Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:13:56 (3875)

2002-01-31 18:13:56# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í vinsemd benda hv. þm. á að það gefst t.d. ágætt tækifæri til að ræða um fjölmörg mál á sviði atvinnu- og byggðamála þegar á dagskrá koma margar tillögur sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur einmitt flutt í þeim efnum. Ég verð að vísu æ meira var við það að stjórnarliðum líður illa undir umræðum um þá tillögu okkar að Alþingi komi saman til að fjalla sérstaklega um byggðamál, ósköp einfaldlega vegna þess að það er almenn tilfinning fólks í landinu að þar sé á ferðinni viðfangsefni af því tagi sem væri einmitt tilvalið að Alþingi léti sérstaklega til sín taka.

Eitt af því undarlega við þetta stóriðjumál er náttúrlega tilraun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, með hörmulegan feril á bakinu í byggðamálum, að kaupa sér fjarvistarsönnun með einni verksmiðju, kaupa sér fjarvistarsönnum frá sínum ömurlega ferli í byggðamálum þar sem fólkið hefur streymt af landsbyggðinni þúsundum saman á hverju ári þau tíu ár sem Davíð Oddsson hefur verið við völd. Því á að ýta öllu út af borðinu og láta sem það sé allt saman gleymt og grafið af því að ríkisstjórnin ætlar að koma með eina verksmiðju á einn stað á landinu. Þannig er málflutningurinn og hann er með miklum endemum.

Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að ráðist menn í framkvæmdirnar, í virkjunina, þá er það óafturkræft. Og það eru m.a. alveg sérstök rök fyrir því að leggja málið fyrir þjóðina eins og við erum hér að leggja til þannig að hún geti ákveðið hvort eigi að ráðast í þessar óafturkræfu breytingar á náttúru landsins eða staldra við og gera það ekki, athuga aðra kosti o.s.frv. Ég þakka því hv. þm. fyrir þau rök sem hann hefur hér flutt fyrir því að þetta sé skynsamleg tillaga. Síðar meir getum við rætt um það hvort við séum stolt af öllum þeim hlutum sem við höfum gert í náttúru Íslands og þarf lengri tíma til.