Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:35:19 (3879)

2002-01-31 18:35:19# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vegna umræðna sem hér hafa orðið í dag um vankanta á því að bera mál undir þjóðaratkvæði, þá hef ég farið að hugsa um það að sennilega er umræða á Íslandi af afar skornum skammti. Í rauninni hefur aldrei farið fram almennileg efnisleg umræða um hvort og þá hvernig eigi að standa að málum í slíkum tilvikum. Þegar menn koma hér í ræðustól hver á fætur öðrum og lýsa sig mjög jákvæða í garð þess að leitað sé álits þjóðarinnar í meiri háttar málum, þá er það vel. En síðan hafa margir sömu ræðumenn farið út í að að finna ýmis tæknileg vandamál samfara þeirri kosningu sem hér á í hlut og tala um að kostirnir séu ekki nógu skýrir og er þá væntanlega átt við að þeir ættu að vera fleiri.

Þegar reynt er að leita álits þjóðar á málum, þá er það venjan í framkvæmd að reyna að draga fram gagnstæð meginsjónarmið. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að sjálfgefið sé að viðkomandi mál sé þar með útkljáð um aldur og ævi, heldur eru gagnstæð meginsjónarmið gagnvart efnislegri stöðu málsins á líðandi stund dregin fram. Strax ef boðið er upp á þrjá kosti vandast málið. Þá getur útkoman orðið sú að engin skýr leiðsögn komi út úr kosningunni. Svo ekki sé talað um ef þeir eru hafðir fleiri. Þá er það bara orðið að skoðanakönnun um nokkur tiltekin viðhorf í málinu.

Að sjálfsögðu gæti komið til greina að bera málið upp á annan hátt, setja það eitthvað öðruvísi fram en hér er lagt til. Því höfum við flutningsmenn aldrei neitað. En eftir vandaða yfirlegu töldum við og fleiri aðilar sem við ráðfærðum okkur við að þetta dragi best saman í tvær fylkingar gagnstæð meginsjónarmið í málinu eins og það stendur nú. Og þá geta menn ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að annar kosturinn er þess eðlis að hann er óafturkræfur. Hinn er öðruvísi vaxinn. Þá er málið sett í tiltekinn farveg og hinum óafturkræfa hluta þess, þ.e. framkvæmdunum, er þá a.m.k. skotið á frest.

Hvernig hafa t.d. meiri háttar ákvarðanir nágrannaþjóðanna um nálgun sína við Evrópusambandið verið bornar upp? Hafa þær verið bornar þannig upp að menn segðu annaðhvort já við aðild eða já við þessum samningi, eða nei um aldur og ævi? Að sjálfsögðu ekki, enda er það ekki hægt. Það liggur í eðli máls. Það sem þjóðirnar hafa gert, eins og t.d. Danir eða Norðmenn, endurtekið í atkvæðagreiðslum er að þær hafa fellt að ganga inn í Evrópusambandið á grundvelli einhvers tiltekins samnings. Þær hafa sagt: Gerum það ekki nú. Þar á bak við geta verið margþætt og margreynd sjónarmið manna sem eru algjörlega andvígir því og mundu aldrei, hvað sem tautar og raular, samþykkja það, og annarra sem telja samninginn ekki nógu góðan eða af einhverjum öðrum ástæðum telja þetta ekki rétta tímann o.s.frv.

Var þá kosningunum þannig hagað að gefnir væru sex möguleikar á því hvort Norðmenn ættu að ganga í Evrópusambandið eða Danir ættu að samþykkja evruna? Nei, stillt var upp tveimur megingagnstæðum sjónarmiðum. Það hefur víðast hvar orðið niðurstaðan og ef menn kynna sér hvernig framkvæmd þessara mála hefur verið, þá er það svona.

Ég lít svo á að umræðan beri þess nokkur merki að fyrir þessum hlutum eru ekki hefðir hér, því miður, og við eigum eftir að ræða, þróa og móta bæði aðferðafræði og leikreglur í þessu sambandi.

En er þá ekki hægt að leita álits íslensku þjóðarinnar? Erum við sátt við það að við getum ekki þróað hér beint og milliliðalaust lýðræði og lagt stórmál í dóm þjóðarinnar? Ég segi nei. Ég sætti mig ekki við það. Ég tel að hér sé einmitt komið að máli af því tagi og það sé þannig vaxið og stærð þess sé slík að einboðið sé að þjóðin sjálf taki stefnu í málinu. Hver á að ráða örlögum hálendis Íslands ef ekki þjóðin sjálf? Getur það nokkurn tímann verið ámælisverð málsmeðferð að leita álits þjóðarinnar? Ég verð að segja alveg eins og er að sumar ræðurnar sem voru fluttar í dag í ásökunartón í okkar garð fyrir að láta það hvarfla að okkur að leita álits þjóðarinnar í þessu máli, voru með miklum ólíkindum.

Ég lít svo á að hvenær sem er og hvar sem er og hvar sem mál er á vegi statt, ef það verður niðurstaða manna að skjóta því til hins æðsta dómstóls, þá sé það óaðfinnanleg málsmeðferð. Þá sé það eitthvað sem enginn getur gangrýnt. Það er fráleitt að segja að með því séu alþingismenn að skorast undan ábyrgð sinni. Eða felst það í kosningu okkar að það eigi ekkert að gera með þjóðarviljann nema á fjögurra ára fresti?

Ef staðan í málinu er sú að skoðanakannanir gefa sterkar vísbendingar um að svo kunni að vera að í þjóðfélaginu sé meirihlutavilji andstæður þessari framkvæmd, er mönnum þá alveg sama? Eru það frambærileg rök til þess að ýta þeim möguleika bara út af borðinu eins og hann finnist ekki, að kannski er í vændum það stórslys að stjórnvöld með pólitísku valdi knýi þessa framkvæmd af stað gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar? Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að sá möguleiki er fyrir hendi. Er það þá ekki lýðræðislegt stórslys ef svo gerist? Ég spyr: Hvar væru þeir menn á vegi staddir sem héldu öðru fram?

Herra forseti. Af því að áhrif á byggð á Austurlandi hefur borið hér dálítið á góma, þá er rétt að hafa í huga í því sambandi að fyrir það fyrsta er arðsemi fjárfestinganna sem hér eiga í hlut mjög umdeild. Uppbygging orkufrekrar stóriðju er einhver dýrasta leið sem til er í heiminum til þess að skapa ný störf. Hvert og eitt kostar hundruð milljóna króna.

Reynsla annarra þjóða og allt sem við vitum sjálf um undirliggjandi orsakir byggðaröskunar bendir til þess að árangur í því sambandi náist þá aðeins að ráðist sé að rótum vandans og bætt úr þeim aðstæðum og jafnaður sá aðstöðumunur sem vandanum veldur. Ég endurtek að ríkisstjórn með hörmulegan feril að baki í byggðamálum getur ekki keypt sér fjarvistarsönnun með einni verksmiðju.

Það ber sérstaklega að vara við þeirri nauðhyggju að hér geti ekki orðið nein framþróun í atvinnulífi og bærileg hagsæld, nema til komi risafjárfestingar í stóriðju. Þær þjóðir í kringum okkur sem vegnar best leggja allt kapp á rannsóknir og þróunarstörf og nýsköpun á breiðu sviði framsækinna atvinnugreina, en hefðbundin stóriðja er þar ekkert sérstaklega á blaði. Þjóðin, herra forseti, hefur því efni á að rasa ekki um ráð fram í þessu máli.