Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:01:43 (3872)

2002-01-31 18:01:43# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir þarf ekki að koma neinum á óvart. Tilgangur hennar er auðvitað sá að drepa á dreif umræðunni um Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði og reyna að tefja málið með einhverjum hætti, auðvitað með þá veiku von í brjósti að hægt verði að koma í veg fyrir að hugmyndir um stóriðju nái fram að ganga fyrir norðan. Mér er ekki alveg ljóst hvað hér er átt við með framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls, en ætli það verði ekki að reikna með því að það taki til Skjálfandafljóts ef maður horfir til upptaka þeirrar ár sem á upptök sín í Bárðarbungu. Þá liggur það alveg ljóst fyrir að í raun er verið að tala um að ekki skuli virkjað á þessu svæði, frá Eyjafirði og austur um. Það drepur auðvitað niður allar hugmyndir sem uppi hafa verið um að orkufrekur iðnaður geti risið á þessu svæði í fyrirsjáanlegri framtíð, ef slíkur dráttur yrði á málinu.

Í annan stað er athyglisvert að flutningsmenn skuli tala um að atkvæðagreiðslan skuli fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum 25. maí 2002. Eins og hv. 5. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, vék að áðan er þessi dagsetning auðvitað sett í trausti þess og í vissu þess að ekki reyni á hana. Auðvitað mundu sveitarstjórnarmenn ekki una því né fallast á að þjóðaratkvæðagreiðsla af þessu tagi og umræður af þessu tagi færu fram samtímis aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Þó á hinn bóginn hafi stöku sinnum komið fyrir að menn hafi kosið um brennivín á þeim sama degi er það auðvitað allt önnur Ella og miklu viðurhlutaminna mál og skapar alls ekki fordæmi fyrir tillögu af þessu tagi. Einmitt þessi dagsetning sýnir með vissum hætti það alvöruleysi sem er bak við þessa tillögu. Ef maður tryði því að alvara væri á bak við þessa dagsetningu, sem ég raunar ekki geri, hlýt ég að segja að virðingarleysið fyrir sveitarstjórnarmönnum er ótrúlegt eins og það birtist í tillögunni.

Ýmsir alþingismenn hafa vikið að því að á Austurlandi gera menn sér vonir um að hægt verði að standa við þau áform sem nú eru uppi um það hvenær byrjað skuli á Kárahnjúkavirkjun og ráðist í álver við Reyðarfjörð. Og það sem er athyglisvert við þessa umræðu nú, ef við berum hana saman við sambærilegar umræður á níunda áratugnum, er að fyrirtæki niður á fjörðum kvíða síður en svo fyrir þeirri samkeppni sem kemur frá álverinu. Þvert á móti telja forráðamenn fyrirtækjanna að álverið muni treysta atvinnumarkaðinn niður á fjörðum og vera líklegt líka til þess að styrkja stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þetta er alveg gagnstætt því sem áður var, en er lærdómsríkt og mjög til umhugsunar og sýnir að reynslunni ríkari horfa Íslendingar öðruvísi til stóriðjufyrirtækja nú en þeir gerðu þegar ráðist var í álverið í Straumsvík á sínum tíma, Járnblendiverksmiðjan var reist við Hvalfjörð og álver hefur risið þar síðan. Menn gera sér grein fyrir að svo öflugt fyrirtæki er mikill styrkur fyrir byggðarlagið og hefur margvísleg góð áhrif, líka inn á önnur fyrirtæki með þeim samanburði sem hlýtur að verða milli launamanna um aðbúnað og annað sem þá varðar. Líka vegna þess að í kringum slíkt álver skapast skilyrði fyrir margvíslega aðra þjónustu, lítil fyrirtæki. Fólk sem hefur farið suður eða jafnvel til annarra landa til að leita sér menntunar fær nú á nýjan leik möguleika til að setjast að í heimabyggð sinni. Þetta mun þegar fram í sækir skapa forsendur fyrir því að hægt verður að styrkja framhaldsskólanám á Austurlandi og þann vísi sem þar er nú að háskóla.

Eitt sem maður sér fyrir sér undir eins er að í tengslum við þessa virkjun og í framhaldi af henni munu skapast forsendur fyrir því að efla náttúrurannsóknir á Austurlandi og taka slíkar rannsóknir heim í hérað, ekki sækja rannsóknarmennina suður, heldur muni þeir búa á Austurlandi.

Ég hef oft lagt ríka áherslu á hversu mikilvægt það sé fyrir landsbyggðina að háskólamenntað fólk hafi tök á að setjast þar að. Ég hef t.d. tekið dæmi af því að á sínum tíma var stofnuð náttúrurannsóknastöð við Mývatn til þess einmitt að skapa skilyrði fyrir því að þar gæti náttúrufræðingur sest að og haft yfirumsjón með þeim rannsóknum sem þar yrðu. Nú var skýrt frá því á Alþingi í vor að starfsmaður náttúrurannsóknastöðvarinnar, forstöðumaður hennar, hefði flutt í Mývatnssveit og búi þar nú. Ég er auðvitað mjög glaður yfir því og má segja að það sé mér til skammar að ég skuli ekki hafa komið við í náttúrurannsóknastöðinni síðast þegar ég var þar á ferðinni og heilsað upp á hann. Þannig er sem sagt komið að þessi þrotlausa barátta hefur borið árangur eftir þeim upplýsingum sem ég hef héðan og með sama hætti þykist ég vita að hægt verður að efla rannsóknastörf, skólastarf og margvíslega aðra þjónustu eftir að álverið hefur tekið til starfa.

Herra forseti. Ég vil að síðustu aðeins taka fram að ég gerði litla tilraun til að ræða landbúnaðarmál þegar byggðamálin voru hér til umræðu að frumkvæði Vinstri grænna, en þingmenn Vinstri grænna fengust ekki til að taka þátt í því. Það virðist vera svo, ef reynt er að fá þá til að tala um atvinnumál í einstökum greinum, að þá vefjist þeim tunga um tönn því stundum er best að hafa ekki sagt neitt sem fast er í hendi.