Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:18:11 (3877)

2002-01-31 18:18:11# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að umræðan sé komin nokkuð út um víðan völl. Ég vil segja að það er fagnaðarefni að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu sé komin fram um virkjunaráform við Kárahnjúka. Mér er málið örlítið skylt vegna þess að ég var svo djarfur að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tæpu ári, í pistli um þetta mál á Skjá einum, um það leyti sem fór að sjást svolítið í fyrirætlanir um þessar framkvæmdir. Það var þá skoðun mín að ef ofurvirkjunin kæmist í gegnum gallaðan feril umhverfismats og hlyti að lokum samþykki framkvæmdarvaldsins væri beinlínis skylda löggjafans að sjá svo til að þeir Íslendingar sem nú eru vörslumenn auðlinda og náttúruauðlinda í þessu landi fengju að vega rök og mótrök, meta fórnir og ávinning og ákveða í sameiningu viðunandi mörk á umhverfisspjöllum í slíkri atkvæðagreiðslu. Ég er enn þessarar skoðunar.

Þegar tillaga Vinstri grænna er lesin betur koma hins vegar í ljós alvarlegir gallar. Sá mesti er auðvitað að það er ætlun flutningsmanna að annars vegar sé hægt að greiða atkvæði með virkjun en hins vegar um eins konar frestun. Við atkvæðagreiðslu þar sem þjóðin er kölluð til verður spurningin að vera skýr og lýsa vel þeim kostum sem í boði eru. Það er vissulega skynsamlegt að bíða með ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun eftir þeim áætlunum, athugunum og stefnusamþykktum sem getið er um í frv. Hins vegar er slæm hugmynd að greiða atkvæði um slíkan frest í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í slíkri atkvæðagreiðslu er ekki annað við hæfi en að spyrja einfaldlega um hug manna til virkjunaráformanna.

Nú kann að vera að hér hafi verið gerð einföld mistök, ef svo væri mætti sjálfsagt umbera þau en því verður þó varla trúað. Þess vegna vakna því miður spurningar um raunverulegan pólitískan vilja flutningsmanna í málinu um það að þessi tillaga sé e.t.v. ekki flutt til þess einkum að hljóta stuðning hjá þingi eða þjóð heldur fremur til að bæta áróðursstöðu þeirra sem að baki standa. Eða hvað? Eru hv. flutningsmenn eftir allt saman sáttir við Kárahnjúkavirkjun bara ef hún er sett upp á réttum stað í rammaáætlun? Bara ef hún er nefnd í stefnumótun um framtíðarskipan orkumála? Er Kárahnjúkavirkjun þá í lagi? Auðvitað er auðvelt að taka undir að þessi gögn þurfi að liggja fyrir, t.d. eru fleiri kostir til að virkja, m.a. vegna þess að fleiri kostir eru til stóriðju.

Ég er ekki á móti virkjunum. Ég tel að stóriðja sé eðlilegur þáttur í íslensku atvinnulífi. En er nóg að gögnin liggi fyrir? Hver útbýr þessi gögn? Hvaða pólitísku oddvitar stjórna þessu ferli? Hvaða þingmeirihluti lagar þessa rammaáætlun að sínu höfði og mótar stefnuna um orkumál og nýtingu? Ef Íslendingar samþykktu frestun á atkvæðagreiðslunni, hvað þá? Meiri hluti Framsfl. og Sjálfstfl. í þinginu og í Stjórnarráðinu lætur skrifa rammaáætlun um mótun stefnu til lengri tíma. Á þá að hafa aðra þjóðaratkvæðagreiðslu?

Auðvitað eru hv. flutningsmenn ekki þau börn að ætla þetta. Því vakna spurningar um pólitískan hentugleika, um það hvort menn eru að reyna að sleppa billega. Kannski þannig að hægt sé að segja aðeins annað í nýja Norðausturkjördæminu en sagt verður í Reykjavík. Þessu þurfa flutningsmenn að svara skýrt hér í ræðustólnum.

Virðulegi forseti. Ég get ekki greitt þessari tillögu atkvæði mitt í núverandi formi vegna þess að í hana vantar þann sjálfsagða kost fyrir verulegan hluta þjóðarinnar, að leggjast gegn þessari jörmunvirkjun í ljósi þeirra upplýsinga sem þegar eru framreiddar í málinu, hvað sem líður ferli, mati og rysjóttum gangi í stjórnkerfinu. Og hverjar eru þær upplýsingar í ákaflega stuttu máli? Um er að ræða ofurframkvæmd sem hefur varanleg og að mestu óafturkræf áhrif á svæði sem telja verður að mestu ósnortna náttúru, ,,vængjaða auðn`` með orðum skáldsins. Þessi virkjun yrði mesta einstök framkvæmd á Íslandi frá upphafi vega. Það er viðurkennt af hálfu Landsvirkjunar að í þetta verður ekki ráðist nema með svo miklu umhverfisraski að þvílíkt hefur aldrei áður þekkst á landinu. Mestu framkvæmd Íslandssögunnar fylgja mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar. Virkjunin hefur í síðustu útgáfu sinni bein áhrif á um 2.600 ferkílómetra landsvæði frá jökli til stranda, rúm 2,5% af flatarmáli alls Íslands. Það á að taka mestu jökulá á Íslandi úr farvegi sínum og flytja hana austur í Lagarfljót. Slíkur flutningur er áður ókunnur hér en þekkist frá Síberíu á sovéttímanum. Í Hafrahvammagljúfri á að reisa 189 m háan vegg til að mynda virkjunarlón. Hæðin er á við tvær og hálfa Hallgrímskirkju. Virkjunarlónið verður um 60 ferkílómetrar, sem er svipað og allur Hvalfjörður. Hann lækkar og hækkar við flóð og fjöru sem nemur þremur til fjórum metrum þegar mest er en sveiflan í Hálslóni yrði hins vegar 70 m. Þetta jafngildir því að Hvalfjörðurinn tæmdist síðla vetrar á hverju ári. Jökuláin ber fram aur og annan farveg, tíu milljón tonn árlega, sem safnast nú fyrir í lóninu. Aurinn úr Jöklu fyllir reyndar Hálslón á fjórum öldum. Ekkert hefur heyrst frá Landsvirkjun, ekki heldur frá hæstv. umhvrh. um afdrif þessa lóns í framtíðinni. Það virðist ekki koma þeim við hvernig þessum landshluta á að skila í hendur næstu og þarnæstu kynslóða.

Ég spurði Sigurð Arnalds, hinn virta sérfræðing sem vann að umhverfismatinu fyrir Landsvirkjun, um þetta mál á fræðslufundi. Hann upplýsti að ekkert hefði verið fyrir þessu hugsað, þar sem líftími álvers væri ekki metinn nema 60--80 ár og umhverfismatið næði einfaldlega ekki fram yfir það líf. Það að Hálslón breytist í aurdrullu eftir að álverið er búið og frá er bara vandamál fyrir þá Íslendinga sem þá kynnu að vera á dögum.

Virðulegi forseti. Þessar staðreyndir einar og sjálfar gera að verkum að verulegur hluti landsmanna er reiðubúinn til að taka efnislega afstöðu til virkjunarinnar núna. Við bætist að um er að ræða slíka fjárfestingu að ekki er að leita í Íslandssögunni eftir fordæmi. Virkjunin á að kosta í kringum 100 milljarða króna. Það er svipuð fjárfesting og liggur í öllum öðrum virkjunum Landsvirkjunar, sem þar með eru allar settar að veði fyrir nýja láninu. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins fer við þetta niður um 20%. Þegar er ljóst að það eru hinir opinberu eigendur Landsvirkjunar sem gangast í ábyrgð fyrir láninu, þvert á það sem lýst var yfir í upphafi þegar erlendir fjárfestar áttu að taka þátt í framkvæmdinni.

Markaðsöflin yppa öxlum, enda deila virtir hagfræðingar enn um hvort virkjunin yrði arðbær og er sú deila engan veginn útkljáð. Ég ætla ekki að rekja hana en það er merkilegt í þessu ljósi að í erindi sem Stefán Pétursson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, flutti í haust á orkuþingi, kom fram að hlutafélagavæðing sé nær ómöguleg þegar virkja á fyrir stóriðju. Glæra nr. 15, fyrir þá sem vilja leita á netinu. Þetta þýðir að arðsemin er svo tæp að virkjunarfyrirtækið verður að hafa ríkisábyrgð á þeim lánum sem tekin eru. Einkafyrirtæki dugar ekki. Þarna sýnir Landsvirkjun lofsvert raunsæi en það nær ekki til forsvarsmanna þessa máls hér á þinginu.

Um er að ræða orkuver sem ekki er reist til almannanota heldur á að þjóna einni verksmiðju. Það er fullyrt að þessi verksmiðja verði arðbær, þó sjást engir erlendir fjárfestar í röðum með peningana sína og þess vegna á að tala við innlenda peningamenn. Að vísu ekki þá peningamenn sem eiga sjálfir peningana sína heldur þá sem fara með annarra fé, forsvarsmenn lífeyrissjóðanna. Það er sérkennilegt að meðan hinir íslensku peningamenn sem eiga peningana sína standa hjá og fjárfesta annars staðar er launafólki í Reykjavík og á Akureyri ætlað að taka á sig þrefalda ábyrgð á þessum framkvæmdum á Austurlandi, þeir ábyrgjast lán Landsvirkjunar sem borgarar íslenska lýðveldisins, þeir ábyrgjast það í annað sinn með aðild sinni að sveitarsjóðum í Reykjavík og á Akureyri og þeir hætta að auki lífeyrisfé sínu.

Svarti-Pétur í þessum stokki, virðulegi forseti, er svo byggðaþátturinn. Miklir skynsemdamenn segja að hægt sé að sættast á öll hin óafturkræfu umhverfisáhrif og alla hina miklu óvissu um arðsemina vegna þess að Austurland þurfi innspýtingu. Sú innspýting verður veruleg á framkvæmdatímanum en jafnframt er sagt að Austfirðingum fjölgi ekki nema um 2.000 manns á tíu árum. Það eru jafnmargir og þaðan hafa farið síðustu tíu ár. Víst er nokkuð unnið við þetta. En hvað svo? Önnur virkjun? Einhver önnur sprauta til að halda uppi þessari sömu tölu Austfirðinga, sem hvaða náttúrulögmál hefur sagt til um?

Þessi framkvæmd er að umfangi og mikilvægi þess eðlis, virðulegi forseti, að það er óeðlilegt að ráðast í hana nema með eindregnum þjóðarvilja. Þess vegna skil ég þá meginhugsun sem liggur á bak við frv. en get ekki stutt frv. sjálft vegna þess að flutningsmenn hafa kosið að leyfa ekki okkur, gagnrýnendum þessara framkvæmda, að láta sannfæringu okkar í ljós í atkvæðagreiðslunni.