Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:26:39 (3878)

2002-01-31 18:26:39# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður vísaði í máli sínu til Sovétríkjanna. Reyndar komu mér Sovétríkin í hug þegar ég hlýddi á mál hv. þm. Halldórs Blöndals. Því þegar Sovétmenn skipulögðu efnahagslífið, þá horfðu þeir mjög til framleiðslunnar og framleiðslugetunnar, möguleika til að flytja út vöruna og þar fram eftir götunum. Menn hirtu minna um tilkostnaðinn. Menn hugðu síður að þeim valkostum sem í boði voru. Menn festu sig í því fari á stalínstímanum, eins og kunnugt er, þegar setja átti heilu byggðarlögin inn í stórar traktorsverksmiðjur. Þannig skyldu lausnirnar fundnar. Þetta minnir svolítið á íslensk stjórnvöld nú um stundir.

Við leggjum til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun. Spyrjum fyrst: Hvers vegna yfirleitt efna til þjóðaratkvæðagreiðslu? Þeirri skoðun hefur vaxið fylgi, og við erum mjög þess sinnis sem stöndum að þessari tillögu, að þegar um er að ræða mjög afdrifaríkar ákvarðanir sem eru afgerandi um langa framtíð og jafnframt mjög umdeildar þá sé í anda lýðræðis að gefa þjóðinni færi á að kjósa beint og milliliðalaust um málið.

Í þessu máli er afstaða stuðningsmanna einstakra stjórnmálaflokka, þá ekki síst stjórnarflokkanna, skipt. Þegar um þverpólitíska skörun er að ræða þykir okkur það ýta undir að fólki verði gert kleift að kjósa beint og milliliðalaust um málið. Enn ein rökin sem mæla með þjóðaratkvæðagreiðslu um mikil deilu- og álitamál eru þau að sú umræða sem slík atkvæðagreiðsla kallar fram er líkleg til að varpa ljósi á málefnið, í stað þess að valdhafar fari sínu fram, komist jafnvel upp með að hirða ekki um að svara gagnrýni og upplýsa staðreyndir málsins heldur valti yfir alla andspyrnu. Hið gagnstæða yrði uppi á teningnum í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, þá yrðu málsaðilar, einnig ríkisstjórnin, að sannfæra þjóðina um að málstaður hennar sé trúverðugur.

Ef menn trúa á eigin málstað og óttast þar af leiðandi ekki umræðu um hann þá fæ ég ekki skilið að þeir leggist gegn því að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu. Það dugar ekki að bjóða íslensku þjóðinni upp á þann málflutning sem við höfum orðið vitni að í dag, að hún hafi ekki burði, ekki andlega burði til að komast til botns í þessu máli.

Við sáum einn hv. þm. Framsfl. halda því fram í blaðaviðtali að þjóðin ætti ekki erindi upp á dekk í þessu máli. Er verið að kalla til alþingi götunnar, spurði hann með þjósti. Hvert eru menn eiginlega komnir í málflutningi af þessu tagi? Þetta snýst um þjóðaratkvæðagreiðslu, þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu álitamál sem uppi eru. En er þetta slíkt mál?

[18:30]

Ég held að enginn geti borið brigður á að svo sé, ef menn á annað borð vilja vera sanngjarnir. Í fyrsta lagi er um að ræða slíka röskun á náttúrufari af mannavöldum að ekki eru dæmi um slíkt í sögu landsins. Og það sem meira er að hér er um óafturkræf náttúruspjöll að ræða.

Nú er það svo að aðrir valkostir bjóðast við að nýta svæðið sem yrði virkjuninni að bráð. Lagt hefur verið til að stofnaður verði þjóðgarður og telja málsvarar þeirrar hugmyndar sig geta sýnt fram á að heppilegra og skynsamlegra sé, ekki aðeins vegna umhverfissjónarmiða heldur einnig í efnahagslegu tilliti bæði til skamms og langs tíma litið, að fara þá leið fremur en að ráðast í þessar stórframkvæmdir.

Mjög margt fólk heldur þessu sjónarmiði fram. Ég spyr: Er ekki rétt að gefa því tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og tefla síðan mismunandi valkostum fram um nýtingu svæðisins í lýðræðislegri umræðu? Við megum ekki gleyma því að við erum ekki að tjalda til einnar nætur. Við ætlum okkur, eða öllu heldur við ætlum afkomendum okkar að vera hér um ókomin ár. Þá má spyrja hvort við höfum rétt á því að ráðast í þessar stórfelldu breytingar á landinu og hvort það er ekki lágmarkskrafa að slíkt verði þá gert að mjög yfirveguðu máli og aðeins eftir að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst sig samþykkan slíku.

Jafnvel þegar minni háttar breytingar eru gerðar á stjórnarskrá Íslands þarf til tvennar alþingiskosningar. Það er til að koma í veg fyrir að menn rasi um ráð fram og láti tilfinningar og skammtímahagsmuni hlaupa með sig í gönur.

Hér er að okkar dómi um svo mikilvægt mál að ræða að eðlilegt er að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér hefur verið sýnt fram á í umræðunni af hálfu talsmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að gagnstætt því sem talsmenn ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna hafa haldið fram, þá er um að ræða óafturkræf náttúruspjöll. Þetta á ekki að afgreiða með einfaldri atkvæðagreiðslu á Alþingi. Við erum að fara fram á það að Alþingi taki á þessu máli af yfirvegun og sanngirni.

Náttúruraskið og náttúruspjöllin eru náttúrlega meginmálið vegna þess að þau eru óafturkræf. Hvað um hinn efnahagslega þátt? Við skulum ekki gleyma því í því samhengi að flestir fylgismenn þessara áforma viðurkenna að hér verði veruleg náttúruspjöll. En hinn efnahagslegi ávinningur sé hins vegar svo mikill að hann réttlæti slíkar framkvæmdir. Þetta held ég að sé alrangt.

Menn eru iðulega að stilla dæminu þannig upp að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir Austfirðinga að fá stóriðju til sín til atvinnuppbyggingar og reyndar er sagt að þetta sé til góðs fyrir efnahagslífið í heild sinni.

Vissulega er rétt að líta á málin frá þessum tveimur sjónarhólum, því ljóst er að þessar risnavöxnu framkvæmdir, alls vel á fjórða hundrað milljarð króna, munu hafa veruleg áhrif á alla efnahagsstarfsemi í landinu. Því er ljóst og það staðfesta allir efnahagssérfræðingar að ef ráðist verður í slíka framkvæmd þyrfti að setja aðrar fjárfestingar til hliðar, það þyrfti að setja þær á ís, uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu, í skólum, í vegakerfi o.s.frv. Og til að slá á fjárfestingar á einkamarkaði mundi Seðlabankinn án efa hækka vexti og reyna þannig að koma í veg fyrir þenslu. Allt yrði að víkja fyrir Kárahnjúkavirkjun og risaálbræðslu í Reyðarfirði.

Reyndar hafa efnahagssérfræðingar bætt einu atriði við, það verði tímabundið að opna fyrir innflutning á vinnuafli til að auðvelda uppbyggingu. Við höfum spurt: Er þetta leiðin, að ráðast í 350 milljarða fjárfestingu til að taka á atvinnumálum Austfirðinga, vinnumarkaði sem telur innan við 10.000 manns? Við höldum ekki.