Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 17:53:25 (3871)

2002-01-31 17:53:25# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Nú hefur virkjunarmálið við Kárahnjúka gengið lögformlega leið en eins og fram hefur komið voru mikil átök um virkjun við Eyjabakka og þau átök voru rekin undir formerkinu að þær framkvæmdir ættu að fara í lögformlegt umhverfismat. Auðvitað var sú barátta rekin vegna þess að þeir sem hana ráku vildu ekki virkja norðan Vatnajökuls og það hefur komið í ljós. Sú tillaga sem hér um ræðir er sett fram til að drepa málinu á dreif, tefja það, vegna þess að flutningsmenn tillögunnar vilja ekki virkja norðan Vatnajökuls, vilja taka það landsvæði frá og ekki nýta orkuna sem fyrirfinnst í þessum landshluta.

Ég er andvígur þessari tillögu enda er hún óskýr eins og hefur verið rakið. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þá umræðu en tek undir það sem m.a. hæstv. umhvrh. sagði um það efni.

Ég hef haldið því fram varðandi virkjunarmálið við Kárahnjúka og álverksmiðjuna á Reyðarfirði að þetta sé landsmál. Það er þáttur í því hvort við getum aukið þjóðarframleiðslu okkar á næsta áratug. Það er einn þáttur í því, einn veigamesti þátturinn, hvort við getum aukið það sem er til skiptanna og hvort við getum staðið undir velferðarkerfi okkar í landinu. Þetta er einn veigamesti þátturinn í því.

Þetta er auðvitað mjög stórt byggðamál, og byggðaþátturinn í því er bónus á efnahagsþáttinn í þessu máli. Með því að nýta ekki orkuna norðan Vatnajökuls er í rauninni verið að segja að framkvæmdir við virkjanir og framkvæmdir við álver eigi allar að fara fram hér á suðvesturhorninu og í nágrenni. Ég hef ekki orðið var við viðlíka umræðu um virkjunarmál hér á þessu svæði, og þjóðaratkvæðagreiðslan snýst ekki um það. Hún snýst bara um virkjunarmál á Austurlandi.

Þetta er í rauninni ákvörðun um það að norðausturhluti landsins eigi að vera afskiptur í þessum efnum, ekki eigi að nýta orkuna þar í stærri stíl og að þau efnahagslegu umsvif sem fylgja álframleiðslu eigi að vera hér. Þetta er einkennilegur málflutningur hjá vinstri grænum sem hafa, eins og margoft hefur komið fram hér, deilt mjög á stjórnvöld fyrir að reka ekki nógu öfluga byggðastefnu. Þarna er með öllum ráðum verið að reyna að drepa á dreif og koma í veg fyrir arðsama framkvæmd í byggðum landsins og í byggð sem á í vök að verjast á ýmsum sviðum þó að þar séu miklir möguleikar. Það er einmitt þetta sem ég vil leggja áherslu á --- að talað er um álver eða eitthvað annað. Það er talað um álver eins og það útiloki ferðaþjónustu. Það er talað um virkjanir og álver eins og það útiloki þjóðgarð. Þetta á ekki að útiloka hvað annað. Það á ekki að tala um þetta með þeirri nauðhyggju sem þáltill. sýnir. Það er t.d. verið að tefla atvinnuvegum á Austurlandi hverjum gegn öðrum, að álver dragi úr sjávarútvegi, það útiloki ferðaþjónustu o.s.frv. Þessi starfsemi á Austurlandi mun efla þjónustustarfsemi í landshlutanum. Hún mun efla aðrar atvinnugreinar.

Þær framkvæmdir sem verið hafa á hálendinu við virkjunarrannsóknir hafa eflt ferðaþjónustu á Austurlandi. Þær hafa eflt ferðaþjónustu á hálendinu, eru í rauninni forsenda hennar, og munu auðvitað gera það í framtíðinni. Rannsóknar- og virkjunarvegir sem lagðir hafa verið um hálendið eru forsenda þess að ferðaþjónustan eflist og dafni á Austurlandi. Hugmyndir um þjóðgarð þurfa alls ekki að rekast á við virkjunarmál.

Varðandi úrskurð umhvrh. sem hefur verið til umræðu hér --- mér finnst sá úrskurður mjög góður og mér finnst hann koma mjög til móts við sjónarmið umhverfissinna. Þá á ég við það að losna við veiturnar við Snæfell. Það er rökrétt framhald af því að hætta við að virkja við Eyjabakka. Það gerir það að verkum að Snæfellssvæðið helst þá tiltölulega ósnortið. Og ég er feginn því að losna við þessar veitur. Mér finnst mjög til bóta að svo sé. Og mér finnst að fagna eigi því en ekki tala um að þetta séu einhverjir lækir sem Landsvirkjun hafi fundið upp á að teikna þarna. Mikil áhersla var lögð á það þegar Eyjabakkamálið var til umræðu að losna við veiturnar þarna. Það var eitt af aðalumræðuefnunum í þeim deilum. En nú finnst mér eins og það sé einskis virði að þessi úrskurður hafi verið felldur, þær miklu úrbætur fyrir náttúruvernd sem hann felur í sér.

Ég sé að ég er búinn með tíma minn. Ég vildi leggja örfá atriði inn í umræðuna en ég er algjörlega andvígur þessari tillögu sem hér er lögð fram.