stefnumótun og uppbyggingu þjóðgarðsins ætti að vinna í samráði við heimamenn og ferðþjónustu, en átta sveitarfélög mundu liggja að þjóðgarðinum. Nokkur hundruð störf sköpuðust við slíkan þjóðgarð sem ætla má að verði ekki síst kvennastörf. Þjóðgarður yrði því veruleg lyftistöng fyrir atvinnuuppbyggingu í mörgum sveitarfélögum sem liggja að honum.

Hvort sem farið verður í virkjun við Kárahnjúka eða ekki á að ráðast í stofnun þjóðgarðs. Mótvægisaðgerðir sem nú eru áformaðar og hæstv. umhvrh. hefur nú úrskurðað um að ráðast eigi, í verði virkjunin að veruleika, ber vissulega að fagna. Sá meinlegi galli varð þó þar á allri framkvæmd að í raun var um nýtt umhverfismat að ræða sem Skipulagsstofnun en ekki umhvrh. hefði átt að hafa lokaorð um hvort stæðist umhverfismat. Í þessu efni eru lögin um umhverfismat greinilega mjög óskýr og það er vissulega stór galli á lögum um umhverfismat og kallar á tafarlausa endurskoðun á þeim lögum.

Þrátt fyrir allviðamiklar mótvægisaðgerðir í umhverfismálum verður enn þungbær fórnarkostnaður og umhverfisspjöll vegna þessarar virkjunar. Ég er því sannfærð um að það hefði verulega jákvæð áhrif ef ríkisstjórnin lýsti yfir að ef ráðist yrði í virkjunarframkvæmdir yrði jafnhliða farið í stofnun þessa þjóðgarðs sem ég tel að að verulegu leyti eigi að kosta af Landsvirkjun á kostnað arðseminnar en ekki orkuverðs til almenningsveitna.

Þegar metinn er mikill fórnarkostnaður af Kárahnjúkavirkjun hlýtur þrennt að vega þungt við ákvarðanatöku um málið í heild sinni og sem þarf að liggja fyrir áður en málið gengi undir atkvæði eins og hér er lagt til. Í fyrsta lagi hvernig eigi að haga landnýtingu norðan Vatnajökuls ef ráðist verði í virkjun. Hægt er að færa sterk rök fyrir því að besti kosturinn yrði stofnun þjóðgarðs um það svæði sem ég nefndi áðan. Hann ætti að verulegu leyti að vera kostaður af Landsvirkjun og skipulagður í samvinnu við heimamenn og ferðþjónustuna.

Í öðru lagi verður að liggja fyrir hver eignarhlutur Norsk Hydro og annarra fjárfesta í þessari framkvæmd verði.

Í þriðja lagi þarf að liggja fyrir að af þessum framkvæmdum verði skýr og ótvíræður efnahagslegur ávinningur. Því verða m.a. mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum að liggja fyrir því aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í því efni mun auka verðbólgu og koma í veg fyrir að hægt verði að lækka vexti og vernda kaupmátt á næstu árum.

Að öllu því samanlögðu sem ég hef lýst vantar faglegar forsendur fyrir því að þjóðin geti tekið afstöðu til málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu auk þess sem valkostirnir í þessari tillögu eru alls ekki skýrir eða fullnægjandi eins og formaður Samfylkingarinnar hefur bent á í þessari umræðu.

Það stendur upp á ríkisstjórnina að svara þar brennandi spurningum um til hvaða efnahagslegra mótvægisaðgerða hún sé tilbúin að grípa og hvort þjóðgarðshugmyndin hafi stuðning hennar. Loks hefur tillagan þá efnis- og formgalla sem ég hef hér lýst og þyrfti því að gera grundvallarbreytingar á henni í meðferð þingsins á málinu, ekki síst þyrfti að opna valkost fyrir þá sem eru á móti þessari virkjunarframkvæmd þannig að lýðræðinu yrði fullur sómi sýndur.